trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 11/12/2015

Sósíalisti á sigurför

Ritdómur – Svavar GestssonSkúli Alexandersson

Þá hló Skúli – saga Skúla Alexanderssonar alþingismanns og oddvita undir Jökli

Óskar Guðmundsson

(JPV 2015)

Skúli Alexandersson var fæddur 9. september 1926. Hann var kappi; hann hljóp hundrað metrana ungur á 12 sekúndum og var eiginlega alla ævi á hlaupum. Hann var athafnamaður. „Okkur þyrsti í athafnir segir“ á einum stað í bókinni Þá hló Skúli. Nafnið á bókinni er frábært, segir okkur sem þekktum kappann sögu sem við könnumst við og svo er myndin á kápunni skínandi. Glettinn og eldhress. Hann var alla ævi nútímamaður líka fram í andlátið þó hann væri á níræðisaldri; barðist fyrir breytingum á samfélaginu eins og það var á hverjum tíma; fyrst formaður í verkalýðsfélaginu í Djúpuvík barnungur, að endingu umhverfismálahetja Snæfellsness. Alltaf að hugsa um það sem hann sá og heyrði og fann í kringum sig, að brjóta heilann, reyna að skilja, vega og meta. Ég heimsótti þau Hrefnu nokkrum sinnum á Hrafnistu síðasta sprettinn; hann sprækur. Lifi byltingin sagði ég þegar ég opnaði dyrnar hjá þeim. Og Skúli hló. Þannig voru okkar kynni í nærri hálfa öld.

Óskar Guðmundsson skrifar bókina og hafði lokið handritinu rétt áður en Skúli dó; þeir voru að vinna í myndum þegar hann kvaddi. Líkt Skúla, að klára, ganga frá, hnýta hnútana. Fara svo í annað.

Í bókinni eru margar skemmtilegar setningar hvort sem þær eru frá ritaranum eða Skúla en þær eru Skúlalegar: „Stundum kom fyrir að fuglar sem voru ekki á löglegum skrám þvældust fyrir hlaupið hjá bændum, en það var sjaldan.“ (bls. 13) Fyrsti hlutinn um lífið í Djúpuvík vestra og í Kjós er afar fróðlegur um þjóðlíf og aðstæður norður þar. Breytingarnar síðan eru lygilegar og þó eru ekki einu sinni hundrað ár síðan það gerðist sem Skúli segir frá fremst í bókinni. Þar koma við sögu tíðindi sem ég vissi ekki um, eins og að menn fengu sér kolluunga í matinn: „Kolluungarnir voru lostæti í súpu, en þetta taldist slysakjöt…“ (29) Norður þar tókust á frumstæðir búskaparhættir og sjálfur nútími vélvæðingarinnar í verksmiðjunni miklu í Djúpuvík þar sem eigendurnir græddu á tá og fingri og heimamenn náðu sér í álitlegar tekjur með mikilli vinnu. Um verksmiðjuna segir: „Talið er að hún hafi borgað sig upp að fullu á tveimur árum.“ (35) Þarna segir frá frumstæðum aðferðum: Orkugjafinn var kol og kolahaugarnir voru eins og fjöll og fólkið flutti kolin í land á smáskektum. En verksmiðjan í Djúpuvík breytti öllu í sveitinni: „Lífið í Kjós tók strax breytingum við verksmiðjuna í Djúpuvík sem andaði í takt við árstíðirnar…“ (38) Í Árneshreppi voru 450 íbúar árið 1938, prófskyld börn 71 árið 1940. Skúli gekk í skólann á Finnbogastöðum, heimavistarskóla, en fór heim um helgar, gangandi, tíu ára fyrst, þriggja tíma gangur hvora leið. Aðbúnaður barnanna í skólanum er umhugsunarverður; þar var hlandfata á miðju gólfi í strákaherberginu. Þeir sem voru veikbyggðari voru látnir hella úr fötunni. (44) Þarna eru margar góðar sögur úr hversdagslífinu, eins og af bóndanum sem kom í Kjós og sagði frá því að konan sín hefði eignast enn eitt barnið sem alls urðu sextán og var spurður hvort það hefði verið strákur eða stelpa. „Já, en ég man það nú barasta ekki – en það var gott og blessað hvort sem það var.“ (55)

Strákurinn í Kjósinni var vel að manni, hljóp hundrað metrana á tólf, hljóp um fjöll og firnindi. Fór í skóla í Reykjanesi við Djúp, seinna í flugnám. Gefur í skyn að hafa ekki fengið að fara í flugnám erlendis af einhverjum sérkennilegum ástæðum, hverjum? Hefði verið gaman að vita. Fór í Samvinnuskólann, fyndin saga af því þegar Jónas nálgaðist hann.

Skúli varð snemma og svo alla ævi forystumaður, varla lentur á Hellissandi ungur maður fyrr en hann var orðinn þar oddviti og svo allt í öllu.

Sósíalisti

Skúli var sósíalisti frá upphafi til endaloka. Það kemur fram í bókinni aftur og aftur. Sjálfur sagði hann mér frá því að hann hefði snúist á sveif með sósíalistum þegar Sovétríkin unnu sigur á Hitler í Stalíngrad. „Ég aðhylltist lífssýn sósíalismans en með útgangspunkti í frjálsri atvinnustarfsemi og virðingu fyrir öllu fólki – reyndar öllu lífi að leiðarljósi… Okkar sósíalismi byggðist á… friðarvilja og andófi gegn herðnaði og stríði… Bókmenntasmekkur okkar var hér í samhljómi við pólitíkina.“ (309)

Aftur og aftur kemur hann að sósíalismanum i bókinni. Hann lýsir manni þannig að hann hafi flosnað „upp frá sósíalismanum.“ (52) Jóhann Ársælsson segir frá því að „aðrir höfðu áhyggjur af uppgangi sósíalismans í bæjarfélaginu“ (129) þegar Skúli var að taka þar við forystu. Teitur Þorleifsson skólastjóri var bandamaður Skúla og hélt upp á það þegar Halldór fékk Nóbelsverðlaun; Jóhann Ársælsson segir frá því þegar kennarar og nemendur lásu upp úr verkum HKL þegar hann fékk Nóbelsverðlaun. Þetta líkaði ekki öllum. „Þeim fannst hátíð um Halldór Laxness vera hneyksli.“ (129) Hann var vel með á nótunum þessi ungi sósíalisti mikið fyrr á kosningafundi á Djúpuvík 1937 þar sem Björn Kristmundsson var frambjóðandi fyrir Kommúnistaflokkinn. Aftur og aftur kemur Skúli því að hvernig lífsskoðanir sósíalista skipti hann máli. „Grundfirðingar áttu alltaf sterkan félagslegan sósíalískan kjarna.“ (232) Merkilegt finnst mér talið um Stalínismann. „Teitur hafði takmarkað álit á Stalín og á framkvæmd sósíalismans í Rússíá. Það álit Teits… skerpti stundum átakalínurnar í spjallinu.“ (147) „En hitt er svo annað mál að söguleg framvinda í löndum þeirra og frammistaðan á styrjaldarárunum gegn framrás nasista var þannig að auðvitað var ég á um tíma stalínisti. Og er dálítill stalínisti enn ef út í það er farið…“ (98) Stalín var skúrkur en verður ekki alltaf skúrkur þegar sagan hefur dæmt hann, segir Skúli. Þarna skilur á milli okkar Skúla, en margir eldri félagar töluðu svona á mínum uppvaxtarárum í hreyfingunni.

Forystueðli

Í nýjasta hefti af Náttúrufræðingnum er grein um forystufé. Það er líka forystunáttúra i fólki. Skúli var alltaf í forystu og sló aldrei af. Hann gat að vísu verið nokkuð svona: „…því báðir erum við stífir á meiningunni þegar svo ber við“ segir Ari sonur hans. (137) En forystunáttúran var sterkari en allt annað í Skúla, að safna liði til að takast á við breytingar. Það er forystueðli í einstaklingum mannlegum eins og öðrum dýrum jarðarinnar. Sósíalisminn var hin driffjöðrin í Skúla. Varla lentur við Hellissand þegar hann var gerður að oddvita og þá var nú tekið til hendinni: „Árið 1957 hófst bygging verbúða í Rifi til að tryggja áframhaldandi framkvæmdir við höfnina. Okkur lá mikið á…“ (112) Þetta er eins og lykilsetning í ritinu Þá hló Skúli; okkur lá mikið á. Svo var ráðist í framkvæmdir við vatnsveituna og lagður vegur fyrir Jökul; „…það var annað kosningaloforð byltingarstjórnarinnar.“ Allt á fullu.

Svo fann hann Hrefnu eða Hrefna hann, það var mikil gæfa og góð báðum. Þá þurfti að byggja hús fyrir fjölskylduna og steypa. Hann fékk mann að vestan að hjálpa sér en sá var vanur steypuvinnu þaðan og hafði Skúli aðstoðað hann; ótrúlegar frumstæðar aðfarir: „…það var hrært í tunnu sem á voru festar eins konar tröppur svo tunnan leit út eins og tannhjól. Steypuefnið var sett fyrst í tunnuna sem fest var á öxul og síðan byrjaði maður að hamast með fótunum á þrepunum á tunnunni og snúa henni uns steypan var nægilega hrærð. Ég sumsé hrærði steypuna með fótunum.“ (120) Svona sögur eru nokkrar í bókinni; ætti ekki að skrifa nýjan kafla í Íslenskir þjóðhættir? En það voru ekki svona aðfarir þegar Skúli byggði og Hrefna á Hellissandi, fljótvirkari.

Fljótlega eftir að Skúli kom vestur var farið svo að gera út. „Við vorum nokkrir félagshyggjumenn sem keyptum Bryndísi, lítinn Bátalónsbát…“ „Okkur þyrsti í athafnir.“ (123) Þeir stofnuðu hlutafélag, Draupni. Þá var hann kominn í útvegsmannafélagið. Svo þurfti að vinna fyrir sér; lítil laun fyrir oddvitastarfið svo oddvitinn fór í beitningu. En baráttan var á fullu; það þurfti höfn í Rifi. Sú barátta heitir orrusta í bókinni. Og svo varð auðvitað að koma flugvöllur, en ekki hvað? Svo malbikunarframkvæmdir. Og fráveitumál. „Alls konar félagsstörf hlóðust á mig.“ (181) Forysta í HSH, Héraðssambandi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Ruddur var íþróttavöllur í kargahrauni. Góður völlur. „Meira að segja koma stundum Ólsarar til að æfa á þesum velli…“ Það var toppurinn að fá Ólsarana! Svo sundlaug: þannig að gerð var í frystihúsinu laug klædd með striga þrír til fjórir metrar í þvermál. „Kælivatnið af vélum frystihússins var látið renna í laugina til að halda henni heitri.“ Fyrsta innilaugin á Snæfellsnesi. (194) Góðan daginn! Svo byggði herinn hæsta mastur í heimi sem er hærra en sjónvarpsturninn í Berlín og Torso í Malmö. Náttúrlega. Nú og auðvitað banki, þar sem Lúðvík kom við sögu sem formaður bankaráðs Landsbankans. Lúðvík skildi eftir sig þessa hugsun þegar hann kom að opna bankann á Hellissandi: „Það er enginn vandi ef menn eru þrír saman að stjórna einu bæjarfélagi.“ (197) Það er málið, þannig tókst þeim í Neskaupstað að halda meirihluta í hálfa öld, þremur, sjá um það grein mína um Lúðvík í Andvara í fyrra. En ekki voru bara verkleg mál á dagskrá Skúla, þar var líka menning, saga og seinna umhverfismál, allt, hann var til dæmis í ritnefnd Jöklu-bókanna. Og í kirkjunni: „Okkur fannst það vera sjálfstæðismál fyrir sveitarfélagið að vera með eigin prest… Og þá lagðist ég í víking og barðist fyrir því… Þetta tókst og Ingjaldshólsprestakall varð sjálfstætt prestakall árið 1994.“ (206) Svo leikskóli sem hægri menn voru á móti: „…leikskólar voru á þessum tíma stundum taldir vélabrögð kommúnista til að umbreyta mannfólkinu.“ En það kom leikskóli. (207) Tónlistarskóli. „Ég kom að þessu einsog hver annar borgari sem félagi í Lionsklúbbnum.“ (211)

Semsé: Vinna, menning, sósíalismi samasem lífshamingja.

Þegar Skúli hafði forystu á hendi og verk var í höfn og hann hélt ræðu þá kom í ljós hvað hann var góður að þakka fyrir. (209) Það er einmitt góð aðferð til að halda áfram. En það var ekki alltaf þakkað sem gert var: „Fólk sem stendur að breytingum á samfélagi á oft ekki upp á pallborðið gagnvart sögunni. En ég áttaði mig á því að slík verða oft örlög þeirra sem vinna í pólitík.“ (189) Þetta er athyglisverð setning.

Landsmálin

Svavar GestssonAuðvitað hlaut svona maður að verða kallaður til þess að hafa forystu fyrir sósíalistum á Vesturlandi. Hann stóð alltaf þétt með Jónasi Árnasyni sem varð þingmaður Vesturlands 1967. Hann hafði verið á þingi fyrir Seyðisfjörð 1949, var svo boðinn fram bæði 1953 og 1956 en náði ekki kjöri. Flutti í Borgarfjörð, augljóst að hann myndi vera til í að fara í framboð hvað hann gerði. Bauð sig fyrst sjálfur fram á fundi í Alþýðubandalaginu i Borgarnesi þegar það var stofnað í september 1966. Ég var á þeim fundi og hluti af forystu Sósíalistaflokksins studdi Jónas til framboðs. Jónas komst semsé inn 1967 á prósentu eins og það hét þá í því undarlega kerfi við úthlutun uppbótarsæta sem notað var til 1983. Jónas fékk 13,2 % en Ragnar Arnalds formaður flokksins 12,73 % og komst ekki inn.

Skúli fjallar um málefni Alþýðubandalagsins og er þetta haft eftir honum: „Við vorum í ákveðinni forystukreppu um hríð í okkar hreyfingu. Kannski Kjartan Ólafsson hefði orðið heppilegri forystumaður en þeir sem tóku við.“ „Þeir sem tóku við“ var reyndar eintala, ég. Getur vel verið að þetta sé rétt; málið er mér of skylt, en af einhverjum ástæðum kemur þetta mér á óvart. Ekki einn einasti maður kom þessari skoðun á framfæri á þessum tíma. Né síðar. En höfundur bókarinnar Þá hló Skúli hefur áður skrifað um Alþýðubandalagið.

Þegar Jónas lét af þingmennsku þá fór Skúli á þing. Það var rökrétt ákvörðun. En ég er ekki viss um að Skúla hafi alltaf liðið vel á Alþingi. Það var þröngt um hann í Hlaðbúð; átökin eftir 1985 voru honum hvimleið. Hann segir til að útskýra stöðu sína: „En ég var samt aldrei bara flokksmaður heldur kannski frekar félagsmálamaður.“ (217) Þetta er rétt hjá Skúla að vissu marki en hann var góður flokksmaður, alltaf reiðubúinn til allra verka, hver sem þau voru. Ég veit reyndar ekki hvað það er að vera „bara flokksmaður“, ég var það ekki og verð aldrei, en ég er félagsmálamaður – eins og Skúli.

Kvótamálin

Skúli fjallar um kvótamálin og segir að þau hafi farið illa með Alþýðubandalagið; ég er ósammála þessu. Afstaða okkar til kvótakerfisins var alveg skýr eða eins og má lesa um í þingtíðindum í mörgum ræðum mínum og formanns þingflokksins sem var þá Ólafur Ragnar Grímsson en ég formaður flokksins; til dæmis kemur þetta fram:

„Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

  1. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Svavar Gestsson:

„Herra forseti. Ég vil láta það koma hér strax fram að ég get ekki samþykkt 1. gr. í frv. hæstv. sjútvrh. Ég mun greiða atkv. á móti þeirri grein. Það er vegna þess að í henni er gert ráð fyrir víðtækara valdaafsali löggjafarvaldsins til framkvæmdavaldsins en ég get staðið að.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að stuðla að því að settar verði lagareglur sem auðvelda stjórn fiskveiða í landinu, en ég samþykki ekki lög um menntað einveldi. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti 1. gr. þess frv. sem hér er á dagskrá. Ég tel að það sé ekki sæmandi, miðað við þær lýðræðislegu kröfur sem gera verður í okkar þjóðfélagi, að Alþingi veiti einum manni slíkt vald.“

Þegar málið kom til meðferðar og atkvæðagreiðslu í þinginu þá studdi einn okkar þingmanna, sá sem var í sjávarútvegsnefnd, atkvæði með kvótakerfinu. En við hin greiddum öll atkvæði gegn því.

Málaferli gegn mannorði

En málaferlin gegn Jökli voru ferleg. Skúli var kærður fyrir kvótasvindl. Þvílíkur áburður á Skúla sem var heiðarlegur fram í fingurgóma. Honum sveið þesssi atlaga sáran og hann tók ákæruna sem pólitíska aðför gegn sér. Svo mikið er víst að þetta voru málaferli gegn mannorði. Hann barðist um á hæl og hnakka og hafði fullan sigur. En málaferlin skildu eftir sig sár. „Ég leit aldrei á málið öðruvísi en sem pólitíska aðför að mér.“ (263) Hann taldi að afstaða Alþýðubandalagsins í kvótamálunum hefði breyst á þessum árum: „Á árunum 1987 til 1990 breyttist afstaða þingflokks Alþýðubandalagsins í kvótamálinu.“ (266) Honum fannst vont að sjá okkur í ríkisstjórn með Halldóri Ásgrímssyni sem hann taldi aðalandstæðing sinn en það er ekki rétt að afstaða flokksins hafi breyst. Skúli hætti svo á þingi og lagði mikla áherslu á að Jóhann Ársælsson tæki við af honum sem og varð.

Þau Hrefna fóru aftur á fullt fyrir vestan og lögðu ekki árar í bát. Skúli fann fjölina sína aftur: ferðabóndi, frábær leiðsögumaður, leiðtogi undir Jökli, mundi eftir Guðbjörgu Þorbjarnardóttur, þau Hrefna stofnuðu bókaverslun. Hann var fremstur í því að stofna Snæfellsnesþjóðgarð. Og á þessum árum varð Samfylkingin til: „Það kom aldrei til greina í mínu tilviki að ganga til liðs við Vinstri græna.“ (287) Ég var sammála Skúla, leist ekkert á VG til að byrja með. En Skúli áfram: „Margir félaga minna – og sumir bestu vina minna, urðu eftir og tóku þátt í stofnun Vinstri grænna. Þá var ég svosem ekki lengur í brúnni, en ég sá samt eftir þeim.“ Við töluðum lengi saman um pólitík í svítu þeirra Hrefnu á Hellissandi haustið 2012. Frá þeim samtölum verður ekki sagt hér því ég er nú einn til frásagnar.

Bókin um Skúla skilar því vel að þar var á ferðinni vaskur maður, höfðingi, fremstur meðal jafninga, sósíalisti. Mér finnst að sumu hefði mátt svara ítarlegar í bókinni, en Skúli dó og þar með hlaut að koma punktur í þetta rit. Það er snjöll aðferð að hafa skyggða kafla og klausur hér og þar í bókinni; þar eru meðal annars ljóð eftir Hrefnu. Þau áttu gott líf og góða krakka sem enn halda á lofti merkinu fyrir vestan. Það var táknrænt að fyrirtæki Skúla hét Jökull; það var táknrænt að Jökull vann sigur í hæstarétti. Skúli var sósíalisti á blússandi ferð, á sigurför alla ævi.

Svavar Gestsson

Flokkun : Menning
1,476