trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 08/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (IV): Moldin beið í þúsund ár – landnámsmaður á 20. öld

Fyrir nokkru lagðist Vagn Sigtryggsson bóndi í Hriflu til hvíldar eftir venjulegan vinnudag. En á þessari kyrrlátu nótt kom dauðinn í hús hans og flutti hann frá konu og sex sonum. Fáum dögum síðar var Vagn jarðsettur á Ljósavatni við hlið bóndans, sem gerði íslenzku þjóðina kristið fólk með orðfáum úrskurði, sem er óvanalega fullkominn, jafnt að efni og formi.

Vagn Sigtryggsson var aldamótabarn, fæddur og uppvaxinn á Hallbjarnarstöðum í Reykjadal. Hann var kominn af fjölmennri gáfumannaætt. Forfeður hans og frændur höfðu verið bændur í Þingeyjarsýslu á þeim tíma, þegar bændur í því héraði uppgötvuðu samvinnuhugsjónina, ortu ljóð og sömdu sögur. Þeir, sem sátu heima á jörðum feðra og mæðra, ortu sín ljóð með öðrum og mjög virðulegum hætti. Vagn var alinn upp í fjölmennum systkinahópi í góðri og vökulli sveit. Hann var hærri en meðalmaður, beinvaxinn og karlmannlegur, djarfur í framgöngu en yfirlætislaus. Á æsku- og unglingsárum tók hann þátt í íþróttum sinna jafningja, einkum glímu og hestamennsku. Þegar Laugaskóli kom á dagskrá, gekk Vagn í sveit sjálfboðaliða úr sveitinni með mönnum á hans aldri og öðrum, sem ortu kvæði við að brjóta harðan melinn í undirstöðu fyrir fyrsta héraðsskólann og fyrstu skólasundlaugina, sem risið hefur hér á landi. Vagn var síðan meira tengdur Laugaskóla. Hann gerðist þar nemandi og síðar um árabil ráðsmaður og fjárhaldsmaður héraðsskólans. Vagn hugði á búskap eins og margir frændur hans. Hann gekk í Hvanneyrarskóla í tíð Halldórs Vilhjálmssonar og bjó varanlega að þeirra kynnum. Skömmu eftir Hvanneyrardvölina festi hann ráð sitt. Kona hans, Birna Sigurgeirsdóttir, var Norður-Þingeyingur, greindarkonam vel mennt og búin mörgum þeim kostum, sem gera konu að mikilli húsmóður á landnámsjörð og móður traustra sona. Sambúð þeirra hjóna var til fyrirmyndar og þá ekki síður uppeldi sona þeirra.

Jónas Jónsson frá Hriflu

Jónas Jónsson frá Hriflu

Búskapur Vagns og framkvæmdir í Hriflu hefðu ekki verið framkvæmanlegar á skömmum tíma með svo mikilli orku, nema af því að saman störfuðu faðir, móðir og börn þeirra.

Þegar Vagn og fólk hans kom í Hriflu, höfðu tveir athafnasamir bændur búið þar um stund, girt túnið og landareignina milli Fljótsins og Djúpár og byggt þar viðunandi hús yfir fólk og fénað. Gerð hafði verið tilraun með vatnsrækt úr Fljótinu. Það var framkvæmanlegt, en ekki lengur tímabært. Þegar Vagn kom að Hriflu, var vélaöldin að hefjast til alveldis í landinu. Vagn hafði alla þá kosti, sem með þurfti til að verða mikill þátttakandi í þeirri framsókn. Bæði hjónin voru samgróin sveitalífinu um ætt, uppeldi og fæddan áhuga. Jafnskjótt og synir þeirra komust á legg, studdu þeir foreldrana með sjálfboðavinnu, ekki sízt við vélanotkunina. Vagn skipulagði nú nýjar framkvæmdir og var ærið stórtækur. Skurðgröfur þurrkuðu ár eftir ár, hvert gróðurlendið af öðru. Síðan komu aðrar vélar, plægðu landið og dreifðu áburði og fræi yfir túnefnið. Brátt kom gróðurinn. Eitt sinn þegar ég heimsótti Hrifluhjónin, var einn akur 10 dagsláttur. Þar var áður graslítið vallendi, en nú fullbúið til sláttar. Þannig óx ræktað land ár frá ári. Sýnilegt var, að Vagn og fjölskylda hans mundu innan tíðar hafa gert allt ræktanlegt land að túni eða dýrmætum bithaga fyrir sauðfé og nautpening.

Eitt sinn þegar ég horfði með aðdáun yfir hin miklu ræktunartún Vagns bónda, brá ég á gamanmál. Hann var úrvalsmaður frá Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri. Ég spurði hvort hann gæti komið á fót í Hriflu jafnstóru kúabúi eins og á Hvanneyri. Vagn svaraði, að það væri hægt en ekki hyggilegt. Mátti segja, að betur væri svarað en spurt. Vagn fjölgaði nautpeningi hóflega og í samræmi við aðra stórræktarbændur í sveitinni. En hann hafði líka önnur háspil á hendi en mjólkurframleiðslu. Hann var afbragðs fjármaður, bæði eða meðfæddum eiginleikum og lærdómi. Hann kunni að nota beitarland jarðar sinnar eins og bezt hafði verið gert á grasleysisárum fyrr á árum. Hann jók fjárstofninn og notaði útbeit með áhuga og gætni. Þegar voraði rak hann geldfé sitt snemma fram á afrétt Bárðdæla. Leysir snjó þar fyrr en í byggðinni og landkostir góðir. Það þóttist ég skilja, að Vagn teldi næstu framkvæmd sína í ræktunarmálunum, þegar vallendi og mýrar hefðu verið fullnýttar, að rækta sneið af hrauni, sem er slétt á yfirborði með vel grasi grónum dældum. Þetta hraun myndi auðsigrað með ýtum og gróðurinn skjótt ná yfir hið plægða hraun.

Nú verður nokkur hvíld í þeim málum, en sú hugsjón Vagns að rækta sauðfjárstofninn með hóflegri beit og notkun afrétta á fjöllum og fullræktuðum túnum á hverjum bóndabæ, mun eiga mikla framtíð.

Vagn Sigtryggsson varð forgöngumaður í einni af hinum nýju landnámsdeildum Íslands. Fyrir þúsund árum var allt land alnumið á hálfri öld. Þá stóðu hlið við hlið karl og kona og þeirra börn. Landnámsfólkið og nýjar kynslóðir sköpuðu með því sögufrægt menningarlíf í landinu við erfið skilyrði. Þúsund ára sigursæl lífsbarátta forfeðra og formæðra á Íslandi verður aldrei fulldáð eða fullþökkuð. Með aldamótunum síðustu bárust hlýir og hressandi menningarstraumar yfir landið. Þá bjóð þjóðin við frelsi og vaxandi tækni. Þjóðin hafði beðið og barizt örugglega í 10 aldir. Þá kom nýr liðsauki. Moldin hafði beðið allan þennan tíma eftir fullum sigrum. Nýtt landnám er hafið. Vagn Sigtryggsson var einn af þessum vökumönnum. Nú er hann lagður til hvíldar. En víðáttumikil gróðurlönd í námunda við Goðafoss munu um ókomin ár bera glæsilegan vott um hið nýja landnám aldamótamannanna. Að þessu landnámi stóð sterk fjölskylda, drengileg og þróttmikil hjón með sex vaska syni sér við hlið. Þessi fjölskylda vakti moldina á litlum sveitabæ af löngum dvala.

Jónas Jónsson frá Hriflu, Samferðamenn, minningaþættir (Bókaforlag Odds Björnssonar, 1970). Jónas Kristjánsson bjó til prentunar. Greinin er skrifuð árið 1966.

1,286