Nokkur þekkt dægurlög sem sonnettur
Þegar ég verð í vænni stúlku skotinn
víst er að ekkert þori ég að segja.
Ef á mig lítur lagleg yngismeyja
líður mér eins og kraftur minn sé þrotinn.
Einn ég með bugað hjarta herðalotinn
horfi á mínar leyndu óskir deyja;
að þú mér kenndir þrautirnar að þreyja.
Þess vegna er ég sár og niðurbrotinn.
Margs konar leiðir kvillar kvelja‘og hrjá mig.
Hvað sem ég geri‘er lítil von þeir skáni.
Þar eru skömm og feimni fráleitt einar.
Vertu‘ekki‘að horfa svona alltaf á mig
upp svo ég fái‘ei litið, roðni‘og bláni
þegar þú kaldlynd ekkert með því meinar.
2.
Kvenhylli nýt ég meiri‘en margir gumar.
Mun ég þó ekki víða hafa farið.
Umvafinn jafnan er, það get ég svarið,
ungmeyjum þar sem kærleikurinn brumar.
Þegar ég vann í Sigöldu í sumar
sýndist þeim vera talsvert í mig varið.
Af mér með herkjum ástsjúkar fékk barið
ungar sem gamlar, sprækar jafnt sem hrumar.
Er ég kem heim í Búðardalinn bjarta
bíður mín gnótt af valinkunnum fljóðum.
Veit ég að haldið verður teiti mikið.
Gleðjast þá munu karls og kerlu hjarta,
koma mín gæti valdið táraflóðum.
Langamma heillin lifnar fyrir vikið.
3.
Vélina staðið við hún hefur lengi.
Vond er af tánum lyktin núna orðin.
Blóðugir fingur bjástra þó við sporðinn.
Búast má við að hana þyrsti‘og svengi.
Störfum að segja‘upp suma fýsir drengi.
Sigríður hætti‘í gær við ljósaborðin.
Loks þegar þrotinn er af fiski forðinn
fara má heim og slá á létta strengi.
Burt frá sér arðræninginn hrekur horska
hölda sem fara‘og snúa ei til baka,
þess í stað dvelja heima við og hrjóta.
Sé ég á færibandi þúsund þorska
þokast mér nær, en heldur vil ég taka
kannabis út í náttúruna‘og njóta.
4.
Gresjuna ríður kappi fræknum fáki.
Finnst honum Arizona góður staður.
Léttfeti nefnist gammurinn er glaður
geysar um sléttur undir hraustum stráki.
Knapinn á baki hans er Lukku-Láki.
Laganna þjónn og vörður er sá maður.
Orðmargur hann er ei og forðast blaður.
Ósennilegt að nokkur honum skáki.
Ferðast þeir saman út um allar trissur.
Alls staðar ná að leysa vanda brýna.
Þvælast um villta vestrið milli staða.
Skjótari hann er skugganum með byssur.
Skarast þar vísindin við frásögn mína:
Hittir í mark á meira‘en ljóssins hraða.
5.
Grúfir sig yfir strætin niðdimm nóttin.
Nístir hann frostið inn að merg og beini
reikandi um þótt liggja ætti‘í leyni.
Leiðarhnoð hans á vegferðinni‘er óttinn.
Lítil er von að lánist trylltur flóttinn,
laganna verði forðast þó hann reyni.
Áður en dagar dvelja mun í steini.
Dvína hann finnur úthaldið og þróttinn.
Sekur um glæp hann er og útskúfaður,
enginn sem býður kærleikshendur fúsar.
Handjárnin ein og harkan slíkum mæta.
Bugaður, niður brotinn sakamaður
brostinn að von í fangaklefa dúsar.
Um hver er sekur eflaust mætti þræta.
Davíð Þór Jónsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021