Slitatillaga á leið inn í þingið?
Ég er farinn að hallast að því, að á alveg næstunni muni ríkisstjórnin legga fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Eins og margir aðrir hef ég velt fyrir mér furðubréfinu, sem búið er að snúa allri þjóðfélagsumræðu á hvolf síðan fyrir helgi, og mér sýnist þetta líklegasta skýringin.
Bréfið er birt í heild á íslensku á vef utanríkisráðuneytisins sem PDF-skjal.
Bréfið augljós reyksprengja
Eins og margir aðrir fletti ég bréfinu upp strax á fimmtudagskvöldið. Það er vægast sagt efnisrýrt. Mér sýndist helst mega festa hendur á tveimur atriðum:
Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju.
og …
Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.
Einna helst virðist hér vinsamlega verið að biðja forystumenn ESB um að birta nafn Íslands ekki á lista yfir umsóknarríki. En að þetta „jafngildi“ afturköllun umsóknarinnar er fjarstæða. Það sjónarmið setti Eiríkur Bergmann Einarsson prófessor fram í fésbókarfærslu strax á fimmtudagskvöld og ítrekaði það í viðtali við RÚV í gær. Frétt RÚV hefst svona:
Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins sé meiriháttar stefnubreyting hjá ríkisstjórninni því hún hafi hætt við að slíta formlega umsókn um aðild að ESB.
Þetta er auðvitað hárrétt greining hjá Eiríki. Bréfið er ámóta merkilegt og jólakort. En að þetta sé endapunkturinn og ríkisstjórnin sé beinlínis hætt við að afturkalla ESB-umsóknina, gengur hreinlega ekki upp í mínum huga.
Þetta margfræga bréf hlýtur sem sagt að eiga sér einhvern allt annan tilgang. Það er eins konar reyksprengja, sem kastað var inn í samfélagsumræðuna með ákveðið markmið í huga.
Fyrst að skapa ringulreið …
Forystumenn minnihlutans á Alþingi vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og segja má að þeir hafi hreinlega stokkið í allar áttir einu. Rétt eins og til var ætlast. Og þeir héldu áfram að standa undir væntingum. Stanslaust hávaðarifrifrildi hefur staðið á Alþingi frá því að fréttist af „jólakortinu“ og skyndilega fóru ESB-sinnar á þingi að krefjast þess að hin boðaða tillaga um viðræðuslit yrði lögð fram. Til að fá þetta mál alveg á hreint.
… og svo kemur tillagan
Þá er eiginlega ekkert annað eftir en að taka hinn háværa þingminnihluta á orðinu, leggja tillöguna fram og keyra hana í gegn. Mér þykir satt að segja trúlegast að einmitt til þess hafi leikurinn verið gerður.
Ný þingsályktunartillaga um að afturkalla formlega aðildarumsókn Íslendinga að ESB verður þannig eiginlega lögð fram að kröfu minnihlutans. Vafalaust verður líka mælst til þess að þingmenn virði sjálfir þann eðlilega gang lýðræðisins, sem þeim hefur orðið svo tíðrætt um, og tefji ekki fyrir með tilgangslausu málþófi.
Til hvers þessa krókaleið?
Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir voru vægast sagt í slæmri klemmu. Aðildarumsóknin hefur flækst fyrir þeim í bráðum tvö ár. Fyrir síðustu kosningar boðuðu báðir flokkar þjóðaratkvæðagreiðslu og sá vilji var ítrekaður á blaðamannafundi þegar stjórnarsáttmálinn var undirritaður.
En svo rann upp fyrir mönnum, að meirihluti gæti reynst fylgjandi áframhaldandi viðræðum, og þá þurfti að finna aðra lausn. Þingsályktunartillagan í fyrra mætti hins vegar svo mikilli andstöðu að menn gáfust upp í bili.
Ný þingsályktunartillaga hefur verið boðuð, en dregist að leggja hana fram. Maður var hálfpartinn farinn að halda, að málið væri að gufa upp. Báðir málsaðilar voru hættir að nenna að rífast og sýndust nokkuð sáttir við að láta þetta mál bara liggja.
En í stjórnarherbúðunum eru fjölmargir sem ekki geta hugsað sér að halda opnum þeim möguleika að eftir tvö ár geti ný ríkisstjórn hreinlega tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir tveimur árum. Mjög sterk öfl í báðum stjórnarflokkunum leggja allt kapp á að fyrirbyggja það. Og í herbúðum stjórnaliða er mönnum fyrir löngu ljóst að núverandi ríkisstjórn heldur ekki meirihluta í næstu kosningum.
Þess vegna varð þessi reyksprengjuleið fyrir valinu.
Hefur ríkisstjórn svona mikil völd?
Maður skyldi ætla að Alþingi þurfi í það minnsta að leggja blessun sína yfir svo stórt mál sem þetta. Þó má vera að stjórnskipan Íslands veiti ráðherra vald til að taka slíka ákvörðun, en meiri háttar utanríkismál á þó að leggja fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Síðbúið jólakort Gunnars Braga Sveinssonar til Brussel er samt augljóslega ekki svo stórt mál.
En að því gefnu að ríkisstjórnin hafi í raun og veru ætlað að afturkalla aðildarumsóknina að ESB með bréfi, verður að gera ráð fyrir að það hefði staðið í bréfinu. Á afturköllun er hins vegar ekki minnst einu orði. Þess vegna hlýtur tilgangur bréfsins að hafa verið annar. Framhald fléttunnar gæti líka verið hugsað einhvern veginn öðru vísi, en þetta er sú leið sem mér þykir líklegust.
Meðan engin þingsályktunartillaga er komin fram, er þessi pistill auðvitað aðeins tilgáta. Þeim sem svo kjósa er líka frjálst að líta á hann sem „samsæriskenningu“.
En ég yrði sem sagt ekkert verulega hissa.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019