trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/04/2021

Möskvar minninganna (XXIII): Kristó

Ljósmynd: Heimsmynd/Ragnar Th.

Þetta var bæði óvenjulegt og flókið.

Ég var tvítugur. Kristófer Már Kristinsson þrjátíu og fimm.

Á yfirborðinu áttum við það eitt sameiginlegt, að hafa gengið til liðs við Bandalag jafnaðarmanna. Sumsé Vilmund.

Nú var Vilmundur dáinn, flokkurinn í talsverðu uppnámi, og Kristó varaþingmaður. Stundum starfsmaður flokksins.

Ég var blessunarlega í háskólanámi í Bandaríkjunum á þessum árum og því ekki vitni að öllu umrótinu, sem verður aldrei verra en í litlum flokkum.

En eins og til þess að fokka öllu upp – eða jafnvel alls ekki – fóru þau að draga sig saman allnokkru síðar, Vala og Kristó.

Hún ekkja Vilmundar, umdeildasta stjórnmálamanns þess tíma, og dóttir Bjarna Ben. heitins í ofanálag.

Hann fjögurra barna kaþólskur faðir og kennari ofan úr Reykholti.

Það var ekkert einfalt við þetta.

Ef þið haldið að kommentakerfi nútímans séu miskunnarlaus, þá hafið þið alveg gleymt slúðurkerlingum þess tíma (af báðum kynjum). En við það dvel ég ekki lengur.

–– –– ––

Það brást þó ekki, að í öllum fríum mínum á Íslandi sóttum við Kristó í félagsskap hvor annars, lengi og mikið, og löngu áður en þau Vala komu til.

Ég veit ekki enn hvers vegna hann vildi verða vinur minn – sennilega vantaði hann félagsskap í Reykjavík – en af minni hálfu var svarið alveg augljóst.

Kristófer var nefnilega einhver alskemmtilegasti og gáfaðasti maður sem ég hef kynnzt. Og er þó af nokkrum að taka.

Húmorinn – og þar með gáfurnar – var allur á dýptina. Hann sagði sögur, sem hver um sig hafði í sér fólgnar nokkrar aðrar sögur, og endaði með sögulokum, sem voru ekki fyndin nema af því sem á undan fór löngu fyrr.

Og þá var hlegið. Hjálpi okkur, hvað þá var innilega hlegið.

Svo var hinn eiginleikinn: Hann gat hlustað á samtal fólks um allt og ekkert, og skotið svo inn í lokin einni setningu, sem bæði tvinnaði saman og náði kjarna málsins, en lauk þar með samræðunum með háværum hlátrasköllum.

En Kristó var spar á þetta. Af því að hann kunni sig líka.

Hann var enginn brandarakall, en húmoristi eins og þeir gerast mikilvægastir.

Það var engin tilviljun að Kristófer kynnti mig fyrir Tom Lehrer.

Að við nefnum ekki sjálfan Zorba.

–– –– –– 

Við urðum sumsé vinir, jafnvel þannig að Völu þótti stundum nóg um. Skiljanlega.

Ég hafði verið einhver utanheimilisköttur hjá þeim Vimma, og Völu fannst ekki endilega sjálfsagt að Kristó tæki með sér þennan sama kött inn á Haðarstíginn.

Lái henni hver sem vill.

Það var nefnilega eitt alltaf, og alltaf jafn erfitt. Spursmálið um hann og Vilmund.

Við Kristó þurftum aðeins að ræða það.

Kristó var þungt í skapi um það mál, að því marki sem Kristófer var nokkurn tímann eitthvað þungt í skapi. Það var sjaldgæft.

„Nei, Kalli,“ sagði hann þegar samband þeirra Völu var opinbert og staðfest, og slúðrið varð yfirgengilegt.

„Ég er enginn andskotans annar Vilmundur. Ég er ég, og ég elska þessa konu. Er það eitthvað flókið?

Djöfulsins fífl sem þetta eru.“

Kristó tók afar sjaldan þannig til orða. Hann vildi ekki láta aðra ráða skapi sínu.

Hann hafði miklu fremur að leiðarljósi: Trúðu aldrei því viðtekna.

–– –– ––

Við það læt ég sitja í bili, en sagan er fjarri því öll sögð.

Látum Zorba kenna unga manninum að dansa á meðan.

„I never loved a man more than you.“

En nú þarf ég að bregða mér afsíðis til þess að gráta.

Karl Th. Birgisson

1,507