trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 31/03/2018

Kæra Hljóðbókasafn: Ertu til í að hætta að stela bókunum mínum?

Karl Th. Birgisson skrifar

Herðubreið gefur út eina og eina bók. Þrjár á síðustu tveimur árum.

Engin er það nú stórútgerðin og enda ekki þannig hugsuð. Við erum glöð þegar næst upp í kostnað og fögnum gríðarlega þegar höfundurinn, yðar einlægur, fær fyrir svo sem tveimur kartonum af Viceroy.

Á dögunum las ég áhugaverða grein eftir Jónas Sigurgeirsson, útgefanda hjá Almenna bókafélaginu. Það er alvöruforlag.

Jónas gaf fyrir skömmu út bók eftir norður-kóreska rithöfundinn Yeonmi Park, Með lífið að veði. Í grein hans kom fram að Penguin Books ætti útgáfuréttinn á alþjóðavísu og þegar samið var um útgáfu bókarinnar á íslenzku var sérstaklega tekið fram, að réttur til hljóðbókaútgáfu á Íslandi fylgdi ekki með. Hann yrði áfram hjá Penguin.

Nema hvað. Áður en Jónas hafði snúið sér við hafði Hljóðbókasafnið látið lesa bókina inn og dreift til viðskiptavina sinna. Án þess svo mikið sem að láta vita.

Hljóðbókasafnið er merkileg stofnun. Það hét áður Blindrabókasafnið og þar voru lesnar inn bækur, þær gefnar út á kassettum sem voru svo lánaðar til blindra og sjónskertra, svona í einfölduðu máli sagt. Alveg frábær og nauðsynleg þjónusta.

Svo kom blessað netið til sögunnar. Kassettur finnast varla lengur (þótt geisladiskar séu enn í notkun), Blindrabókasafnið heitir nú Hljóðbókasafn og nú er langflestum bókum dreift rafrænt í gegnum vef þess.

Og nú nær skilgreining notenda ekki lengur aðeins yfir blinda og sjónskerta, heldur yfir þá sem teljast „prentleturshamlaðir“. Þar er líklega átt við lesblinda og aðra sem eiga erfitt með lestur (og orðið er beinlínis bjánalegt, en látum slík aukaatriði eiga sig).

(Látum það líka slæda, að flest dreifing Hljóðbókasafnins fer núna fram á vef sem er fyrir þá sem sjá og geta lesið.)

En semsagt. Grein Jónasar varð til þess að ég ákvað að kanna hvernig þessu væri farið með Hljóðbókasafnið og litla forlagið – hana Herðubreið okkar.

Og viti menn – tvær af síðustu bókum mínum hafa verið lesnar inn, gefnar út hjá Hljóðbókasafninu og dreift þar til viðskiptavina. Hvorki ég né útgáfan fengu svo mikið sem eitt lítið lettersbréf um þessar ráðstafanir.

Núnú. Ég snöggreiddist vitaskuld. Hvernig vogar ríkisstofnun sér að taka til handargagns höfundarverk mitt, hljóðrita það og dreifa því, án þess að láta vita, hvað þá annað?

Eru einhverjir andskotans Píratar komnir til valda – sem stela hugverkum hist og her, búnir að endurskilgreina eignarréttinn og allt hitt sem liggur hér undir?

Eigum við heima í fokkings Sovétríkjunum?

Reiðin endist samt aldrei lengi. Því að allt þarf að skoða af yfirvegun.

Hún sýnir að samningur er í gildi á milli Hljóðbókasafns (raunar Blindrabókasafns, því að hann er gamall) og Rithöfundasambandsins um þessa sérkennilegu pírataútgáfu og dreifingu.

Og það er svona líka samningurinn.

Hann leiðir í ljós að greiddar eru um 25 þúsund krónur fyrir hvern titil sem lesinn er inn og dreift. (Í samningnum stendur að vísu 17 þúsund, en takk fyrir þig, verðtrygging.)

Tuttuguogfimmþúsundkall? Vá.

Það er líklega minna en lesarinn fær fyrir að flytja textann minn inn á band.

Fjárhæðin jafngildir líka sirka tíu eintökum seldum á forlagsverði.

Tíu eintökum.

Hverjir og hversu margir eru svo að lesa eða öllu heldur hlusta á bækurnar mínar í boði ríkisins?

Um það eru engar sýnilegar upplýsingar, en við höfum vísbendingar úr skýrslu safnsins sjálfs.

Notendum þess hefur fjölgað næstum tífalt á einum áratug.

Er þetta vísbending um að „prentleturshömluðum“ hafi fjölgað svo gífurlega á þessum tíma? Eða er það merki um að fleiri en þeir notfæri sér þessa þjónustu, sem á þó fyrst og fremst að nýtast fólki sem á erfitt með lestur?

Þið svarið þessum spurningum vitaskuld fyrir ykkar hatt, en ég staldra óneitanlega við það síðarnefnda.

Það styrkir grun minn, að rúmlega þrjátíu prósent af notkuninni er niðurhal – þar sem viðkomandi fær til sín hljóðskrár sem hann getur dreift að vild með margvíslegum hætti.

Það eykur mér ekki tiltrú heldur, að Hljóðbókasafnið hefur engin færi á að koma í veg fyrir að fjöldi fólks noti sér einn og sama aðganginn. (Við þennan vanda stríða reyndar fleiri en þetta safn, svo sanngirni sé gætt.)

Svo veldur þetta graf mér nokkrum heilabrotum.

Þetta er fjöldi útlána 2016, ekki fjöldi notenda. Í sömu skýrslu segir að tæplega helmingur notenda safnsins sé innan við 18 ára aldur.

Sko. Það er eðlilegt að útlánum fjölgi eftir því sem aldur hækkar – mörgum okkar förlast jú sjón með árunum. En tvær aðrar spurningar vakna.

Ef safninu er ætlað að þjóna „prentleturshömluðum“ (plís ekki láta mig skrifa þetta orð aftur) – hvernig skýrum við þá svo mjög áberandi færri útlán til fólks á aldrinum 31-60 ára? Veitist þeim með einhverjum óútskýrðum hætti skarpari sýn og lestrarskilningur frá ungdómi og fram að efri árum? Það er merkilegt læknisfræðilegt viðfangsefni.

Yngri endinn er ekki síður forvitnilegur. Hví er næstum helmingur notenda Hljóðbókasafns undir átján ára aldri? Aðgangur að skólabókum skýrir einhvern hluta, en getur hugsazt að ókeypis aðgangur þeirra skýri hinn? Er hugsanlegt að foreldrar nýti sér ókeypis aðgang barna sinna að Hljóðbókasafni?

Þetta eru eiginlega svo ógeðfelldar spurningar að mig langar ekki að vita svörin við þeim. Eða hvaða hugsunarhátt slík hegðun innprentar börnunum. Að það sé í lagi að svindla ef þú kemst upp með það? Einhvern veginn hljómar það óþægilega kunnuglega.

Hann Jónas Sigurgeirsson nefndi í grein sinni að dæmi væru þess, að Íslendingafélög víða um heim héldu úti vefjum með hljóðskrám frá Hljóðbókafélaginu. Alveg „ókeypis“. Einnig að löngu látið fólk héldi áfram að hlaða niður bókum úr gröf sinni. Skiljanlega. Sumar bækur ná út yfir allt skilvitlegt.

Ég veit það ekki, en ekki rengi ég Jónas. Og þykist hafa lært af þessum litlu rannsóknum mínum, að Hljóðbókasafnið í núverandi mynd er ekki það sem Blindrabókasafnið var og gerði vel. Umgjörðin ræður ekki við nýja tíma.

Hitt veit ég þó, að Hljóðbókasafnið hefur stolið frá mér bókum.

Stolið? Er það ekki stórt orð? Jújú. Viljiði frekar „Tekið til handargagns án þess að spyrja“? Það er nefnilega þannig. Ef Herðubreið vildi gefa út hljóðbók með mínum ódauðlegu textum (og minni silkimjúku útvarpsrödd), þá er ekkert um það að tala. Ríkisstofnunin hefur gert það nú þegar að okkur forspurðum.

Í þessu er ekki við starfsfólk eða stjórn Hljóðbókasafns sérstaklega að sakast. Þau starfa eftir löngu úreltum lögum, reglum og samningum um Blindrabókasafn, sem hafa fá tengsl við nýtt stafrænt umhverfi.

Í áðurnefndnum samningi er líka nokkurs konar sönnun þess að ríkið veit upp á sig skömmina. Greiðslan fyrir frjáls og takmarkalaus afnot af höfundarverki er ekki kölluð höfundarlaun eða þóknun, heldur bókstaflega „bætur“.

Bætur fær enginn greiddar nema sá sem hefur orðið fyrir tjóni.

Hvert er þá tjón hennar Herðubreiðar – eða mitt – vegna framleiðslu og dreifingar Hljóðbókasafns á verkum okkar til tíu þúsund notenda? Sem fer bara fjölgandi?

Um það er engin leið að vita nákvæmlega.

En tuttuguogfimmþúsundkall í bætur? Andvirði tíu eintaka á forlagsverði?

Það er eins og að aka vísvitandi á fótgangandi, fótbrjóta hann og rétta honum svo fimmhundruðkall fyrir farinu í strætó upp á slysadeild.

1,341