trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/04/2020

Skjóttu, Dagur. Skjóttu

Karl Th. Birgisson skrifar

Í öllum kreppum eru tækifæri. Reykjavíkurborg er sennilega í dauðafæri núna.

–– –– –– ––

Yfirgengilegur húsaleigukostnaður á undangengnum árum á sér ýmsar skýringar.

Ein var hversu margir útlendingar komu hingað til að vinna, ýmist til að þjónusta ferðamenn eða vinna í byggingariðnaði. Það var kærkomin sending og án þeirra hefði samfélagið ekki fúnkerað.

En einhvers staðar þurfti þetta fólk að eiga heima. Sumir voru látnir hírast við glæpsamlegar aðstæður, en allt að einu hækkaði leiguverð þegar eftirspurnin var langt umfram framboð. Þannig virkar óheftur kapítalismi.

Önnur ástæða var hversu margar íbúðir fóru í skammtímaútleigu til ferðamanna í gegnum airbnb og svipaða vefi. Hálfu göturnar í miðbænum hýstu bara ferðamenn með þessum hætti. Þar sem áður bjuggu heimamenn voru nú túristar. Svosem allt í lagi með það og ekki einsdæmi í heiminum, en eftirspurnin í ferðamannasprengjunni varð til þess að ýta leiguverði enn hærra upp.

Nú er sú eftirspurn engin og verður ekki næstu mánuðina, jafnvel langt fram á næsta ár.

–– –– –– –– 

Ég kannaði hversu margar airbnb-íbúðir er hægt að leigja í Reykjavík í næstu viku. Þær eru vel á fjórða hundrað. Þetta eru vel að merkja íbúðir, ekki stök herbergi.

Að óbreyttu munu þessar íbúðir ekki skila eigendum sínum neinum tekjum næstu misseri, aðeins valda kostnaði.

Á leiguvef Moggans reyndust vera sirka 150 íbúðir í boði. Sennilega er þarna einhver skörun, en þegar aðrar leiguleiðir og fasteignavefir bætast við eru mjög líklega nokkur hundruð leiguíbúðir í Reykjavík, sem eigendurnir sitja uppi með og hafa engar tekjur af á næstunni. Bara kostnað.

Í því ligggur tækifærið fyrir Reykjavíkurborg.

Borgin á að freista þess að kaupa lungann úr þessu húsnæði.

–– –– –– ––

Hvers vegna? Fyrir því eru einkum tvær ástæður.

Nú eru um 650 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Myndarleg uppkaup á húsnæði myndu höggva stórt skarð í þann hræðilega lista, sama hvort kaupin væru gerð í gegnum Félagsbústaði eða sérstakt leigufélag, sem hefði aðrar og rýmri reglur í anda þeirra sem Bjarg starfar eftir.

Hin ástæðan er ekki síður mikilvæg. Þegar ferðamannastraumurinn hefst aftur – sem hann gerir – þá hefur Reykjavíkurborg með slíkri ráðstöfun komið umtalsverðum fjölda leiguíbúða í skjól frá miskunnarleysi markaðarins. Það verður ekki önnur viðlíka airbnb-sprengja á leigumarkaðnum þegar nokkur hundruð íbúðir hafa verið fjarlægðar þaðan.

(Ferðamennirnir þurfa þá í meira mæli að leita á gistihús og hótel, og verða þá væntanlega efnameiri túristar. Var ekki einhvern tímann markmið að ná í fleiri slíka, en færri af hinum?)

En er þetta ekki feikilega dýrt? Nei.

Þessar íbúðir eru flestar litlar eða af millistærð – einmitt af þeirri tegund sem of lítið hefur verið byggt af, – en verum rausnarleg og gefum okkur að þær kosti 40 milljónir að meðaltali. Tvö hundruð íbúðir kosta þá átta milljarða króna samtals. 300 íbúðir leggja sig á tólf milljarða.

Ég segi ekki að það séu smáaurar, en þeir eru það í reynd í hinu stóra samhengi. Uppkaup af þessu tagi væru heldur ekki hreinn kostnaður, hvað þá eyðsla í nokkrum skilningi, heldur fjárfesting. Borgin getur fengið lán á lágum vöxtum og svo fengi hún vitaskuld leigutekjur á móti um ókomna áratugi.

–– –– –– ––

Nú er ég að vísu úr máladeild, en það er sama hvernig ég sný þessari hugmynd – ég sé ekki á henni alvarlega skavanka.

Og hitt megum við vita, að ef máladeildarnörd sér svona tækifæri, þá hafa gammarnir þarna úti alveg áreiðanlega séð það líka.

Hitt vita ennfremur allir sem hafa horft á fótbolta: Þegar maður kemst í dauðafæri, þá verður að skjóta og það fyrr en seinna. Annars kemur einhver annar, tekur boltann og skorar.

Það sleppur ef viðkomandi er í sama liði. Gammarnir eru það ekki.

Svo skjóttu, Dagur. Skjóttu.

2,332