Sumarlesning Herðubreiðar (VIII): Sýslumaðurinn sem missti embættið vegna tóbakskaupa, en var gerður að biskupi í staðinn
Straumsfjörður á Mýrum mun hafa verið verzlunarstaður fyrr á öldum. Telur Jón Aðils sagnfræðingur, að þangað hafi siglt kaupmenn frá Hamborg. En svo lögðust siglingar þangað niður þar til á ofanverðri 17. öld, að dönskum einokunarkaupmönnum var leigð þessi höfn. Kom fyrsta siglingin þangað sumarið 1669. Því skipi reiddi svo af, að það fórst á útsiglingu við Noreg.
Brynjólfur biskup Sveinsson hafði hvatt menn um Borgarfjarðarhérað til þess að leggja saman í kaupskip. En þá var hart í ári og snjóar miklir hvarvetna. Prestar urðu til þess að svara áskorun biskups, og má á svari þeirra sjá, hve þá hafði þrengt að mönnum og hvílíkt vonleysi og úrræðaleysi hafði bugað kjark þeirra: „Þriðja afsökun er almennilegar óhægðir og bágindi vors bjargræðis af ýmsum áttum og tilfellum; að norðan hafísinn, að sunnan hretviðrin, sumrin stutt, veturnir langir, nú grasbresturinn, þá nýtingarleysið, hér hagaskorturinn og jarðbönnin, þar hretviðri, hríðar og hrakningar bætast á illdýri, hungur og hordauða hjarða vorra og fénaðar, en af eftirstöðvunum hljótum vér að taka almennilegar og árlegar skuldir.“
Þá var sýslumaður þarna Jón Vigfússon yngri, sonur Vigfúsar sýslumanns Gíslasonar á Stórólfshvoli og Katrínar Erlendsdóttur, konu hans. Hafði Jón fyrst stundað nám í Hólaskóla, en síðan 2 vetur í Skálholtsskóla og mun hafa útskrifazt þaðan 1663, því að árið eftir siglir hann og er skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kaupmannahöfn. Hann varð „baccalaureus“ í heimspeki hinn 29. maí 1666, og daginn eftir fékk hann veitingu fyrir Þverárþingi öllu hjá Henrik Bjelke lénsherra. Kom Jón svo út um sumarið með veitingarbréfið. En Sigurður Jónsson lögmaður hafði þá haft vestra hluta Þverárþings (sem nú heitir Mýrasýsla) um 17 eða 18 ár, en syðra hlutann 4 eða 5 ár. Þótti honum hér stórlega gert á hluta sinn, að öðrum manni skyldi veitt sýslan öll. Varð honum lengi kalt í þeli til hins nýja sýslumanns, og eimdi af því lengi síðan.
Tveimur árum seinna kvæntist Jón sýslumaður Guðríði Þórðardóttur prests í Hítardal Jónssonar, en móðir hennar var Helga dóttir Árna lögmanns Oddssonar á Leirá. Reistu þau bú í Hjörsá og bjuggu þar þangað til Þórdís ekkja Árna lögmanns dó 1670. Erfði þá Guðríður Leirá, og fóru þau þangað búferlum. Meðal barna þeirra voru Sigríður kona Jóns biskups Vídalíns og Þórdís kona Magnúss í Bræðratungu.
Sýslumaður kærður fyrir galdur
Það var nú sumarið 1670, að sigling kom öðru sinni í Straumfjörð, og hét skipstjórinn Thor Gundersen. Jón sýslumaður kom þar um borð og kastaðist eitthvað í kekki milli hans og yfirmanna skipsins. Hafði sýslumaður orðið reiður, eftir því sem sjá má á kæru frá skipstjóranum. En kæra sú var send yfirvöldunum, og segir þar, að hinn 15. ágúst hafi sýslumaður komið um borð og ráðizt á sig og stýrimann sinn, Paul Bocsted, með höggum og slögum og sé mörg vitni að því, bæði Danir og Íslendingar. En auk þess hafði sýslumaður sagt við stýrimanninn: „Du skal faa en Ulykke og I skal ikke vel komme í Eders land.“ Er skipstjóri mjög hræddur við þessa hótun og hefir haldið, að hún myndi verða að áhrínsorðum, því að Jón sýslumaður mundi vera fjölkunnugur. Krafðist hann þess í nafni skipseigenda, að yfirvöldin skipuðu Jóni sýslumanni að setja veð fyrir skipinu, áður en hann færi héðan, ella kvaðst hann verða að setja skipið upp.
Yfirvöldin tóku ekkert mark á þessu, og þrátt fyrir hræðslu sína varð skipstjórinn að láta í haf, þegar hann var ferðbúinn, en það var ekki fyrr en um haustið. Var skipið þá fullhlaðið kjöti (slátrum, segir í annálum). En nú vildi svo slysalega til, að skipið strandaði á Kotfjöru í Landeyjum. Drukknuðu þar tveir skipverjar, og mestur hluti farmsins fór í sjóinn.
Skipstjóri var nú viss í sinni sök, að Jón sýslumaður hefði grandað skipinu með göldrum, og lét hann sex af skipverjum sínum bera það með sér, að sýslumaður hefði haft áðurgreindar hótanir í frammi við stýrimanninn. Einn af þessum skipverjum hét Vincent Nielsen, og er svo að sjá sem hann hafi verið fyrir þeim, því að Jón sýslumaður stefnir honum svo fyrir dóm Þorleifs Kortssonar lögmanns að Smiðjuhóli hinn 16. febrúar 1671 út af þessu. Vincent mætti ekki á þessu dómþingi og enginn af hans hálfu, svo að dómendum leizt ráðlegast, að hann skyldi svara fyrir sig á Alþingi þá um sumarið og sanni þar framburð sinn, en dæmdu að hann skyldi vera sekur eftir lögum fyrir stefnufall.
Þorleifur Kortsson bar svo þetta mál fram í lögréttu á Alþingi sumarið eftir hinn 3. júlí. En það varð ekki sannað, að dómur þessi hefði verið birtur Vincent, og ekki kom hann til Alþingis og enginn af hans hendi. En lögmenn og lögréttumenn gáfu Jóni sýslumanni kost á því að hreinsa sig með eiði af galdraáburðinum, og var honum stílaður svolátandi eiður:
„Til þess legg ég, Jón Vigfússon yngri, hönd á helga bók og það segi ég guði almáttugum, að ég hef aldrei á minni ævi galdur eða fordæðu lært né um hönd haft til brúkunar og aldrei í ráði, vitorði né samsinning verið með nokkurri karlmanns eða kvenmanns persónu í galdurs eða fordæðuskapar gjörningi. Og ei er ég, Jón Vigfússon yngri, valdur töpunar skips eða góss, ógiftu né ófara þeirra manna, sem voru að Straumfirði eða í á næst umliðnu sumri 1670, hverjir sitt skipbrot liðu á Kotfjöru í Vestur-Landeyjum á Íslandi. Og að svo stöfuðum eiði sé mér guð hollur sem ég satt segi, gramur ef ég lýg.“
Létu lögmenn og lögréttumenn í ljós, að þeir teldi að honum væri þessi eiður vel sær, og buðust til að sanna hann með honum. En Jón sýslumaður bað um, að hann mætti vinna þennan eið að Smiðjuhóli hinn 8. júlí, því að þann dag hefði skipstjórinn stefnt honum fyrir dóm Þorleifs Kortssonar lögmanns þar. Var honum það veitt.
Svo var dómþing háð að Smiðjuhóli hinn 8. júlí. Lagði skipstjóri þar fram kæruskjal sitt á Jón sýslumann, er hann hafði skrifað í Hafnarfirði hinn 3. júlí, og nöfn þeirra sex manna sinna, er vitnisburðinn höfðu áður gefið um það, sem fram fór í Straumfirði sumarið áður. Ennfremur var lögð fram stefna, þar sem Jóni sýslumanni var stefnt á þetta þing.
Jón sýslumaður neitaði að svara þeim ásökunum, sem á hann voru bornar með vitnisburði sexmenninganna, enda þótt hann „hefði margt og mikið á móti þeim“. Þóttust dómendur og lögmaður ekki heldur geta tekið vitnisburðinn né kæruna til greina, því að það kæmi í bág við hitt, að Alþingi hefði dæmt sýslumanni eið. Spurði svo lögmaður, hvort dómsmenn sæi nokkuð fram komið, er hindrað gæti að sýslumaður ynni eiðinn, en þeir kváðu það ekki vera. Sór þá sýslumaður eiðinn orðréttan eins og honum hafði verið stílaður hann á Alþingi, og sönnuðu með honum lögréttumennirnir Finnur Sigurðsson og Finnur Jónsson.
Um þetta segir svo í Eyrarannál: „Sór sýslumaður Jón Vigfússon eið fyrir galdra og töpum Straumfjarðar kauphöndlunarskips, hvert eð tapaðist fyrir Landeyjum á því hausti 1670. Var þetta mál í fyrstu mjög hátt reist, og hafði nefndur Jón Vigfússon bæði fógetann (það var Jóhann Pétursson Klein) og fleiri mótvildarmenn í þessu máli. Jón fékk lögmenn og alla lögréttuna með sýslumönnum þennan eið með sér að sanna og þó fleiri. Var tilskikkaður lýrittareiður og unninn á Smiðjuhóli í Borgarfirði. Stóð Jón vel fyrir þessu máli og færði sig heiðarlega undan.“
Tóbaksmálið
En þótt Jón sýslumaður slyppi svo vel undan þessum galdraáburði og ásökunum um að hafa grandað skipi og mannslífum, þá kom nú upp annað mál á hendur honum.
Snemma þetta vor, 1671, hafði hollenzk dugga komið til Krossavíkur á Akranesi. Var á því skipi Torfi Hákonarson, frændi Jóns sýslumanns. Hafði hafði farið utan og setzt að í Hollandi, en kom svo hingað til lands á sumrum á duggum þeirra og hafði meðferðis varninga til sölu til þess að framfleyta sér. Fékk hann gott orð, en var talinn óheppinn í fjármálum. Nú reið hann þegar til Leirár að heimsækja Jón sýslumann, frænda sinn, og var þar vel tekið. Reið sýslumaður síðan með honum til skips, og vissu menn ekki hvað þeim fór á milli.
En svo var það einn morgun litlu síðar, að Torfi kom í land á Akranesi og með honum tveir Hollendingar af duggunni. Höfðu þeir meðferðis sex stóra bagga af tóbaki, eins og þá var venja að flytja, og báru þá upp í sjóbúð þess manns, er Hannes hét Teitsson og vanur var að geyma ýmislegt fyrir sýslumann. Vissi hann ekki betur en að sýslumaður ætti að fá þetta tóbak, enda kom vinnumaður frá Leirá litlu síðar og sótti tvo baggana.
Torfi hafði ekki fengið tóbakið greitt og varð því að bíða, og beið duggan eftir honum. En er hann sízt varði komu menn frá Bessastöðum og tóku bæði hann og dugguna og fluttu þangað suður eftir.
Um þessar mundir var það stranglega bannað að eiga nokkur verzlunarviðskipti við „ófríhöndlara“, og lágu þungar sektir við. Þótti nú sem sýslumaður hefði brotið þessi lög, er hann hafði keypt tóbak af Torfa, og þurfti að rannsaka það mál. Var Torfi hafður til Alþingis, til þess að þeir sýslumaður gætu þar báðir sagt frá skiptum sínum. Lýsti Torfi þar yfir í lögréttu, að sýslumaður hefði keypt af sér tvo bagga af tóbaki fyrir ákveðið verð, en ekki greitt það. En Torfi kveðst þó hafa verið viss um greiðsluna og þess vegna flutt tóbaksbaggana í land og beðið Hannes Teitsson að geyma þá, eins og sýslumaður hefði lagt fyrir sig.
Sýslumaður kvað þetta ekki rétt. Hann kvaðst hafa gert þessa tóbaksbagga upptæka í skipinu og merkt þá konungsmarki, K og M, með krít, og skilið þá eftir, en hina fjóra baggana hefði hann sent til Bessastaða og þar hefði þeir verið vegnir og „voru 2 vættir og 2 fjórðungar með tré og mottum“, og var það rétt.
Eftir þessa yfirheyrslu var Torfa sleppt slyppum, og var ekki meira gert í málinu að sinni, og virtist svo sem það mundi hjaðna niður.
Frá Torfa og Þormóði Torfasyni
Séra Jón Halldórsson segir frá því, að Torfi hafi siglt til Hollands þá um haustið. Ekki er ósennilegt, að hann hafi farið með því skipi, er hann kom hingað á, og gerðist fleira sögulegt í ferð hans.
Þá um sumarið hafði Þormóður Torfason sagnaritari komið hingað til að ráðstafa arfi eftir séra Sigurð bróður sinn, er prestur var að Melum í Melasveit, en andazt hafði sumarið áður. Seldi Þormóður þá ýmsar jarðir, er Sigurður hafði átt, þar á meðal Svignaskarð í Borgarfirði, og keypti það mágur hans Markús Bjarnason á Stokkseyri. Hann var kvæntur Guðrúnu systur hans og áttu þau tvær ólíkar dætur. Önnur var Guðríður, sem giftist Hans Londemann sýslumanni í Árnessýslu, og eru frá þeim komnir „hinir tignustu menn í Danmörku“. Hin var Þórdís, er jafnan var kölluð Stokkseyrar-Dísa.
Um haustið tók Þormóður sér far „með Höfðaskipi“, segir Eyrarannáll, en Vatnsfjarðarannáll segir að hann hafi tekið sér far „í Höfða suður í Holland“. En í grein í dönsku blaði, sem skrifuð er eftir málsskjölum, segir að hann hafi siglt héðan með „hollenzku skipi frá Amsterdam“. Gæti það verið sama skipið sem flutti Torfa hingað, og styrkist sú tilgáta við það, er síðar segir. Með sama skipi sigldi og séra Loftur Jósefsson, fyrrum dómkirkjuprestur í Skálholti, vegna ákæru fyrir galdur, og hafði prestastefna dæmt mál hans “undir kóngsins náð eða ónáð“.
Þetta varð söguleg för. Þormóður tók sér far með skipi frá Amsterdam til Danmerkur, en skip það braut við Jótlandsskaga. Menn komust af, og fór Þormóður landveg til Árósa, en þaðan með skipi til Sjálands. Þar komst hann í annað skip, en það hreppti stórviðri og varð að leita lægis undir Sámsey, og fór Þormóður þar í land. Segir Vatnsfjarðarannáll, að þá hafi þrír aðrir Íslendingar verið í för með honum: séra Loftur Jósefsson, Sigurður stúdent Ásgeirsson prests frá Tröllatungu í Strandasýslu og Torfi Hákonarson. Ef það er rétt, þá virðist svo sem þeir hafi haldið hópinn frá því að þeir fóru frá Íslandi. Þarna henti Þormóð það slys að lenda í illdeilum við mann nokkurn, er Hans Pedersen hét, og er talið að það hafi hlotizt af drykkjuskap Sigurðar Ásgeirssonar. Lauk því svo, að Þormóður vá manninn með sverði. Voru þeir Sigurður báðir gripnir og Þormóður dæmdur til dauða af héraðsrétti. Málið fór síðan fyrir hæstarétt. Þar var Sigurður sýknaður, en talið er að konungur hafi átt hlut að því, að dauðadómur Þormóðs var felldur úr gildi og honum aðeins dæmt að greiða 100 rdl. sekt. Staðfesti konungur þann dóm og „stóri kanslarinn“ Griffenfeld með honum. Espólín segir, að konungur hafi náðað Þormóð og „frelsti hann lærdómur hans, djarfleikur og snilli“.
Sýslumanni vikið frá embætti
En svo var það á Alþingi sumarið eftir, að þeim varð eitthvað sundurorða, Jóni sýslumanni og Jóhanni Klein fógeta. Var sýslumaður óorðvar, og taldi Klein að hann hefði hreytt að sér óvirðingarorðum og reiddist mjög við og hugði á hefndir.
Þegar eftir Alþingi lét hann svo stefna sýslumanni til Heyness á Akranesi, hinn 3. ágúst 1672, fyrir dóm Sigurðar lögmanns Jónssonar út af tóbaksmálinu. Var þangað stefnt vitnunum, og sóru þar tveir menn, Hannes Teitsson, sá er tóbakið hafði geymt, og Guðmundur nokkur Jónsson, að ekkert mark hefði verið á tóbaksböggum þeim, er í land voru fluttir, annað en það merki, er sett hafði verið á þá í Hollandi.
Sýslumaður gat eigi sannað sögu sína, að hann hefði merkt baggana með konungs merki sem upptækt góss, en varð að viðurkenna, að hann hefði skilið þá eftir í skipinu ráðstöfunarlausa.
Var þá dæmt, að hann hefði brotið af sér embætti sitt, og voru þegar settir lögsagnarar í sýsluna. Virtist þó sumum, að það mundi hafa ráðið nokkru um hvað dómurinn var harður, að Sigurður lögmaður hafði eigi gleymt því að Jón náði sýslunni undan honum.
Hinn afdankaði sýslumaður fær biskupstign
Jón sýslumaður sat nú embættislaus á Leirá, en árið eftir (1673) sigldi hann til Kaupmannahafnar til þess að reyna að fá uppreisn, ef auðið væri.
Þá hafði Pétur Griffenfeld komizt til hinna æðstu metorða vegna gáfna sinna og lærdóms og var orðinn æðsti maður konungs. Kom Jón sér í kynni við hann og tókst að ná hylli hans. Leiddi það til þess, að Kristján konungur 5. gaf út skipunarbréf til hans hinn 12. marz 1674, að hann skyldi vera varabiskups á Hólum meðan Gísli biskup Þorláksson lifði, en taka við biskupsdæmi þar við fráfall hans. Samtímis var Jón veitt magisternafnbót. Og annað bréf fékk konungur honum í hendur einnig. Var það skipunarbréf til Brynjólfs biskups Sveinssonar, að hann skyldi vígja Jón Vigfússon til biskups hér í landi. Kom Jón svo út sumarið 1674, og vígði Brynjólfur biskup hann í Skálholti samkvæmt fyrirmælum konungs.
„Það þrennt hafði aldrei skeð hér áður,“ segir Jón Halldórsson í Biskupasögum sínum, „í fyrsta lagi, að einn sýslumaður yrði biskup, í öðru lagi, að biskup var vígður hér á landi, og í þriðja lagi, að 4 íslenzkir biskupar hafi undireins verið hér í landi, hvað allt bar við á þessu ári.“ (Þórður Þorláksson hafði þá tekið biskupsvígslu til að verða eftirmaður Brynjólfs biskups í Skálholti.)
Það er af Griffenfeld að segja, að svo skjótur sem frami hans hafði orðið, þá hrapaði hann þó enn skjótar úr tigninni tveimur árum síðar. Var hann kærður og þungar sakir á hann bornar, og meðal þeirra var sú, að hafa gert hinn afdankaða sýslumann Jón Vigfússon að biskupi. Var Griffenfeld dæmdur til að missa æru, líf og eignir, hið bláa riddaraband af honum rifið og sverð hans brotið. Konungur gaf honum þó líf, en setti hann í ævilangt fangelsi í Munkholm hjá Þrándheimi. Sat hann þar til 1698, að honum var sleppt úr fangelsinu og leyft að fara til Þrándheims. Þar andaðist hann svo 12. marz 1699 á 25 ára afmæli veitingarbréfs Jóns Vigfússonar fyrir biskupsembættinu.
Gísli Þorláksson Hólabiskup andaðist árið 1685, og tók Jón Vigfússon þá við biskupsembættinu á Hólum. Varð það honum hvorki til gæfu né fagnaðar, en það er önnur saga.
Frásagnir – Þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum. Árni Óla skráði (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1955).
(Myndin er af Kristjáni konungi 5., sem réð smáum og stórum örlögum Íslendinga eins og hér greinir frá.)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021