Sjúklingar eða sægreifar?
Stundum finnst mér að ráðamenn þessarar þjóðar – og kannski landsmenn allir – mættu hugleiða forgangsröðun aðeins betur. Þrátt fyrir auð og velsæld höfum við ekki efni á alveg öllu sem hugurinn girnist.
Í nútímasamfélagi gerum við miklar kröfur og veltum sennilega ekki oft fyrir okkur nákvæmlega í hvaða röð við myndum raða lífsþægindunum ef við nauðsynlega þyrftum. Samt grunar mig að ef í hart færi, yrði forgangsröðun flestra hin sama. Heilbrigðisþjónusta og menntun er það tvennt sem við viljum síst missa.
Hvort skyldi fársjúkur maður velja: Lækningu og 40 ár í viðbót – eða nettengingu þessa þrjá mánuði sem eftir eru?
Íslenska heilbrigðiskerfið á í harðri samkeppni um starfsfólk. Það er ekkert auðveldara fyrir þetta fólk en að fá mun hærri laun á Norðurlöndunum. Það er sem sé svo komið, að verð fyrir heilbrigðisþjónustu ræðst að stórum hluta á markaði.
Þegar þetta hefur verið viðurkennt, verður jafnframt ljóst, að kjarabarátta heilbrigðisstétta ætti að vera óþörf. Spurningarnar sem stjórnvöld og allir landsmenn standa frammi fyrir eru þessar:
Hvernig viljum við forgangsraða? Viljum við í raun og veru hafa traust og gott heilbrigðiskerfi? Og erum við tilbúin að borga það verð, sem til þarf?
Það ætti ekki að vera hlutverk forsvarsmanna stéttarfélaga að lýsa því yfir, að félagsmenn þeirra muni í framtíðinni velja sér vinnustað (og land) eftir launum. Ráðamenn eiga einfaldlega að sjá þetta sjálfir. Þetta eru nefnilega ekki hótanir, heldur nær því að vera lýsing á veðrinu.
Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, verður að bjóða heilbrigðisstéttum lífskjör, sem þola samjöfnuð við Norðurlöndin. Við getum að vísu snapað einhvern afslátt út á það, að fólk vill auðvitað helst starfa í heimalandinu.
En þessa einföldu staðreynd þurfa allir að sætta sig við. Stjórnvöld þurfa að sætta sig við að greiða markaðsverð fyrir þessa þjónustu. Og aðrir launþegar þurfa að sætta sig við að sjá heilbrigðisstarfsmenn príla upp fyrir sig í launastiganum.
Auðvitað þarf að afla tekna til að mæta þessum auknu útgjöldum. En það er fremur auðvelt. Á sama hátt og við sættum okkur við að greiða markaðsverð fyrir vinnu heilbrigðisstarfsfólks, eigum við auðvitað að heimta markaðsverð fyrir auðlindaaðgang, sem nú er úthlutað á gjafakjörum.
Það er fyllilega sanngjarnt að spyrja, hvorir standi framar í forgangsröðinni, sjúklingar eða sægreifar.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019