trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 07/09/2015

Stórkostlegur árangur – smá samhengi

Árangur karlalandsliðsins í fótbolta er vitaskuld ekkert annað en stórkostlegur. Setjum hann samt í eitt samhengi.Landslið karla í fótbolta

Kvennalandsliðið okkar hefur tvisvar komizt á Evrópumótið í fótbolta, ef rétt er munað. Við tókum ekkert rosalega mikið eftir því.

Í það minnsta var engin þjóðhátíð á Ingólfstorgi þegar það gerðist.

Stelpurnar voru – eins og strákarnir á sínum tíma – stutt frá því að komast á HM í Kanada í sumar. Mig minnir að tap gegn Dönum hafi gert útslagið.

Og hvað? Dregur þetta einhvern veginn úr því afreki sem strákarnir hafa unnið núna? Alls ekki hreint og víðs fjarri því. Sigrar þeirra hafa verið ævintýralegir og langt umfram það sem nokkurn hefði getað dreymt um.

Það eitt, að vinna Hollendinga tvisvar í röð, var nóg. Fyrir það fara nöfn þeirra í sögubækur.

Sigrar þeirra eru stórir og okkur þykja þeir stærri en stelpnanna meðal annars af því að við þekkjum nöfn andstæðinganna. Það er ekki lítið verk að halda Arjen Robben í skefjum og skora þrisvar hjá Peter Cech. Van Persie átti aldrei séns á Laugardalsvelli og var ekki einu sinni settur inn á í Amsterdam.

En samt. Það er smá samt. Hugleiðum bara þetta: Einn Íslendingur er á topp tíu listanum yfir þá sem hafa skorað mest í keppnum á vegum evrópska fótboltasambandsins, UEFA. Það er ekki Eiður Smári, ekki Gylfi, ekki Kolbeinn.

Þetta er Margrét Lára Viðarsdóttir. Fyrst fyrir tæpum mánuði tókst Lionel Messi að smokra sér upp fyrir hana í sjöunda sætið. Ruud van Nistelrooy mun aldrei ná henni.

Og hvað? Þarf nú endilega að setja súr í stemmninguna með einhverju svona kynjasamanburðarþusi? Nei, þess þarf vitaskuld ekki, en mér finnst gagnlegt að setja hana í samhengi. Það segir sitthvað um okkur.

Það er nú allt og sumt sem þessi leiðindakall vildi sagt hafa. Og jú, auðvitað: Til hamingju. Þetta er dásamlegt.

Listi UEFA

1,416