trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/12/2014

Lágstemmd og heiðarleg glæpasaga. Dómur landsbyggðartúttu með einfaldan smekk

Ragnar JónassonRitdómur – Brynhildur Ólafsdóttir

Ég er glæpasögufíkill. Hana. Þá er það sagt.

Ég veit að ég ætti að eyða mínum dýrmæta tíma í að lesa klassískar ævisögur og fagurbókmenntir á milli þess sem ég blaða í The Economist. Staðreyndin er bara sú að ég fell alltaf í freistni og minn yndislestur samanstendur aðallega af kuldalegu norrænu glæpadrama og vikulegum skammti af Andrési Önd. Hvað get ég sagt? Sá sem ekki fílar Andrés Önd kasti fyrsta steininum!

Því miður þá hef ég ekki enn fundið þann íslenska glæpasöguhöfund sem kemst með tærnar þar sem Nesbö hinn norski hefur hælana. Það verður þó að viðurkennast að það mjakast allt í rétta átt og Ragnar Jónasson er á nokkuð réttu norrænu róli í sínum skrifum.

Náttblinda er sjötta bók Ragnars. Textinn er lipurlega skrifaður. Ragnar er ekkert að skreyta mál sitt neinum óþarfa, rétt mátulega til að draga línurnar og megindrætti persónanna. Kaflarnir eru stuttir, stundum jafnvel snubbóttir og bókin í heild er fljótlesin. Þó að óþarfi sé að rekja söguþráðinn þá hittist svo á að nýleg fréttamál eins og byssueign þjóðarinnar og heimilisofbeldi koma talsvert við sögu. Persónusköpunin gæti hins vegar verið dýpri og mögulega myndi það bæta heildina að fylgja samskiptum og samböndum sögupersónanna betur eftir. Það dýpkar þessa sögu hins vegar að Ragnar púslar henni að hluta til saman með litlum köflum á eftir aðalköflunum. Þar talar stök rödd sem veldur manni mátulegum heilabrotum.

Náttblinda, eins og aðrar bækur Ragnars, gerist aðallega á Siglufirði og það finnst mér, landsbyggðartúttunni, alveg sérstaklega gaman og kannski þess vegna hafa þær á einhvern hátt höfðað betur til mín en ella. Það verður að segjast eins og er, að fæstar glæpasögur sitja eftir í minni lesandans, ekki frekar en stakur þáttur af Criminal Minds. Þetta er meiri afþreying en menning, uppfylling fremur en uppfræðsla. Smábæjarvinkillinn verður hins vegar til þess að festa bækur Ragnars betur í huganum. Svo er aldrei að vita. Nú þegar fréttir berast af því að útlensk forlög sýni bókum Ragnars áhuga gæti verið að hann komi Siglufirði á glæpasögukortið svipað og Camilla Lackberg hefur gert fyrir Fjallbacka og Asa Larsson fyrir Kiruna.

Brynhildur ÓlafsdóttirÞegar allt kemur til alls finnst mér þó bara tvennt skipta megin máli í glæpasögum. Í fyrsta lagi sú sjálfsagða krafa að plottið í sögunni gangi upp, sé bæði raunhæft og trúverðugt og gangi ekki á skjön við fram komnar staðreyndir. Og í öðru lagi að lesandinn sé ekki búin að fatta plottið á fyrstu blaðsíðunum og geri það raunar helst ekki fyrr en líður að lokum sögunnar.

Þetta tvennt er því miður ekki gefið. Ekkert er skemmtilegra en að lesa glæpasögu með þrjóskulega snúnum söguþráði en að sama skapi er fátt meira pirrandi en þegar söguþráður er beygður og sveigður á ónáttúrulegan hátt til að ná fram lokaniðurstöðunni og lesandann er skilin eftir með ósvaraðar spurningar. Eða hitt, sem að mínu mati er Akkilesarhæll þekktasta spennuhöfundar Íslands, Arnaldar, að plottið er augljóst nánast frá upphafi og spennan er þar af leiðandi engin. Þá getur maður allt eins lesið ævisögur.

Ragnar hins vegar stenst þetta einfalda glæpasögupróf. Plottið í Náttblindu er rétt temmilega flókið til að lesandinn áttar sig ekki á öllum hlutum púslsins fyrr en þegar líða fer að lokum bókarinnar. Og þó að þetta sé ekki besta bók Ragnars hingað til þá er Náttblinda lágstemmd og heiðarleg glæpasaga. Ég hef einfaldan smekk og bið ekki um meira.

Þrjár og hálf stjarna.

Brynhildur Ólafsdóttir

1,373