trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 06/07/2014

Nýlenduveldið Reykjavík

Mér sýnist ýmsum hafa svelgst á ummælum Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, þegar hann gerði flutning Fiskistofu til Akureyrar að umtalsefni á heimasíðu sinni og endaði pistilinn á þessum orðum:

Svo mikið er víst að tími landsbyggðanna er að renna upp.  Langlundargeð íbúa þar er löngu þrotið.  Þar er ekki lengur vilji til að vera nýlendur sem framleiða verðmæti sem nýtast til velferðar annarsstaðar.

Sem dæmi um viðbrögðin má nefna pistil Inga Freys Vilhjálmssonar á dv.is. Hann fjallar um ummæli Elliða eins og maðurinn sé fífl og meira að segja hættulegt fífl:

Elliði elur á heimsku og segir það sem hann heldur að einhverjir Eyjamenn vilji heyra: Við erum duglegir en aðrir eru latir; við búum til peninga og borgum en aðrir lifa á okkur.

Það má líka nefna pistil Guðmundar Andra Thorssonar, sem ræðir að vísu ekki ummæli Elliða en ber alvarlegar sakir á núverandi forsætisráðherra í tengslum við sama mál:

Sjálfur er Sigmundur Davíð aðkomumaður að sunnan. Og vill nú vera velgjörðarmaður að sunnan. Hann sáldrar silfrinu úr opinberum sjóðum í þetta kjördæmi og hyggst nú skikka sjötíu manna vinnustað til að flytja norður, með manni og mús:

Hvorki Ingi Freyr né Guðmundur Andri virðast átta sig á um hvað málið snýst.

Það virðist nánast ríkjandi viðhorf á höfuðborgarsvæðinu að íbúar á landsbyggðinni séu afætur. Maður gæti haldið að hver króna sem rennur úr ríkissjóði út á land sé einhvers konar ölmusa. Þingmenn landsbyggðarinnar eru uppnefndir kjördæmapotarar.

Í rauninni er þessu þveröfugt farið.

Peningarnir streyma suður

Vífill Karlsson, þá dósent við háskólann á Bifröst, birti í janúar 2005 dálitla ritsmíð (PDF-skjal hér) þar sem hann athugaði tekjur og gjöld ríkisins með tilliti til landshluta og byggði á gögnum ríkisskattstjóra frá árinu 2002. Hann komst að þeirri niðurstöðu að 27% af skatttekjunum kæmi af landsbyggðinni, en af útgjöldum ríkisins rynnu aðeins 15% til landsbyggðarinnar. Þetta þýðir sem sagt að af hverjum tveimur skattkrónum íbúa á landsbyggðinni skilar sér rúmlega ein til baka.

Jú, jú, 12 ára gamlar tölur, en ég efast um að þær hafi breyst ýkja mikið.

Það er augljóslega einmitt þetta sem bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum á við, þegar hann segir íbúa í byggðum landsins ekki vilja „framleiða verðmæti sem nýtast til velferðar annars staðar.“ Þetta er enginn gorgeir og ekkert ofdramb. Að líkja orðum Elliða við þjóðernishyggju og rasisma er ógeðfelldur ritsóðaskapur.

Og það er einfaldlega ekki rétt hjá Guðmundi Andra, að verið sé að sáldra „silfri úr opinberum sjóðum“ með því að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu af höfuðborgarsvæðinu. Silfrið sáldrast hvort eð er. Spurningin sem Guðmundur Andri þarf að svara er þessi: Er það náttúrulögmál að launagjöld ríkissjóðs renni til atvinnuuppbyggingar í Reykjavík og næsta nágrenni?

Ingi Freyr og Guðmundur Andri skrifa yfirleitt pistla sína af einkar skynsamlegu viti og ég set mig sjaldnast úr færi að lesa þá á ferðum mínum um netheima. Af því leiðir líka, að ég geri ívið meiri kröfur til þeirra en margra annarra. Í þeim pistlum sem hér er vitnað til, er hins vegar engu líkara en þeim sé báðum með öllu ókunnugt um hvað málið snýst.

20 mínútna fyrirlestur

Nú er auðvitað skylt að taka fram, að ekki er víst að sanngjarnt jafnræði eða jafnvægi næðist milli höfuðborgarsvæðisins og byggðanna hringinn í krinum landið, þótt allt skattfé, sem innheimtist í tilteknu byggðarlagi, skilaði sér heim aftur. Málið er að sjálfsögðu flóknara en svo. Gallinn er sá, að sáralítil rannsóknagögn liggja fyrir. Áhugi stjórnvalda á þessum málum er vægast sagt takmarkaður og meðan svo er, þarf kannski engan að undra þótt sú mýta sé lífseig að höfuðborgarsvæðið haldi landsbyggðinni uppi.

En fróðleiksfúsum lesendum ætla ég að benda á stuttan fyrirlestur, sem Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, flutti í Háskólasetrinu á Ísafirði í október 2010. Þar sneri hann hinni viðteknu mýtu á haus og spurði: Hefur landsbyggðin efni á höfuðborginni?

Því miður vantar um 5 mínútur framan á upptökuna, en þær 20 mínútur sem hafa varðveist eru bæði hin besta skemmtun og rífa hugsunina ágætlega upp úr hjólförunum.

Á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða má bæði sjá fyrirlesturinn sjálfan og sækja allar skyggnurnar (líka þær sem vantar í fyrirlesturinn sjálfan).

Og ég mæli líka með því, að pistill Elliða Vignissonar sé lesinn í heild.

Flokkun : Pistlar
1,218