trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 21/09/2018

Lögbrjótar útkljá mál fyrir dómi

Nokkuð reglubundið berast fréttir af uppgjöri glæpagengja einhversstaðar í útlöndum og þá liggja yfirleitt einhverjir í valnum eftir skotbardaga. Þannig virðast glæpamenn leysa deilumál sín víðasthvar í heiminum. Sennilega er það bara á Íslandi, sem afbrotamenn geta leitað kurteislega til dómstóla þegar þá greinir á.

Vísir birti nýlega frétt um að héraðsdómur Reykjavíkur hefði vísað frá máli sem fiskvinnslufyrirtækið Tor ehf höfðaði á hendur Kötlu matvælaiðju ehf. Katla hafði selt fiskvinnslunni „hjálparefni“ til að þyngja fisk, en ekki tókst betur til svo að fiskurinn varð óseljanlegur.

Hér er sem sagt um að ræða vörusvik, sem virðast svo almenn og sjálfsögð í hugum þeirra, sem hyggjast græða peninga á athæfinu, að þeir hika ekki við að leita til dómstóla þegar varan sem nota átti til vörusvikanna, reynist einnig vera svikin. Það er heldur ekki beinlínis að sjá að dómurunum þremur hafi þótt neitt athugavert við tilgang viðskiptanna, því þeir töldu bótagrundvöll vera fyrir hendi og sannað að Tor ehf hefði orðið fyrir „óbeinu tjóni“. Málið þótti hins vegar vanreifað og var vísað frá á þeim grundvelli.

Að láta lögreglu vita af ásetningi um vörusvik virðist ekki hafa hvarflað að dómurunum. Það verður þó ekki betur séð en að vörusvik séu lögbrot, en hitt verður að viðurkennast að ákvæðið er óþægilega loðið. Grein 18 a í lögum um matvæli nr. 93/1995 er svohljóðandi:

„Leitast skal við að vernda hagsmuni neytenda og gefa neytendum kost á upplýstu vali með tilliti til matvælanna sem þeir neyta. Þannig skal leitast við að fyrirbyggja framleiðslu og markaðssetningu svikinna matvæla, sviksamlegar eða villandi starfsvenjur og aðrar starfsvenjur sem gætu villt um fyrir neytendum.

Óheimilt er að villa um fyrir neytendum með merkingu, auglýsingu og framsetningu matvæla, þ.m.t. lögun þeirra, útliti eða umbúðum og umbúðaefni, hvernig þeim er fyrir komið og í hvaða umhverfi þau eru sýnd, sem og upplýsingum sem eru veittar um þau.“

Orðalagið er sem sagt ekki kröftugra en svo að einungis skal „leitast við“ að koma í veg fyrir framleiðslu svikinna matvæla. Vörusvik á borð við þyngingu matvæla með „hjálparefnum“ hljóta engu að síður að teljast ólögleg, þar eð með ísprautuninni er beinlínis „leitast við“ að framleiða svikna vöru og hafa þannig fé af kaupendum og á endanum neytendum.

Svo er auðvitað skylt að geta þess, að þessari lagagrein var bætt inn í matvælalögin 2009 með innleiðingu Evrópureglna. Þessi neytendavernd er sem sagt ekki heimafengin, heldur hefur ESB neytt henni upp á okkur og svo aumingjaleg sem hún er, þá virðist hún þó ívið skárri en ekki neitt.

Það er reyndar ekki bara þessi dómur sem er furðulegur. Sérstakar ísprautunarvélar til að þyngja matvæli um svo sem 10-30% eru framleidd og rækilega auglýst. Á heimasíðu fyrirtækis sem ber ekki ómerkara nafn en Traust ehf, er auglýst tæki sem kallast „Injector TR-850 XLT“. Undir mynd af tækinu er þessi texti:

„Inject brine into fish while protecting the fish during injection, up to 10-30% more product to sell.“

Þegar tækið er skoðað nánar birtist ýtarlegri lýsing:

The system is easy to run and operate. By programming the machine on-screen, the supervisor can set the best injection timing, pressure and speed for each product. The injector will leave no visible sign of injection on the product.

Og til viðbótar:

The average gain associated with the TR-850 XLT is about 10-30% or better yield. In other words, the producer has a 10-30% more product to sell. The increased rate of return is almost the same as the percentage change in yield and the change in variable cost of production is negiligible.

Svo ímyndar maður sér að maður sé nú „orðinn ýmsu vanur“. Á hinn bóginn á ég svolítið erfitt með að trúa því að bann við vörusvikum leynist ekki einhvers staðar annarsstaðar í íslenskum lögum – og kannski refsiákvæði líka. Annað getur varla verið, eða hvað?

 

__________________________

Pistillinn birtist einnig á jondan.is

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,302