Sá sem á slíka vini …
Í ríkisstjórn Íslands er einn ráðherra, sem reynir í fullri alvöru að vinna að almannahag. Sá ráðherra heitir Eygló Harðardóttir. Hún mætir nú fullum fjandskap og verulegum tuddaskap frá Sjálfstæðisflokknum með formanninn og fjármálaráðaherrann, Bjarna Benediktsson, í fararbroddi. Og frá samflokksmönnum hennar heyrist ekki aukatekið orð henni til varnar.
Sá sem á slíka vini, þarfnast ekki óvina.
Það sem brýnast er að gera á íslenskum húsnæðismarkaði er hvorki margt né flókið. Það er hins vegar stórt viðfangsefni. Allra nauðsynlegast er að byggja ódýrar leiguíbúðir. Til að leigan geti orðið eðlileg, þurfa þessar íbúðir að rísa á vegum félagasamtaka, sem ekki eru rekin í gróðaskyni, heldur einungis ætlað að standa undir kostnaði ásamt nauðsynlegu viðhaldi og varasjóði.
Annað brýnt verkefni er að koma á sanngjörnu húsnæðisbótakerfi. Þetta tvennt tryggir öllum þak yfir höfuðið. Það var húsnæðiskerfi af þessum toga sem sósíaldemókratar byggðu upp á Norðurlöndum á áratugunum kringum miðja síðustu öld. Hérlendis erum við á byrjunarreit.
Þegar fyrst var tekið að greiða húsaleigubætur hér á landi, hækkaði húsaleigan og gleypti megnið af bótunum vegna þess að leigusalarnar þurftu að bæta sér það upp, að telja leiguna fram til skatts. Nú er því haldið fram að hærri húsnæðisbætur muni renna í vasa leigusalanna. Aðdáendur þeirrar kenningar gleyma þó einu:
Húsaleiga í íbúðum leigufélaga í almannaþágu verður miklu lægri en sú leiga sem nú er pínd út úr fólki í krafti ofboðslegs húsnæðisskorts. Ágóðaleigusalarnir fá heilbrigða samkeppni.
Áður en menn voga sér að slengja fram gagnrýni af þessu tagi varðandi húsnæðisbótafrumvarp Eyglóar Harðardóttur, verður að setja það í samhengi við væntanlegt frumvarp hennar um leigufélög og stofnstyrki. Við þurfum að sjá þessi frumvörp í samhengi til að geta gert okkur grein fyrir heildarmyndinni.
Bjarni Benediktsson beinlínis neitar að taka meginfrumvarpið til athugunar. Þess í stað mátar hann húsnæðisbæturnar við núverandi ástand. Sem vel að merkja er ástand, sem hann vill umfram allt komast hjá að breyta. Sjálfstæðismenn sjá ekkert athugavert við að græða á neyð annarra.
Svo merkilegt sem það er, heyrist hvorki stuna né hósti frá formanni Framsóknarflokksins. Hann ætti þó auðvitað að koma ráðherra sínum til varnar gagnvart svo hatrömmum árásum frá samstarfsflokknum.
En kannski er hann bara alls ekki í því liði.
Stjórnarandstæðingar á þingi ættu að sjá sóma sinn í að styðja Eygló. Þessi baráttumál hennar eru einmitt meðal helstu hugðarefna margra þeirra.
Og svo á hún sem sagt svona vini …
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019