Orðkynngi án skreytni
Í fyrradag hélt ég upp á 40 ára stúdentsafmæli. Hjá mér hófust herlegheitin í Háskólabíói þar sem ég smeygði mér inn á skólaslit í sama mund og hátíðin hófst. Alveg eins og í menntaskólanum gætti ég þess að koma ekki of snemma. Ég horfði á sviðið og heyrði að stúdentsefnin gengu í salinn. Minningar hrannast upp og allt í einu fannst mér eins og ég væri kominn í þriðja bekki í stafsetningartíma hjá Magnúsi Guðmundssyni sem kallaður var Magnús góði. Ég lygndi aftur augunum.
Yngissveinar og meyjar tíndust slyndrulaust upp á sviðið og þrengdu sér á afmarkað rými. Sýnilega var beygur í sumum, en öðrum þótti veigur í því að fylla brátt fylkingu afbragðsmenna og snilldarvífa sem ekki hefðu heykst á sleitulausum fræðaiðkunum heldur hvergi kvikað. Klæðilegar flíkur prýddu íturvaxnar snótir og piltarnir gengu með reisn og minntu í engu á hengilmænurnar sem fyrir fjórum árum knúðu dyra fyrsta sinni hjá menntagyðjunni.
Háreftur salurinn fylltist andakt er tónaflæði og skringilegur texti þrýstist úr lagvissum berkjum söngvaranna, sem stilltu tónhæð eftir kvísl stjórnandans. Þótt rektorinn slyngi, Yngvi Pétursson, tæki ekki lagið var þingheimi ljóst, að hann vissi hvað hann syngi. Af orðkynngi, en án allrar skreytni, rakti hann registur fremdarverka snillinga í hópi nemenda sem gerðu garðinn frægan með dáðum, afrendir að afli og visku.
Engum dylst að ýfingar eru með menntafrömuðum og valdsmönnum þótt allt virðist friðsamlegt á ytra byrði. Ýkjulaust eru yrjótt afskipti yfirvalda engum til fremdar. Illugi bjóst tæpast við, að neinum fyndist það vansalaust, að hnýst hefði verið í einkamál skólans. Það bregst ekki, að hviklyndi stjórnvalda og hvatskeyti verður þeim til hneisu og minnkunar.
Jafnræði var við brautskráninguna og vó salt fjöldi pilta og stúlkna. Verkhyggni og seigla dugnaðarforka var launuð að verðleikum og margur latínugráninn og talnaspekingurinn fékk urmul verðlauna, auk þess sem skólann fýsti að launa veglyndi og gæsku öðlinga í hópnum með því að skenkja þeim glaðning í þakklætisskyni.
Frá afmælisárgöngum mæltu orðsnjallar kvinnur og fluttu tölur sínar mærðarlaust og af orðsnilli. Lyktir brautskráningarinnar voru þær að Benedikt stikaði upp á senuna og uppskar háreysti er hann lýsti því að þrennt batnaði þegar það hyrfi í fyrnsku: Eðalveigar, mygluostar og stúdentsprófskírteini frá Reykjavíkurskóla. Kenndi eymsla hjá þeim sem ekki létu fé af hendi rakna til uppbyggingar fjölskrúðugs tölvuvers. Fannst honum sem hann stryki ryk af málefni sem of lengi hefði legið í þagnargildi, en fjarri færi því að unnið hefði verið fyrir gíg þó að slysni hafi miklu ráðið um farsællega hnýttan endahnút.
Minnist ég þess loks er ég arkaði af sviðinu við dynjandi lófatak.
Benedikt Jóhannesson, heimur.is, 31. maí 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021