Ný gögn í Guðmundar- og Geirfinnsmálum
Eftir langt hlé bregður svo við að í sumar hafa birst nokkrar nýjar fréttir af Guðmundar og Geirfinnsmálum. Endurupptökunefnd hafa borist í það minnsta þrjú ný gögn, en hún kveður líklega upp úrskurð í september eða snemma í óktóber. Eitt þessara nýju gagna getur varla talist neitt minna en endanleg fjarvistarsönnun allra sakborninga í Geirfinnsmálinu, annað varðar líka Geirfinnsmálið, en hið þriðja virðist varða upphaf Guðmundarmálsins.
Ég hef undanfarin fimm ár varið flestum tómstundum í athuganir á þeim pappírum sem á sínum tíma voru lagðir fyrir dóm í þessum 40 ára gömlu sakamálum. Niðurstaðan varð bók, sem kemur út eftir næstu helgi. Fjarvistarsönnunin í Geirfinnsmálinu fannst á lokasprettinum við vinnslu þeirrar bókar. Einnig kom í ljós að á Keflavíkurveginum hefur líklega verið hálka kvöldið sem Geirfinnur hvarf.
Það nýja gagn, sem nú hefur komið fram í Guðmundarmálinu, er væntanlega í formi lögregluskýrslu eftir yfirheyrslur yfir manni, sem lengi hefur verið vitað að bar það upp á Kristján Viðar að hafa vitneskju um afdrif Guðmundar Einarssonar.
Þessi maður, Stefán Almarsson, er annar þeirra tveggja sem handteknir voru og yfirheyrðir um miðjan júní í sumar. Hinn maðurinn hefur að líkindum aldrei tengst málinu og engar skýringar hafa komið fram á handtöku hans.
Fyrstu fréttir hermdu að yfirheyrslurnar tengdust nýjum upplýsingum um flutning á líki Guðmundar Einarssonar, en sú útgáfa virðist hafa verið byggð á afar ótraustum grunni. Nú hefur settur ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson, skilað endurupptökunefnd þeim gögnum, sem aflað var með þessum yfirheyrslum og í frétt RÚV á þriðjudaginn er tilgreint að þessi gögn varpi ljósi á það „hvernig annar hinna handteknu hafi upphaflega bendlað Sævar Ciesielski við Guðmundar-málið.“
Enginn vafi getur leikið á því að hér er átt við Stefán Almarsson. Snemma í desember 1975 kom hann þeim upplýsingum á framfæri við lögregluna að Sævar Ciesielski hefði staðið á bak póstsvikin svokölluðu 1974, en þá tókst Sævari og Erlu Bolladóttur að svíkja samtals 950 þúsund krónur út úr Pósti og síma.
Stefán Almarsson hafði vitneskju sína frá besta vini Sævars, Kristjáni Viðari Viðarssyni, og þegar þetta reyndist hárrétt hjá Stefáni virðast rannsóknarlögreglumennirnir Eggert N. Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafa ályktað að Stefán væri sérdeilis áreiðanlegur uppljóstrari. Líklega var það þess vegna, sem þeir tóku hann líka trúanlegan, þegar hann sagði þeim, að Kristjáni Viðari væri kunnugt um hvað varð af Guðmundi Einarssyni.
Það hefur verið vitað í 25 ár að þessar upplýsingar komu frá Stefáni. Tryggvi Rúnar Leifsson upplýsti þetta í viðtali, sem birtist í bók Þorsteins Antonssonar, Áminntur um sannsögli, sem út kom 1991. Ef nú hefur komið í ljós að Stefán hafi einnig nefnt Sævar Ciesielski, eru það vissulega nýjar upplýsingar, en þó umfram allt staðfesting þess að uppruna Guðmundarmálsins megi einkum rekja til Stefáns.
Stefáni Almarssyni var meinilla við Kristján Viðar, en á hinn bóginn var honum afar hlýtt til Tryggva Rúnars. Þetta kemur skýrt fram í lögregluskýrslu frá 1977, þar sem hann sagði Kristján Viðar mikinn hrotta og ekki hika við að lemja menn til óbóta. Á hinn bóginn gat hann ekki trúað þessu upp á Tryggva Rúnar og sagði „allt eins víst, að hitt fólkið hafi logið þessu upp á hann.“ Fleira í skýrslunni gefur til kynna að Stefán hafi umfram allt viljað losa Tryggva Rúnar út úr málinu ef þess væri nokkur kostur.
Þótt það hafi sem sagt verið ljóst mjög lengi að upphaf Guðmundarmálsins væri að rekja til Stefáns Almarssonar, virðist sem lögreglumennirnir hafi á sínum tíma viljað halda verndarhendi yfir honum. Nafn hans var ekki nefnt, heldur tilgreindi lögreglan einungis „grun“ og „orðróm“. Í rauninni er næsta furðulegt að lögreglan skyldi komast upp með að greina aldrei nánar frá ástæðum þess að ákveðið var að hefja rannsókn, ekki síst vegna þess að sönnunargögn í Guðmundarmálinu voru aldrei nein.
Sannleikurinn er sá að við yfirferð málsskjalanna er ógerlegt að finna neina haldbæra ástæðu til að hefja þessa rannsókn.
Hið leyndardómsfulla upphaf Guðmundarmálsins er meðal fjöldamargra sérkennilegra atriða, sem um er fjallað í bókinni Sá sem flýr undan dýri, sem kemur út eftir næstu helgi. Forsölu bókarinnar á Karolina Fund lýkur á sunnudagskvöld.
Þessi pistill birtist bæði á Herðubreið og jondan.is.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019