Með svona snjalla sagnfræðinga þurfum við ekki rithöfunda. Leiftrandi texti um raunverulegt fólk
Ritdómur – Karl Th. Birgisson skrifar
Örlagaþættir
Sverrir Kristjánsson
(Forlagið, 2016)
Ég er allajafna fljótur að lesa bækur. Ekki í þessu tilviki.
———-
Ég lendi reglulega í rökræðum – ég segi ekki átökum – við vini mína í hópi rithöfunda, af því að ég les helzt ekki skáldskap. Leiðist hann yfirleitt.
Röksemdafærslan er nokkurn veginn svona: Þið getið ekki kokkað upp neitt sem er athyglisverðara en lífið sjálft, hegðun og sálarlíf manneskjanna, í öllum þeirra fjölbreytilegu aðstæðum.
Jújú, þið búið til persónur og þegar vel lætur eru þær skemmtilegar, einstaka sinnum jafnvel frábærar, en þær eru ekkert á við raunverulegt fólk. Í lífi alvörueinstaklinga flækist allt til, þeir hafa litla stjórn á umhverfi og aðstæðum. Þar koma of margir við sögu, hvort heldur er gengi krónunnar, veðrið eða bara mamma þín. Svo fátt sé nefnt.
Enginn ræður í reynd framvindu eigin lífs.
Í skáldskapnum mega hins vegar ekki vera aðrir hnökrar tilverunnar en þeir sem ríma við uppbyggingu og persónusköpun að öðru leyti. Annars væri persónan ekki „trúverðug“ og öll hugsun sögunnar og framvinda hennar félli um sjálfa sig.
Þegar eitthvað „óvænt“ gerist í sögunni er það þarafleiðandi ekki óvænt, vegna þess að það er hluti af hugmynd og heildarhugsun höfundarins.
Það er hvorki spontant né snýr sögunni á haus, eins og gerist reglulega í mannlífinu. Slíkt gengi almennt illa í skáldsögu.
Þess vegna er skáldskapur leiðinlegur. Hann getur verið hugmyndaríkur, en hann er of fyrirsjáanlegur. Of mikið kreistur fram úr hugarheimi.
Og þess vegna eru sögur af raunverulegu fólki meira spennandi. Þær eru alvöru. Þar gerist allur fjandinn sem setur einmitt allt á hvolf og enginn ræður ekki neitt við neitt. Sama hversu mikið er reynt.
Það er ekki tilviljun að Sjálfstætt fólk, Heimsljós og Íslandsklukkan eru byggðar á raunverulegum sögum og aðstæðum. Það – ásamt náttúrlega ritsnilld höfundarins – gerir bækurnar góðar.
Ef kamburinn rís enn á viðmælendum mínum eftir þennan fína fyrirlestur, þá nefni ég Einar Kárason og Sturlungu. Til að tékka á viðbrögðunum.
Þegar hér er komið samræðunum standa vinir mínir allajafna upp og stilla sig um að gefa mér á kjaftinn.
Ég meina vitaskuld bara helminginn af þessu. Og þó.
———-
Ég sagðist hafa verið lengi að lesa þessa bók. Það var vísvitandi. Og til eftirbreytni.
Örlagaþættir Sverris Kristjánssonar, sem Guðmundur Andri Thorsson hefur valið í þessa bók af glöggskyggni og kunnum smekk, eru nefnilega skrif sem á að sötra, hægt og rólega, en ekki hvolfa í sig. Eins og kamillute að kvöldi dags. Hvort tveggja er fágætt, efni og stíll.
Sagnaþættir Sverris komu fyrst út fyrir um 40-50 árum í bókaflokki sem naut mikilla vinsælda. Í trausti þess að ég geri sagnfræðinga núna brjálaða líka, þá er hér á ferðinni alvörusagnfræði, ekki froðukenndar fabúlasjónir uppfullar með kenningar um líf fólks út frá stöðu þess í samfélaginu.
Þetta eru listavel skrifaðar sögur af raunverulegu fólki, byggðar á traustum og vel rannsökuðum heimildum.
Á þessar sögur þarf ekki að bregða mælistiku stéttaskiptingar, femínisma eða póstmódernisma. Sögur Sverris eru ekki einu sinni einsögur, svo að notað sé enn eitt hugtakið úr sagnfræðinni. Einsögur fólks eru alltaf fjölsögur.
Slíkar kenningar eru óþarfar til skilnings, því að þær spretta sjálfkrafa upp úr lifandi texta Sverris, sem hlýtur að vera ritfærasti sagnfræðingur landsins á síðustu öld.
Þarna er fátæki presturinn, Hallgrímur Pétursson, en líka valdsmaðurinn og fanturinn Oddur lögmaður Sigurðsson. (Um hann skrifaði Guðmundur Andri hér sumarið 2014.)
Þarna er líka Bjarni Thorarensen, embættismaður og stundum velgjulega rómantískt skáld. Eins og til mótvægis við Bjarna er frændi hans, Páll Júlíus Pálsson, niðursetningur á 20. öld.
Já, niðursetningur á tuttugustu öld.
Þessi tæplega tíu ára drengur var boðinn upp – eða öllu heldur boðinn niður – „samkvæmt hagfræðilögmálum sveitarframfærslunnar“ fyrir rúmlega hundrað árum. Ég stóð mig að því tvisvar að hætta lestri í þessum kafla – gat ekki meira – en hléin gáfu tilefni til þess að rifja upp þó þá sigra sem unnizt hafa í þágu hinna réttlausu. Sem njóta núna réttinda, þrátt fyrir andstöðu bændasamfélagsins og seinna nýtilkominna kapítalista. Hjúalögin eru að vísu enn í gildi.
Ekki misskilja samt. Örlagaþættir Sverris Kristjánssonar eru ekki um eymd og ömurð, fjarri því. Þar eru líka snjallar skemmtisögur af hugkvæmni og alls kyns uppátækjum, hreint yndi aflestrar.
Efnistök Sverris – og efnisval Guðmundar Andra – kristallast í lokakaflanum af Þorvaldi Björnssyni, fátækum bóndasyni undan Eyjafjöllum. Hann átti engan kost á skólagöngu, en lærði af heimafólki sínu lestur og skrift. Með þá kunnáttu í farteskinu, en hugvit og útsjónarsemi að vopni, varð Þorvaldur smám saman lögfróðasti maður sveitarinnar og hafði jafnvel sýslumenn undir í málaferlum.
Ekki síður var gæfa hans að geta keypt sér lausamennskubréf og vera þar með laus undan vistarbandinu, sem bannaði fátæklingum að ferðast og verða bjargálna við ströndina, en hélt þeim sem þrælum í sveitum miklu lengur en flestir kæra sig um að muna núna.
Eftir hrossakaup og landabrask – og ævintýraleg uppboð á strandgóssi – eignaðist Þorvaldur Björnsson Eyri undir Eyjafjöllum, þar sem heitir síðan Þorvaldseyri. Hún varð síðast fræg í jökulgosinu 2010. Íbúðarhúsið á Þorvaldseyri var eins og evrópskur herragarður, hlaðan lengri en Latínuskólinn og Þorvaldur ríkasti bóndi á Íslandi.
Hann prófaði að fara á þing, en dauðleiddist þrasið, sagði af sér og fór aftur heim. Sem var synd, því að hann var með orðheppnari mönnum, svo sem í umræðum bætt kjör presta:
„Ég verð þess vegna að leggja það til, að þetta frumvarp fái að drukkna brauðlaust í eigin blóði.“
Um örlög Þorvalds og ævilok er lengra mál, en þar koma við sögu bæði stórhýsið Bjarnaborg í Reykjavík og Einar Benediktsson.
———-
Sumur texti á skilið að lifa endalaust, af því að hann er sannur. Þannig er um flest af því sem birtist í þessari bók.
Hún ætti að vera til í hverjum sumarbústað og raunar á hverju heimili, þegar þörf er slökunar eða skilnings á því hvaðan við komum sem þjóð og samfélag.
Í næsta rifrildi mínu við rithöfunda ætla ég ekki að taka sénsinn á kjaftshöggi. Legg bara skrif Sverris Kristjánssonar í dóm og lýk máli mínu.
Sverrir vinnur.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021