Sonnetta (á heimili Ingmars Bergmans)
Svo sem í skuggsjá horfði hann á verkin,
hver hans kvikmynd: eigin spegilmynd.
Persónurnar voru minnismerkin
mótuð af hans eigin erfðasynd.
Þeirra líf var líkast því hann dreymdi
liðna daga úr eigin sálarborg.
Hugsun þeirra í huga sér hann geymdi
hrærðist jafnt í gleði þeirra og sorg.
Enn þegir guð, þótt hrópað sé og hvískrað
í hugverkum og leiklist þessa manns.
Á tjaldinu er talað enn og pískrað
um tilgang lífsins, fjarvist skaparans.
Myndskáldið dó, en mál hans ekki um sinn:
í myndum kvikum lifir draumurinn.
Ágúst Guðmundsson
(Sonnettan var skrifuð í gestabók á heimili Bergmans, þar sem höfundur dvaldi í september 2015.)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021