trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 10/10/2012 0 ummæli

Málhornið: Fokkings

Kannast lesendur við orðið „fokkings“?Fokk ofbeldi

Þetta ambögulega orð skaust út úr skúmaskotunum í borgarstjóradramanu mikla upp úr áramótunum og skall á hlustum þjóðarinnar af slíku afli að í kjölfarið var það á allra vörum. Það er þó ekki spánnýtt því að hin seinni árin hefur hafa ýms afbrigði þessa orðs verið ungu fólki afar töm. Þetta er ólíkt gömlum þjóðlegum hefðum um bölv og ragn þar sem Skrattinn hefur löngum verið nefndur til sögunnar; þarna er sjálf æxlunarathöfnin og líffæri sem henni tengjast notuð til að niðra fyrirbærum og fólki og gefa til kynna neikvæðar kenndir og eiginleika. Katólikkum hafa löngum verið hugstæðir neðri líkamspartar mannskepnunnar og almennt er þetta orðbragð í anda þeirrar bábilju trúarbragðanna sem bárust frá niðjum Abrahams, að kynlíf sé andstyggileg iðja sem tilheyri skúmaskotum.

——-

Orðið er að sjálfsögðu dregið af „fuck“ sem er slanguryrði um að hafa samræði en uppruni orðsins mun með öllu óvís. Orðið þótti ekki prenthæft eða stofuhæft fram á sjöunda áratug 20. aldar en ýmsir höfundar hafa allt frá 16. öld leikið sér að því að tæpa á því, meðal annars Shakespeare og James Joyce sem birtir þennan leirburð í Ulysses árið 1922: If you see Kay, / tell him he may. / See you in tea /Tell him from me – en þarna er hið ónefnanlega fólgið í fyrstu og þriðju línu. Meðal annarra frumkvöðla í notkun orðsins má nefna D. H. Lawrence í Lady Chatterley’s Lover sem var snimmendis bönnuð, og í orðræðu sumra hópa fólks af afrískum uppruna í Bandaríkjunum hafa ýmsir tilbrigði þessa orðs löngum verið notuð sem krydd. Eins og margt annað úr þeirri menningu tileinkaði 68-kynslóðin sér þetta slangur og gerði smám saman að viðurkenndri opinberri menningu, svo að naumast er sú kvikmynd gerð í Hollywood að orðið heyrist ekki að minnsta kosti átján hundruð sinnum.

——-

Orðið fokk er raunar til í íslensku og er ef til vill komið úr sjómannamáli, en kvenkynsorðið fokka er gamalt orð um segl. Ekki er þó að sjá að merking orðsins fokk tengist seglum. Það kemur fyrst á prent hjá Ása í Bæ árið 1948 í bókinni Breytileg átt samkvæmt ritmálsskrá Orðabókar Háskólans: „Áður en ég vissi af lá hún alsber á dívaninum og spurði hvaða fokk væri í mér“. Í ljósi upphrópunarinnar frægu á pöllum borgarstjórnar er nokkuð skondið að sjá merkingu orðsins „fokk“ sem Orðabók Máls og menningar gefur: Lítilfjörlegt starf, dútl, dund. Sögnin „að fokka“ kemur meðal annars fyrir hjá Jóni Sigurðssyni forseta og hefur svipaða merkingu, að gaufa, dunda í orðabókinni, en þekkist líka í samsetningunni „að fokka einhverju upp“ – að klúðra einhverju.

Tengsl íslenska fokksins við hið engilsaxneska orð „fuck“ eru óljós og vísast engin. Þó má kannski með vissri léttúð gera því skóna að íslenskum sjómönnum hafi þótt beðmál í landi vera „lítilfjörlegt starf, dútl, dund“, meðan brýnni störf biðu manna á hafi úti…

——–

Ekki getur farið hjá því að orðið „fuck“ í ýmsum myndum fari inn í orðaforða ungra Íslendinga í ljósi yfirþyrmandi neyslu þeirra á amrísku afþreyingarefni, en hitt er óneitanlega sláandi hversu íslenskt þetta orð hefur snarlega orðið. Þar kann að hafa eitthvað að segja að fyrir var í málinu orðið fokk; sem gæti hafa liðkað fyrir því hversu framburður orðsins lagaðist skjótt að íslenskum framburði – hið engilsaxneska hálfopna ö-hljóð breytist í o-hljóð – og hinn séríslenski aðblástur á undan tvöfalda samhljóðanum sem Björk hefur gert frægan víða um lönd gerir orðið úr íslenskum munni sennilega nánast óskiljanlegt fyrir útlendinga.

Og loks er það s-ið góða sem skýtur upp kollinum í lok orðsins eins og til að fullkomna þegnrétt þess í íslensku máli. Hér er sennilega um að ræða áhrif frá því blótsyrði sem nærtækast er í glósu á borð við þá sem Ólafur F. Magnússon fékk að heyra: „andskotans“, en við þekkjum orðið „djöfullans“ úr barnamáli. Kannski má segja að með þessu eignarfalls-essi láti hans hátign Djöfullinn á sér kræla – láti vita að hvað sem líður kynlífsvæðingu blótsyrða hér á landi þá sé hann ekki dauður úr öllum æðum og betra sé að veifa einu essi en ekki neinu.

 

Marshefti 2008

1,381