trusted online casino malaysia
Valgerður Bjarnadóttir 19/12/2014

Stórkarlarnir stíga fram

Bjarni og SigmundurEinhverjum þykir það sennilega að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um fjárlagafrumvarpið. Frumvarpið var samþykkt í vikunni og og nú höfum við fjárlög sem ekki verður breytt.

Fjárlögin enduspegla stefnu ríkisstjórnarinnar og þess vegna verður umræða um þau seint úrelt, ef fólk veltir fyrir sér stjórnmálum yfirleitt.

Það er rauður þráður í fjárlögunum. Gert er vel við þau sem nóg hafa en lífið ekki auðveldað þeim sem minna hafa. Þessa sér alls staðar stað, því miður.

Strax á hveitibrauðsdögunum hóf ríksstjórnin að lækka gjöld sem höfðu verið lögð á útgerðina, sem er sannarlega aflögufær, og hafa þau verið lækkuð tvisvar sinnum síðan það var. Á hveitibrauðsdögunum var virðisaukaskattur á gistingu líka lækkaður í skyndi. Og ríkisstjórnin var einörð í því að framlengja ekki auðlegðarskattinn, sem færði ríkssjóði tæpa 10 milljarða á þessu ári. – Samtals er þetta fullt af milljörðum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar verið spör á að lækka tryggingagjöld, sem lögð eru á öll fyrirtæki í landinu, stór og smá. Tryggingajöld eru í raun launaskattur og eru þess vegna þungbærust mannfrekum fyrirtækjum, með öðrum orðum, fyrirtækjum þar sem launakostnaður vegur þungt í heildarkostnaði. Tryggingagjöld eru léttbærari fyrirtækjum þar sem fjárfesting vegur þungt.

Ekki nóg með að tryggingagjöldin hafi varla verið lækkuð, framlög af þeim til velferðar svo sem fæðingaorlofssjóðs og atvinnuleysisbóta hafa lækkað. Stærri hluti þeirra rennur því nú beint í inn í ríkissjóð.

Þessi þróun í álögum á atvinnuvegina er einkennandi fyrir allt sem ríksstjórnin gerir. Þessi ríkisstjórn lækkar álögur á ríku fyrirtækin. Litlu fyrirtækin fá ekki neitt. Af hverju? Við því er einfalt svar. Þetta er stórkarlaríkisstjórn.

Stórkarlaríksstjórnin hækkaði líka skattinn á menninguna: bækurnar og tónlistina. Fyrirtækin sem gefa út bækur og tónlist eru einmitt lítil, mannfrek, fyrirtæki sem finna mest fyrir tryggingagjöldunum. Þau sem eiga þau og stjórna þeim greiddu sennilega fæst auðlegðarskatt og eru því ekki undir verndarvæng ríksstjórnarinnar.

Meðferð ríkisstjórnarinnar á menntun og menningu er reyndar sérstakt umhugsunarefni. Bókaskattur, RÚV skorið inn að beini, tuttugu og fimm ára og eldri meinað um aðgang að framhaldsskólum. Menntamálaráðherrann er ánægður með að hafa barist ötullega gegn lýðréttindum og mannréttindum á síðasta kjörtímabili og vill nú bæta um betur og beinir kröftum sínum að menntun og menningu.

Meðferðin á þeim sem minnst mega sín, öryrkjum og atvinnulausum er einstök. Öryrkjar fá ekki að njóta jákvæðarar þjóðhagsspár á næsta ári og nú skal ekki lengur borga atvinnuleysisbætur í þrjú ár eins og ákveðið var 2006 heldur skal tímabilið stytt í tvö og hálft ár. Og enginn er uppsagnarfresturinn, ef svo má að orði komast. Með hálfsmánaðar fyrirvara er atvinnulausum tilkynnt að þeir fái ekki lengur greiddar atvinnuleysisbætur.

Matarskatturinn er hækkaður og ríkisstjórnin talar um áhrif þess á heimilin í meðaltölum. Það verður ekki skilið öðru vísi en þau telji að þau sem verja stærstum hluta tekna sinna í mat vegi hækkunina upp með því að kaupa sér ísskáp eða borðstofumublur. Reyndar er skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á lífskjörum fólksins – kannski sérstaklega unga fólksins og gamla fólksins – algert.

Aldrei hafa hærri fjárhæðir runnið í heilbrigðiskerfið, segir forsætisráðherrann. En það er ekki spurningin heldur hvort það sé nægilegt fjármagn sem þangað rennur. Verkfallsaðgerðir lækna hafa nú varað í nokkrar vikur, í fyrsta skipti á Íslandi. Ríkisstjórnin er ráðalaus. Forsætisráðherranum datt meira að segja í hug að aðilar vinnumarkaðarins mundu leysa þetta fyrir hann. Forvitnilegt væri að vita hvort kostnaður við verkfallsaðgerðirnar hefur verið reiknaður út. Þá á ég bara við peningalegan kostnað en ekki öll þau óþægindi og ábyggilega á stundum angist sem verkfallsaðgerðinar hafa valdið.

Enn væri hægt að halda áfram um hvernig fjárlögin eru lýsandi fyrir stórkarlaríkisstjórnina. Samþykkt var fjárveiting til að flytja Fiskistofu landshluta á milli. Til þess að það sé hægt þarf að breyta lögum. Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem heimilar ráðherra að ákveða að flytja stofnanir með manni og mús á milli landshluta, hvort heldur það er í þökk eða óþökk starfsmannanna. Samskonar ákvæði var felt út úr lögum um stjórnarráðið sem samþykkt voru 2011. Forsætisráðherrann vill hverfa aftur til fortíðar í þessum efnum, sem og fleirum.

Framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er 145 milljónir króna, þar er enn á ferðinni vitleysan um Náttúrupassann. Stjórnarandstaðan reyndi að hafa vit fyrir ríksstjórninni og lagði til að auka þessi framlög um 600 milljónir en það var að sjálfsögðu fellt. Áfram mun því vandræðagangurinn í umgengni við þennan nú mikilvægasta atvinnuveg landsins halda áfram.

Úff – það er eiginlega það eina sem mér dettur í hug að lokum.

Flokkun : Pistlar
1,526