trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 23/09/2018

Mýrasýslumetið

Utanríkisráðherrann okkar er iðinn, það má hann eiga.

Hann var í hádegisfréttunum að draga lærdóm af Brexit-veseni Breta. Vandræði Breta sýndu nefnilega, hversu erfitt væri að ganga úr Evrópusambandinu.

Þess vegna mætti Ísland fyrir alla muni ekki ganga í ESB. Við slyppum aldrei úr þeirri píningarvist.

Vel gert, Guðlaugur Þór. Þetta er áreiðanlega Mýrasýslumet í fjölda vafasamra fullyrðinga í ekki lengra máli.

Sko. Í fyrsta lagi er Ísland nú þegar í ESB. Við eigum aukaaðild að því í gegnum EES-samninginn. Munurinn á okkur og hinun aðildarríkjunum er hins vegar sá, að við höfum ekkert að segja um ákvarðanir sem þar eru teknar. Við erum látin bíða frammi á gangi á meðan alvöruaðildarríkin semja og komast að sameiginlegi niðurstöðu.

Að fundi loknum fáum við tilskipanir í tölvupósti og verðum að innleiða þær.

Við erum semsagt í ESB að öllu leyti nema því sem snertir sjávarútveg, landbúnað og peningastefnu, svona í grófum dráttum.

Við vitum ekki fyrr en á reynir hvers konar samningi við næðum um sjávarútveg og landbúnað. Hinir hræddu eru búnir að semja af sér áður en viðræður hefjast og þora þess vegna ekki að sækja um fulla aðild. Það er auðvitað ákveðið lífsviðhorf.

Hitt er morgunljóst að með fullri aðild gætum við tekið í notkun alvörugjaldmiðil í stað þess sem við notum núna. Hann gerir rekstur venjulegs heimilis líkari rekstri vogunarsjóðs en nokkru öðru.

Núnú. Hvað þá með vandræði Breta? Sýna þau ekki hversu erfitt eða jafnvel ómögulegt er að ganga úr Evrópusambandinu?

Uh – nei. Bretar geta auðveldlega gengið úr ESB eins og þeir ráðgera. Alveg vandræðalaust af hálfu ESB.

Þeir eru hins vegar að reyna að semja þannig við sambandið, að þeir njóti allra kosta þess án þess að vera í því.

Það er eins og að skilja við maka sinn, en heimta samt að hafa áfram aðgang að mat, húsnæði og öðrum nauðsynjum, eins og Helga Vala Helgadóttir hefur lýst því réttilega.

Slíkt er ekki í boði, og af því stafar allur vandræðagangurinn í brezkri pólitík.

Bretar eru að reyna að semja sig að niðurstöðu sem dregur úr mesta skaðanum sem hlýzt af þeirri arfavitlausu ákvörðun að segja sig úr ESB. Vesenið er allt þeirra megin eins og dæmi sanna á hverjum degi.

Það er lítið mál að segja sig úr Evrópusambandinu. Það hefur hins vegar alvarlegar efnahagslegar afleiðingar, eins og Bretar sjá fram á.

Þetta þarf okkar iðni utanríkisráðherra að vita, vilji hann skilja viðfangsefni sín.

Eða í það minnsta ef hann vill ekki slá eigið Mýrasýslumet í innantómum fullyrðingum.

1,425