trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 10/01/2015

Sterkur bjánahrollur: Samkrull viðskipta- og stjórnmálalífs í lipurlega skrifaðri bók laskaðs manns

Billions to BustRitdómur – Hjálmar Gíslason

(Billions to Bust and Back: Björgólfur Thor Björgólfsson, 2014)

Það er nær ómögulegt að dæma þessa bók án þess að dæma um leið manninn að baki henni.

Enda hlýtur það að vera einn helsti tilgangurinn með útgáfu hennar: Að gera lesandanum grein fyrir bólunni og hruninu sem fylgdi frá sjónarhóli höfundar og móta þannig sýnina á einn af þeim mönnum sem hvað mest áberandi voru í þeirri atburðarás. Saman við þetta blandast svo uppvaxtar- og viðskiptasaga hans og að nokkru leyti ættarsaga sem er Björgólfi greinilega mjög hugleikin.

Þetta er lipurlega skrifuð bók. Atburðarásin er oft á tíðum reyfarakennd, stundum svo mjög að hún myndi sóma sér vel í skáldsögu. Með því er ekki sagt að hér sé liðugt krítað. Fyrir „kreppunörda“ sem þegar eru vel lesnir í viðskiptasögu Björgólfs og atburðarás hrunsins kemur raunar fátt nýtt fram í bókinni, en sjónarhornið er í sumum tilfellum nýtt. Þetta sjónarhorn, og raunar öll frásögnin af viðskiptasögu Björgólfs, gefur innsýn í heim og hugsunarhátt ákveðinnar gerðar viðskiptamanna. Manna sem lifa og hrærast í stórum og oft á tíðum flóknum fyrirtækjaviðskiptum, eru tilbúnir að taka mikla áhættu í þeim viðskiptum án þess endilega að hugsa þá áhættu til enda, og þrífast að því er virðist best í tímaþröng og flóknum marghliða samningaviðræðum. „Deal junkies“ eins og Björgólfur kallar sjálfan sig í upphafi bókarinnar. Þessu er vel lýst í gegnum upphafið í Rússlandi, fjárfestingarnar í Austur-Evrópu og Skandinavíu og – síður heppnaðar – fjárfestingar í Þýskalandi og víðar.

Þó Björgólfur leggi sig fram við að segja frá hlutunum í einlægum, jafnvel auðmjúkum, tón er samt sem áður ekki dvalið mikið við það sem illa gekk í þessum viðskiptum og upplifun af einstökum atburðum áreiðanlega öðruvísi frá sjónarhóli annarra sem að þeim komu. Má þar til dæmis nefna viðskiptin í kringum drykkja- og átöppunarverksmiðjurnar í Rússlandi, en sú saga – sem meðal annars hefur verið sögð frá sjónarhóli annarra þátttakenda í þeim viðskiptum í allhörðum málaferlum – hljómar sannarlega öðruvísi úr þeirra munni. Eðlilega. Það verður aldrei endanlegur samhljómur um það sem á sér stað í slíkum kringumstæðum. Upplifun manna er einfaldlega ólík og hér er henni lýst frá sjónarhorni Björgólfs.

Í samhengi atburðarásarinnar á Íslandi er það líka þetta – að sumu leyti nýja – sjónarhorn sem er áhugaverðast við bókina. Reyndar virðist ritstjóranum í sumum tilfellum hafa yfirsést að ef til vill séu ekki allir lesendur hennar vel lesnir í íslenkum hrunmálum fyrir. Þannig eru fyrirtæki, atburðir og fólk stundum nefnt til sögunnar án þess að bakgrunnsupplýsingar eða samhengi komi fram. Sem dæmi má nefna að þegar Straumur er fyrst nefndur til sögunnar (bls. 82) er greinilega gert ráð fyrir að lesandi viti að Björgólfur var þar stór hluthafi og ein helsta driffjöður. Þetta spillir bókinni örugglega að einhverju leyti fyrir lesendum sem koma „kaldir“ að málum.

Í bókinni er sagt blátt áfram frá samkrulli íslensks stjórnmála- og viðskiptalífs á árunum fyrir hrun (og reyndar þar sem komið er inn á sögu Björgólfs eldri, áratugi). Kannski er það að hluta til afleiðing af því að frásögnin er á ensku, en stundum læðist að manni sterkur bjánahrollur við þann lestur. Ekki vegna þess sem Björgólfur tekur sér fyrir hendur, heldur vegna þess að þessar lýsingar á því hvernig völd og auður á Íslandi ráðast í hrærigraut viðskipta og stjórnmála eru stingandi réttar. Björgólfur talar um hóp um það bil 30 manna sem réðu öllu í íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir hrun. Hann undanskilur sig ekki þeim hópi en er mikið í mun að aðgreina sig frá öllum öðrum viðskiptamönnum þar sem hann hafi komið með pening erlendis frá meðan hinir hafi fjármagnað nær öll sín viðskipti, hérlendis sem erlendis, með íslensku lánsfé. Hann leggur líka áherslu á að hann hafi ekki komið að málefnum Landsbankans með beinum hætti, en er þó fljótur að nota fyrstu persónu fleirtölu – „we“ – í frásögnum af bankanum sem bendir nú kannski til þess að hann hafi ekki upplifað sig sem algeran utanbúðarmann.

Í upphafi bókarinnar kemur fram að þegar Björgólfur flytur utan í kringum tvítugt hafi hann viljað segja skilið við Ísland fyrir fullt og allt. Eftir að hafa auðgast erlendis hafi það svo verið mistök að „fara aftur inn í Ísland“ í bólunni og þegar kemur að hruninu sjálfu er uppleggið þannig að Björgólfur hafi séð erfiðleika í uppsiglingu talsvert löngu áður. Þá hafi verið of seint – eða sársaukafullt – að bregðast við. Hér skal ekki dregið í efa að þetta hafi að einhverju leyti verið raunin hjá þeim sem hvað þéttast voru með puttann á púlsinum í aðdraganda hrunsins. Annað væri stórskrítið, enda voru margir komnir í vafasamar björgunaraðgerðir þegar árið 2007 eins og dæmin sanna. Hins vegar verður því ekki varist að sumt af þessu virkar óþægilega mikið sem eftiráskýringar, hver svo sem raunin var.

Skuldauppgjöri Björgólfs, sem felst í samningum við Deutsche Bank og samblandi af heppni og útsjónarsemi í tengslum við Actavis, er svo lýst. Viðskiptaveldi Björgólfs kemur útúr öllu þessu standandi, og hann sjálfur sem milljarðamæringur í dollurum talið. Þar með í raun í hópi auðugustu manna heims. Orðstír hans er hins vegar stórlega laskaður á Íslandi og bókin er að einhverju leyti tilraun til að bæta úr því. Það er óvíst að það takist.

Fyrir mína parta kann ég að meta þessa viðleitni Björgólfs. Þrátt fyrir að sumt í frásögninni hljómi eins og réttlæting eða eftiráskýringar, þá hefur Björgólfur lagt sig fram við að skýra sína hlið mála. Aðrir í áðurnefndum 30 manna hópi hafa látið lítið fyrir sér fara og látið sig hverfa úr umræðunni. Ef til vill stafar það af því að nær allir sæta þeir rannsókn hjá Sérstökum saksóknara, og vilji því ekki eða geti tjáð sig mjög opinskátt um þessi mál. Það er ekki tilfellið með Björgólf.

Það er vonandi að þeir taki Björgólf sér til fyrirmyndar að þessu leyti, ef ekki núna, þá þegar enn lengra líður frá. Aðdragandi, framvinda og eftirmál hrunsins er og verður merkilegur tími í Íslandssögunni og þó bækur sem þessi séu ekki hlutlausar heimildir, þá er áhugavert – og að mörgu leyti mikilvægt – að heyra þá sögu sagða frá sjónarhóli þeirra sem næst stóðu.

Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket

2,031