Nornaveiðar nútímans
Í gær talaði ég lengi við mann sem er mér afar kær. Hann er sýrlenskur flóttamaður sem hefur eytt stórum hluta ævi sinnar í hyldýpi evrópsks hælisleitendakerfis, þeim hluta ævinnar sem við hin notum til að ferðast, mennta okkur og undirbúa framtíð okkar. Hann flúði til Belgíu fyrir fimm árum og flóttinn var slík hryllingsför að hann minnist aldrei á hann orði. Kerfið í Belgíu gaf honum númer í stað nafns og við tók bið sem var löng, erfið og rændi hann því eina sem hann var á höttunum eftir, frelsinu. Í Sýrlandi varð allt eftir sem hann þekkir, elskar og saknar. Í fyrrinótt hlustaði hann á sprengjur falla fyrir utan æskuheimili sitt, með ungan bróður sinn og móður á hinum enda línunnar. Sambandið rofnaði eftir að mikil sprenging heyrðist og enn er óvíst um hvernig fjölskyldu hans, vinum og nágrönnum reiðir af.
Þegar hælisleitendakerfið sleppti að hluta til af honum takinu og veitti honum leyfi til tímabundinnar dvalar í Belgíu, þá var það fyrsta sem hann gerði að mæta í hælisleitendamóttökuna og bjóða fram krafta sína. Þau voru hissa að sjá hann og sögðu að það væri óvenjulegt að þeir sem hefðu setið fastir í kerfinu svo lengi vildu nokkuð af því vita fyrst á eftir.
„Þið voruð til staðar fyrir mig“
„Ég var hér í tvö og hálft ár. Það var erfitt og oft var ég við að gefast upp, en þegar öllu er á botninn hvolft þá voruð þið til staðar fyrir mig þegar ég mest þurfti á að halda og nú vil ég gera það sama fyrir aðra. Þið getið reiknað með mínu framlagi í að minnsta kosti tvö og hálft ár“. Síðan þá hefur hann þerrað mörg tár, framkallað enn fleiri bros, byggt tungumálabrýr, veitt ómetanlegan stuðning og ráðgjöf á erfiðum stundum, vakið von. Allt saman endurgjaldslaust.
Vegir okkar mættust á grískri strönd í september. Hann var þangað kominn til að taka á móti fólkinu sínu og veita því huggun og hlúa að því við komuna til Evrópu. Tímasetningin var engin tilviljun, hann hafði eftir langa og erfiða bið endurheimt sýrlenska vegabréfið sitt og fengið pappíra upp á að hann mætti nú ferðast óhindrað innan álfunnar í mánuð á ári. Daginn eftir hélt hann af stað til Grikklands. Þegar við höfðum unnið fyrsta daginn okkar saman sagðist ég verða að spyrja hann heimskulegrar spurningar, mig langaði svo að vita og skilja meira.
Alltaf að horfa eftir mömmu
„Hvernig er að standa hérna og taka á móti fólkinu þínu?“, spurði ég, vestræna dekurrófan sem vildi en gat ekki sett sig í hans spor. „Ég er alltaf að horfa eftir mömmu“, svaraði hann og ég áttaði mig á því að hér var raunveruleikinn mættur og ég var hluti af honum.
Í gær fékk ég skilaboð. „Mig langar að komast héðan. Ég er í alvörunni hræddur við að vera hérna eftir það sem gerðist í Frakklandi. Fólk er mjög hrætt og ég sé það í andlitum þess að við látum öll stjórnast af óttanum“. Svo bætti hann við „Ég er búinn að horfa á vegabréfið mitt í allan dag, nú þarf ég í alvörunni að hugsa mig tvisvar um áður en ég sýni það“. Vegabréfið sem hann hafði beðið eftir í næstum fimm ár var um tíma tákn um aukið frelsi hans. Hann var ekki lengur fastur innan landamæra landsins sem hann hefur mátt dúsa í síðasta hálfa áratuginn. En hvað nú?
Ætlum við að halda fast í þá kenningu að það hafi ekki verið hatrið heldur sýrlenskt vegabréf sem grandaði fórnarlömbunum í París? Ætlum við að gera fórnarlömb hræðilegs stríðs að blórabögglum í hryðjuverkum sem kvalarar þeirra frömdu? Ætlum við, vel menntuð þjóð með bæði hjarta og heila, að sannfæra hvert annað um að múslimar séu vont fólk vegna þess að hryðjuverkamenn hafa misnotað trú þeirra?
„Ég óttast ekki vegabréf“
Með aukinni menntun, fræðslu og bættu lagaumhverfi ættu nornaveiðar ekki að tíðkast í bakgarði okkar árið 2015. Að yfirfæra illsku heimsins á fólk sem biður til Allah er eins og að brenna fólk á báli fyrir galdra – heimskulegt og rangt. En veiðarnar eru hafnar og þeim lýkur ekki fyrr en við vöknum af þessari sturlun og áttum okkur á því að óvinur okkar er líka óvinur múslima. Valdhafar hafa áður ofsótt trúarhópa í Evrópu með afleiðingum sem við öll þekkjum. Ætlum við virkilega að feta þá hættulegu slóð?
Síðustu daga hef ég reynt að gera upp við mig hvernig mér líður og hvað ég óttast. Niðurstaðan er sú að ég óttast það sama og ég óttaðist fyrir hryðjuverkin í París, fyrir stríðið í Sýrlandi og fyrir ellefta september. Ég óttast vopn, ég óttast fordóma og ég óttast hatur. Ég óttast ekki vegabréf.
Hinsvegar er full ástæða til að óttast viðbrögð aðila á Íslandi í kjölfar nýliðinna atburða. Ég óttast ákall lögreglunnar um aukinn vopnaburð, hræðsluáróður valdhafa sem elur á tortryggni í garð fólks á flótta og sérstaklega óttast ég vaxandi hatur í garð fólks af öðrum uppruna og trúarbrögðum. Ég trúi því nefnilega að þeir sem helst gætu tekið upp á því að fremja grimmdarverk á Íslandi tilheyri þeim hópi sem hefur opinberað mannvonsku sína á kommentakerfum landsins upp á síðkastið. Fólk sem er yfirfullt af hatri sem ég hvorki skil né vil skilja. Nafngreindir einstaklingar láta þar út úr sér orð og hótanir sem er full ástæða til að óttast. Hvar í kerfinu verður okkur svo illilega á, að svo hömlulaust hatur og skilningsleysi nái að vaxa óhindrað á meðal okkar?
Yfirlýsingaglaðir valdhafar og virkir í athugasemdum hafa rétt fyrir sér að vissu leyti þegar þeir vara við aukinni hættu á illvirkjum á Íslandi. Við þurfum öll að vera á varðbergi og standa vörð um hvert annað, en fólk á flótta er ekki óvinur okkar. Áhyggjur af stríðshrjáðum múslimum sem hingað leita eru óþarfar. Hið raunverulega áhyggjuefni eru ofsafengin viðbrögð og skilningsleysi við komu þeirra og tilvist. Hin raunverulega ógn er hatrið sem grasserar þarna úti í samfélaginu, grímulaust og óvægið. Það er full ástæða til að taka hana alvarlega.
Þórunn Ólafsdóttir, akkeri.is, 17. nóvember 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021