Morðið á Húsavík – og svo förum við strákarnir bara á Baukinn
Tómas var svo þreyttur að hann langaði mest til að gráta. Aldrei í lífinu hafði hann upplifað annan eins dag. Og hann var engu nær. Ekkert sem hann hafði heyrt hafði fært hann nær svarinu við spurningunni um það hver hefði myrt Róbert Guðjónsson. Þvert á móti. Hann og Istvan höfðu yfirheyrt alla sem höfðu verið í samkvæminu kvöldið áður. Frásögnum þeirra bar saman í öllum aðalatriðum. Þau höfðu verið hjá Margréti og Ólafi í sirka klukkutíma eftir að Róbert fór og síðan farið hvert til síns heima og eiginmenn og -konur verið saman það sem eftir var nætur. Kannski höfðu sum þeirra ástæðu til að vilja Róbert feigan, en ekkert benti til að neitt þeirra hefði séð hann eftir að hann yfirgaf samkvæmið. Nema þau hefðu tekið sig saman um að ryðja honum úr vegi, eins og í sögu eftir Agöthu Christie, og lygju hvert fyrir annað, en það virtist ekki sérlega sennilegt.
Tæknimennirnir höfðu fínkembt sundlaugarhúsið og auðvitað fundið milljón fingraför og fótspor, en ekkert sem hægt var að tengja morðinu beint. Það var ekkert blóð neins staðar annars staðar en á skyrtu fórnarlambsins, engin merki um átök, ekki neitt. Og það hafði ekki verið brotist inn. Það var eins og líkið hefði bara svifið af himnum ofan og stillt sér upp í gufubaðinu af eigin rammleik.
Hann skellti útihurðinni á eftir sér, gekk rakleiðis að ísskápnum í eldhúsinu og fékk sér bjór. Íbúðin var lítil og óvistleg, hann hafði leigt hana með húsgögnum til bráðabirgða þegar hann var fluttur til Húsavíkur fyrir hálfu ári. Veggfóðrið var brúnt og appelsínugult sýrumunstur frá hippatímabilinu, húsgögnin slitin og gömul og sitt úr hverri áttinni og yfirbragðið minnti á mótelherbergi í amerískri gangsteramynd. Margra ára gamalt óloft virtist loða við veggina og hann var svo sem ekki með neitt hreinlætisbrjálæði svo það hafði ekki batnað við veru hans í íbúðinni. Það eina sem benti til þess að hann byggi þarna voru stereógræjurnar og diskarnir með hardrokkinu. Já, og svo nokkrar kiljur eftir Henning Mankell, Arnald Indriðason, Ragnar Jónasson og Håkan Nesser. Sögur um snjalla lögreglumenn sem „fundu hlutina á sér“ og sáu við öllum morðingjum. Hann fann ekki beinlínis til samkenndar með þeim þessa stundina.
Ljósið á símsvaranum blikkaði. Hver gat það verið? Níutíu og níu prósent af þeim símtölum sem hann fékk snertu vinnuna og hann hafði komið við á stöðinni á heimleiðinni til að athuga hvort hann ætti skilaboð og spjalla við undirmenn sína. Þeir höfðu skoðað starfsemi Róberts í bænum, en þar virtist enginn hundur liggja grafinn, skrifað pósta út og suður til að fara fram á símtalaskrár, bankayfirlit og allt sem viðkom fórnarlambinu. Ekkert af því hafði skilað sér ennþá, enda laugardagur, og hann hafði sagt þeim að þeir mættu fara heim. Þeir kæmust ekki lengra í kvöld.
Hann kveikti á svaranum. – Uuuuh. Já. Það vera um morðið. … ég vilja að tala við Tómas Kristgeirsson, sagði þykk karlmannsrödd á bjagaðri íslensku. – Ég heita Simon Durckovic og eiga pylsuvagninn við höfnina. Ég held ég sjá morð. … Ég vita ekki … ég vera í vagninum í alla kvöld. Þú geta hitta mig þar. Eeeeem. Já. Takk fyrir.
Það heyrðist píp og síðan skruðningar og ný rödd. Kvenrödd í þetta skiptið. – Hæ, Tómas. Þetta er Sóley Jónsdóttir. Ég var að frétta um morðið á Róbert. Ég get kannski hjálpað þér. Þarftu ekki að fá þér bjór og slappa af eftir daginn? Ég sit á Bauknum og verð hér eitthvað áfram. Annars hefurðu númerið mitt. Sjáumst.
Langdregið píp og svo þögn.
Tómas kláraði bjórinn. Gat það verið að hann væri svo heppinn að hafa vitni að morðinu? Það var næstum of gott til að vera satt. Og hvað þóttist kellingin vita?
Hann leit á úrið. Hálftíu. Hann næði því að fara og spjalla við pylsuvagnseigandann og koma svo við á Bauknum á heimleiðinni og hitta rithöfundinn áður en það yrði of framorðið. Eiginlega hafði hann ætlað að hringja í mömmu sína í kvöld. Hún var örugglega frá sér af áhyggjum ef hún hafði séð fréttirnar. Hún bjó ennþá í gömlu íbúðinni þeirra í Keflavík, skúraði í Ásbrú og lifði fyrir það eitt að heyra í gulldrengnum sínum. Hann hringdi yfirleitt annað hvert kvöld, en í kvöld bara treysti hann sér ekki til að takast á við áhyggjur hennar og einmanaleika. – Fyrirgefðu mamma, muldraði hann. Slökkti ljósin og gekk út.
….
Enginn svaraði ítrekuðum bjölluhringingum og banki hjá Söndru og Tómas var um það bil að gefast upp og yfirgefa staðinn þegar bankað var í öxlina á honum. – Fyrirgefðu, en ég þarf að tala við þig.
Hann sneri sér við og stóð augliti til auglitis við Ólaf. – Sæll. Um hvað viltu tala? Eigum við þá að fara á stöðina, eða viltu frekar létta á þér einhvers staðar annars staðar?
Ólafur svaraði ekki heldur sneri sér við og gekk niður götuna. – Ertu að koma? kallaði hann um öxl sér. – Förum heim til mín. Ég vil helst ekki láta sjá mig fara með þér inn á löggustöð, ef þér er sama.
Tómas hélt í humátt á eftir honum. Um hvað gat þetta snúist? Hann hafði ekki átt von á því að Ólafur byggi yfir neinum upplýsingum og eiginlega bara alls ekki leitt hugann að honum í rannsókninni. Ekki frekar en mörgu öðru. Hafði hann yfirhöfuð hugsað heila hugsun í þessu máli? Og enn átti hann eftir að skrifa skýrsluna fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins. Sú skýrsla yrði honum varla til mikils framdráttar. Það var bara tímaspursmál hvenær rannsóknin yrði tekin af honum og sett í hendur reyndari manni. Sérstaklega ef það kæmist upp að hann svæfi hjá grunuðum konum. Vonandi hafði Ólafur eitthvað að segja sem gæti aukið hróður hans í augum þeirra fyrir sunnan, en hann átti nú ekki von á því. Þetta var eflaust bara einhver tittlingaskítur sem engu máli skipti.
Ólafur beið hans fyrir utan húsið. – Verum bara úti í garði, sagði hann. – Ég skal sækja eitthvað að drekka. Hvað má bjóða þér?
Kaffi væri fínt, ef þú átt það. Annars bara vatnsglas.
Ólafur kinkaði kolli, hvarf inn um garðdyrnar og kom augnabliki síðar aftur út með tvo kaffibolla. – Veit ekki hversu gott þetta kaffi er, en það er allavega rótsterkt, sagði hann og rétti Tómasi annan bollann. – Setjumst bara hérna við borðið. Hér heyrir enginn í okkur.
Þeir þögðu báðir um stund. En eftir að hafa sopið hraustlega á kaffinu, grett sig og lagt bollann frá sér á borðið hóf Ólafur frásögn sína. Hún var ansi slitrótt framan af, en smátt og smátt óx honum ásmegin. – Sko, Róbert var ekki í uppáhaldi hjá mér. Langt frá því. Og þennan sama dag og partíið var komst ég að því að Magga hafði skrifað upp á skuldabréf upp á margar milljónir fyrir hann. Sem hann auðvitað hafði ekki borgað af. Svo við gætum átt á hættu að missa húsið. Ég var sem sagt ekki kátur þetta kvöld. Eiginlega alveg bálreiður. Og langaði til að ná mér ærlega niðri á kvikindinu. Ég var þess vegna eiginlega bara feginn þegar allt fór í háaloft og allir ruku hver í sína áttina. Þetta partí var alveg mislukkað frá upphafi til enda. Og hrútleiðinlegt í ofanálag. Ég held við hittumst alltof oft. Það er ekkert heilbrigt að hitta alltaf sama fólkið aftur og aftur. Verður svo rútínerað. Og allir búnir að segja öllum allar sögur sem þeir kunna. Voðalega geld samskipti, sko. En við erum vön þessu. Höfum haldið okkur svolítið út af fyrir okkur síðan við komum öll hingað aftur eftir nám. Hvorki hleypt öðrum inn í grúppuna né leitað okkur félagsskapar utan hennar. Sem er auðvitað frekar galið. En nú breytist það væntanlega. Ef við höldumst þá við hér. Ég sé það ekki alveg gerast.
Tómas ræskti sig. – Nei, ókei, en varla er það lögreglumál, sagði hann hvassar en hann hafði ætlað sér. Hann hafði bara engan áhuga á að vera dreginn inn í vandamál klíkunnar. Þau urðu að leysa sín mál sjálf.
Já, fyrirgefðu. Ég missti þráðinn. Ólafur kyngdi og það var augljóst að hann var að herða sig upp í einhvers konar játningu. – Já, sko, eftir að partíið sprakk í loft upp fór ég niður í bæ. Langaði bara á blindafyllerí eins langt frá þessu liði og ég gæti. Á Bauknum fór ég að kjafta við einhvern náunga sem ég hafði aldrei séð áður. Einhvern utanbæjarmann sem ég hélt að tengdist engum sem ég þekkti. Það reyndist rangt hjá mér. Þetta er svo fáránlega lítið land. Maður hittir aldrei neinn sem þekkir engan sem maður þekkir sjálfur. Það eru alltaf einhver tengsl. Hann þagnaði og leit beint í augu Tómasar áður en hann bætti við. – Þessi maður hét Rúnar og var fyrrverandi viðskiptafélagi Róberts. Og hafði auðvitað farið illa út úr þeim viðskiptum. Hann sko lenti í fangelsi …
Ég þekki þá sögu, greip Tómas fram í, hvað kemur samtal ykkar þessa nótt morðinu á Róbert við? Drápuð þið hann?
Ólafur hrökk undan eins og hann hefði verið sleginn utan undir. – Nei, nei, nei. Alls ekki. Við sáum hann ekki einu sinni þessa nótt. Hvorki tangur né tetur. Við komum ekkert nálægt þessu morði. Það er allt annað sem ég þarf að játa fyrir þér.
Úr Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur (Sögur, 2017)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021