Óvænt uppákoma: Í fyrsta sinn fer kjör formanns fram á landsfundi. Kostar nokkur þúsund krónur að greiða atkvæði
Í fyrsta sinn í sögu Samfylkingarinnar fer formannskjör fram á landsfundi, en ekki í allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna eins og venja hefur verið.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tilkynnti um framboð til formanns undir kvöld í gær, einum sólarhring áður en kjörið fer fram, en það gerist á landsfundinum í dag kl. 17.30 og stendur í klukkustund. Kosningarétt hafa landsfundarfulltrúar sem greitt hafa landsfundargjald, kr. 5.900, en samkvæmt upplýsingum Herðubreiðar verða þeir um 800.
Í lögum Samfylkingarinnar er almennt gert ráð fyrir því að formaður sé kjörinn í beinni atkvæðagreiðslu allra félagsmanna. Síðbúið framboð Sigríðar fer eftir öðrum fyrirmælum í lögum flokksins.
Össur Skarphéðinsson var kjörinn fyrsti formaður flokksins í almennri atkvæðagreiðslu og tóku um 4.500 manns þátt.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir felldi Össur í formannskjöri árið 2005 og voru þá greidd um tólf þúsund atkvæði.
Jóhanna Sigurðardóttir fékk ekki mótframboð og var sjálfkjörin 2009 og 2011.
Loks sigraði Árni Páll Árnason í formannskjöri árið 2013. Þá greiddu um 5.500 almennir flokksmenn atkvæði.
Óhætt er að segja að tilkynning Sigríðar Ingibjargar í gær hafi komið á óvart og valdið nokkru uppnámi í flokknum. Herðubreið hefur heimildir fyrir því, að í aðdraganda landsfundar hafi fjölmargir afþakkað boð um að vera landsfundarfulltrúar þar sem ekki hafi stefnt í meiri háttar kosningar á þinginu, hvað þá formannskjör. Þeir hinir sömu eru afar ósáttir við að nú stefni í formannskjör þar sem þeir hafa ekki tækifæri til að greiða atkvæði.
Í fyrsta sinn í sögu flokksins eru það því fáein hundruð manna, en ekki mörg þúsund, sem geta greitt atkvæði í formannskjöri. Og atkvæðisrétturinn kostar 5.900 krónur.