Skipta makar forsetaframbjóðenda máli? Já, í þremur fyrri tilvikum. Ekki núna
Almennt er viðurkennt, að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, þáverandi eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, hafi átti stóran þátt í sigri hans í forsetakosningum árið 1996.
Guðrún Katrín var enda vinsæl og glæsileg kona, en hún lést árið 1998.
Fyrir fjórum árum tók núverandi eiginkona Ólafs, Dorrit Moussaieff, virkan þátt í kosningabaráttunni og ferðaðist með forsetanum vitt og breitt um landið. Lén framboðsins var olafurogdorrit.is. Óvissara er þó, hversu mikinn hlut Dorrit átti í sigri Ólafs, en hún naut altjent mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar.
Þessu og fleiru er lýst í væntanlegri bók Karls Th. Birgissonar, Alltaf einn á vaktinni – saga af forseta og þjóð hans, sem gefin er út í samvinnu við Karolina Fund.
Þar segir þó ekki síður af öðrum maka frambjóðanda, Svavari Halldórssyni, sambýlismanni og barnsföður Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda árið 2012. Áhrif hans á framboðið voru þveröfug við þær Guðrúnu og Dorrit, þótt þau hafi fráleitt gert útslagið um hvernig kosningarnar fóru.
Grípum niður í örstutt kaflabrot úr bókinni:
Hitt umræðuefnið var svo aldrei langt undan og var jafnan dvalizt ekki síður við það, en það var sambýlismaður og barnsfaðir Þóru, Svavar Halldórsson fréttamaður.
Svavar var og er mjög umdeildur fréttamaður og hefur þegar þessi bók er skrifuð verið tvisvar dæmdur í hæstarétti fyrir rangan fréttaflutning – eða í það minnsta óréttmætan í skilningi réttarins – í málum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Pálma Haraldssyni.
Jón Ásgeir og Pálmi eiga sér fáa fylgismenn þessi misserin – og fjölmiðlafólk hefur almennt varið fréttir og vinnubrögð Svavars í þessum og fleiri málum – en ýmislegt annað kom til.
Á margra vitorði var dómur sem Svavar hafði fengið fyrir líkamsárás árið 1992, tuttugu árum fyrr, þegar hann var rétt liðlega tvítugur, og verður fjallað nánar um hér á eftir. Annað flækti hins vegar málið í þrengri hópi.
Margt fjölmiðlafólk sem komið er á giftingaraldur minnist nafnlausra bloggfærslna sem haldið var úti fyrir nokkrum árum. Umræðuefnið í þessum færslum var fjölmiðlar og ekki síður fjölmiðlafólk – undir yfirskriftinni „Sá sem allt heyrir og sér“ eða álíka.
Þarna voru í skjóli nafnleyndar felldir dómar um mann og annan, þessa fréttina og hina, og hversu ómögulegur þessi og hinn fréttamaðurinn væri, en þess var reglulega látið getið hversu ágætlega Svavar Halldórsson og nokkrir kollegar hans hann stæðu sig í faginu.
Mörgum í blaða- og fréttamannastétt ofbauð það sem þarna var skrifað, en síðunni var lokað nokkrum mánuðum eftir að Svavar og Þóra fóru að draga sig saman og að sögn viðmælenda vissi Þóra ekki um tilvist hennar þegar að framboði dró.
Þetta er nefnt hér vegna þess að í stuðningshópi Þóru var margt fjölmiðlafólk sem hafði unnið með henni, studdi hana einlæglega og vildi henni allt hið bezta, en hafði sínar prívatástæður til að efast um að fréttamaðurinn og sambýlismaðurinn Svavar Halldórsson yrði framboðinu til framdráttar. […]
Öll þessi umræða, svo og vitneskja og reynsla af ýmsu öðru sem Svavar varðaði, olli mörgum í herbúðum Þóru áhyggjum. Þau töldu Svavar vera framboðinu til trafala og að opinber hlutur hans í því ætti að vera sem minnstur.
Fleiri en einn kom þessari skoðun á framfæri við Hrein Hreinsson, að Svavar væri „liability“ – baggi á framboðinu – og að hann ætti að halda sig til hlés.
„Nei-ei, það verður nú ekki alveg þannig,“ svaraði Hreinn.
Það varð heldur ekki alveg þannig.
(Úr 5. kafla: Hvað skal með Svavar?)
Í yfirstandandi forsetakjöri hafa makar frambjóðenda komið lítið sem ekkert við sögu og engar vísbendingar eru um að það muni breytast. Þetta er ólíkt kosningunum 1996 og 2012, þrátt fyrir meinta séð-og heyrt-væðingu forsetaembættisins, sem svo er oft kölluð.
Lesa má nánar um bók Karls hér.