Stefna Hannesar Hólmsteins hefði útilokað palestínsku flóttakonurnar og börn þeirra
Fréttaskýring
Mun harðari stefna í innflytjendamálum skýtur nú upp kollinum á hægri væng Sjálfstæðisflokksins og virðist eiga rætur í kosningasigrum Framsóknarflokksins og Svíþjóðardemókrata.
Athygli vakti í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í vor, að Björn Bjarnason, Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson tóku undir málflutning Framsóknarflokksins í moskumálinu svokallaða og gagnrýndu Sjálfstæðisflokkinn um leið fyrir linkind.
Björn kallaði Framsóknarflokkinn og málflutning hans „the real thing“ og sakaði Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík um „ládeyðu.“ Um sama leyti skrifaði Hannes um „hinar ofsafengnu árásir netdverganna“ á Framsóknarflokkinn og sagði rétt að miða innflytjendastefnu við lokun, rétt eins og fólk læsti húsi sínu fyrir hugsanlegum innbrotsþjófum. Svipuð viðhorf komu fram í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins.
Eftir sigur Svíþjóðardemókrata í sænsku þingkosningunum um síðustu helgi tók sig upp skyldur þráður. Björn Bjarnason vekur athygli á því að fylgi Svíþjóðardemókrata – sem hann kallar Svíþjóðarlýðræðissinnana – komi að mestu leyti frá stóra miðhægriflokknum, Moderatarna.
Hannes segir að sigur Svíþjóðardemókrata sendi „skýr skilaboð“ til hægri manna á Íslandi sem annars staðar.
Í gær birti Hannes svo það sem hann kallar „Afstaða mína til innflytjenda.“ Þar tilgreinir hann fólk af ákveðnu þjóðerni eða uppruna sem æskilega innflytjendur umfram aðra vegna þess að það sé duglegt eða hæfileikaríkt. Hann skilgreinir einnig þrjá hópa fólks sem Íslendingar hafa „ekkert að gera við.“
Einn er þeir sem þurfa félagslega aðstoð, annar glæpamenn, sá þriðji þeir sem reyna „að troða sínum siðum upp á okkur.“
Ekki hefur skort viðbrögð við þessum sjónarmiðum. Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata kemst að þessari niðurstöðu:
„Helsti gallinn við málflutning Hannesar Hólmsteins liggur ekki í því að innflytjendum og fjölmenningu geti ekki fylgt einhver samfélagsleg vandamál. Það tel ég nefnilega óumdeilt. Við þurfum að geta rætt þessi mál á staðreyndagrundvelli og tekið á þeim.
Nei, helsti gallinn er sá að hans tillaga að lausn er miðstýrð, ómanneskjuleg, illa ígrunduð, í litlu samræmi við alvarleika vandamálanna – og ósamrýmanleg frjálslyndum viðhorfum til mannlífsins.“
Ritstjóri Herðubreiðar, Karl Th. Birgisson, rifjar upp þetta í grein:
„Mér varð ósjálfrátt hugsað sex ár aftur í tímann. Nánar tiltekið upp á Akranes.
Þangað komu á sínum tíma hátt í þrjátíu palestínskar flóttakonur og börnin þeirra. Þau voru heimilis- og ríkisfangslaus eftir innrásina í Írak.
Óhætt er að fullyrða, að Íslendingar hafi haft fátt annað en kostnað af komu og veru þessara kvenna og barna hér. Alls konar félagsleg aðstoð, húsnæði, aðlögun, íslenzkukennsla, menntun fyrir börnin, ekkert nema útgjöld og vesen. Ekki verður séð að við höfum haft af fólkinu nokkurt gagn.
Að vísu berast af því fréttir að þessu fólki líði almennt vel á Skaganum, einhverjir hafi jafnvel orðið ástfangnir og börnin séu glöð og sæl – og í skóla eins og börn eiga að vera.
Það breytir ekki hinu, að samkvæmt skilyrðunum sem Hannes Hólmsteinn setur fram í sinni ígrunduðu stefnu í innflytjendamálum hefði þessu gagnslausa og útgjaldafreka fólki aldrei verið hleypt inn í landið.“