Jörðin séð úr suðri. Eða hvernig hvíti maðurinn skipti upp Afríku
Frakkar tóku Vestfirði og Norðurland undir útgerðir og enn í dag tala allir frönsku á Ísafirði, Akureyri og Húsavík, en í sveitunum er bláfátæk alþýða sem talar svokallaða gamalíslensku.
Þannig reynir Stefán Jón Hafstein að útskýra fyrir Íslendingum sögu og stöðu Afríku, þessarar risastóru heimsálfu, í væntanlegri bók: Afríka – ást við aðra sýn.
Bókin er safn greina og mynda frá ólíkum stöðum og með fólki sem Stefán Jón hefur heimsótt á ferðum sínum og við störf þar suður frá. Stefán Jón gefur bókina út sjálfur og í gegnum samfélagsvefinn karolinafund gefst áhugasömum kostur á að leggja útgáfunni lið og eignast eintak á góðum kjörum.
Herðubreið birtir hér kaflabrot úr bókinni:
Á glæsihóteli í fyrrum höfuðborg er stórt landakort í anddyrinu. Það nær yfir vegg og er eftirgerð þeirrar myndar sem evrópsk siðmenning gerði sér af Afríku um aldamótin 1800. Útlínur álfunnar heitu eru auðþekktar. Meðfram strönd meginlandsins eru merktar nokkrar hafnir og fáein strik vísa veg stuttan spöl inn í land, en síðan tekur við næstum álfan öll og kallast einu nafni terra incognito eins og kortagerðarmaðurinn skrifar skýrum stöfum. Óþekkt land. Eyða. Álfan myrka var hún líka kölluð. Enskur kortagerðarmaður hefur skrifað neðst í hornið að hver sá sem segist vita meira um Afríku en komi fram á þessu korti sé falsari. Meira sé ekki vitað.
Landakort eru túlkun á heimsmynd. Eins og hún er í huga kortagerðarmannsins. Nokkrum vikum síðar rekst ég á annað kort. Það er í óhrjálegum barnaskóla. Byggð hefur verið skólastofa fyrir þróunarfé og eru jafnvel borð og stólar fyrir nemendur. Hvorki bækur né kennslugögn. Nema eitt kort sem rissað hefur verið upp með tússpenna á spjald. Útlínur Afríku er auðþekktar. Og reitirnir sem á hana eru merktar kunnuglegir. Undir kortinu stendur, krotað með handskrift kennarans: Svona skipti hvíti maðurinn Afríku.
Þegar þau uppskipti fóru fram voru aðeins liðin um áttatíu ár frá því að hitt kortið var gert, þetta sem sagði Afríku að mestu ókannaða. Bretland, Frakkland, Þýskaland, Portúgal og Belgía áttu Afríku. Í þessum litla skóla langt inni í skógi er þetta grundvallarlærdómur.
Í mínum fína barnaskóla voru alvöru kort. Þetta gamla góða af Íslandi með fjöllum og undirlendi, umkringt bláu hafi. Stór eyja með kaupstöðum og kauptúnum. Og svo kort af heiminum. Þar voru Afríka, Suður-Ameríka og Asía langt í burtu, eins og á að vera, og frekar smágerð meginlönd í samanburði við okkar voldugu Skandinavíu og Evrópu.
Þetta var heimsmynd byggð á hugmynd um mikilvægi en ekki raunveruleika. Afríka er stór. Mjög stór. Flatarmál Kína, Indlands, Bandaríkjanna, Vestur-Evrópuríkja og Japans kemst léttilega fyrir á Afríkukortinu. 54 ríki og milljarður manna. Nei, Afríka er ekki land sem er langt í burtu, hún er heimsálfa sem þýðir að hún er margbreytilegur heimur útaf fyrir sig og af henni er engin ein mynd.
Og var aldrei ein mynd. Áður en kortagerðarmaðurinn enski varaði við falsspámönnum í sinni atvinnugrein sem þættust vita eitthvað um Afríku var þetta
terra incognito heimili fólks. Konungsríki teygðu sig víða, borgir og hallir risu, ættbálkasamtökum var stjórnað af víðsýnum leiðtogum, stríð voru háð, þrælar teknir, listamenn skáru út, ristu rúnir, dansar voru dansaðir og sögur sagðar á þessu óþekkta meginlandi.
Einn fræðimaður segir að þar hafi verið tíu þúsund pólitískar einingar sem flokkist undir það sem í dag gæti kallast ríki, konungs- eða furstadæmi, ættarsvæði, kynþáttaeiningar. Annar hefur reynt að gera kort af Afríku sem sýnir skipan áður en Evrópa skipti herfanginu og er lítríkt og margbreytilegt, eins og ofin værðarvoð sögunnar en ekki köflótti eldhúsdúkurinn nýlenduherranna.
Að Evrópa „skipti“ herfanginu er full hlutlaust. Barði niður uppreisnir, litaði stórfljótin rauð með blóði, stofnaði fangabúðir og efndi til þjóðarmorða. Tók bestu lendurnar undir aðflutta hvíta landnema og stuggaði heimamönnum burt. Hóf að flytja út auðævin sem hvarvetna blöstu við. Skattlagði fólk og skikkaði til vinnu fyrir sig, eða bara þrælaði út með ofbeldi: Stór hluti Afríku sem oftast var kenndur við Kongó var í raun í einkaeigu Leóopolds annars Belgíukonungs sem ætti að vera á hástalli í minjasafninu um grimmustu kvalara mannkynssögunnar, með Hitler, Stalín og Pol Pot. Sú Afríka sem við þekkjum í dag er grundvölluð á að sundra með reglustikulandamærum menningarheildum sem áttu samanstað í ævagamalli tilveru og sameina svo grúa gjörólíks fólks í nýjum hólfum. Ríki eins og Nígería hefur aldrei verið og mun líklega aldrei verða neitt annað en samsuða upp úr þessu bralli, svo ólíkt sem fólkið er innan landamæra þessa fjölmennasta ríkis Afríku – það eina sem það á sameiginlegt er landsliðið í fótbolta.
Þess vegna er litla kortið sem kennarinn rissaði upp í lágreista barnaskólanum ennþá skyldulærdómur í Afríku.
Ímyndum okkur að Ísland hefði hlotið svipuð örlög í staðinn fyrir stjórnarskrá frá Dönum á síðari hluta nítjándu aldar. Bretar tekið Austurland, sett landstjóra, skipt út gömlu sýslumönnunum og hreppstjórunum en skipað nýja forréttindastétt. Þeir skattlögðu landsmenn sem fengu að vinna af sér borgun með túrum á þilskipum sem fóru með þorskinn til Bretlands. Þannig tryggðu Bretar sér stöðugt vinnuafl á Austfjörðum og auðævi. Þjóðverjar hefðu tekið Suðurland, sent hingað þúsund bændur og látið taka bestu sveitirnar og býlin fyrir sig sjálfa en ýtt hinum hokrandi Íslendingum sem ekkert kunnu til verka út á Reykjanesskaga. Hin fræga smábændauppreisn litaði einmitt Þjórsá rauða í heilan dag meðan þaulskipulagðir herir Þjóðverja brytjuðu niður búandkarla, konur og börn. Portúgalar hefðu tekið Reykjavík, þetta litla þorp, og innlimað embættismannastéttina, gert þar uppskipunarhöfn fyrir Ameríkusiglingar og skipað öllum að tala portúgölsku og svo væri enn. Frakkar tóku Vestfirði og Norðurland undir útgerðir og enn þann dag í dag tala allir frönsku á Ísafirði, Akureyri og Húsavík, en í sveitunum er bláfátæk alþýða sem lifir af landinu og kann ekki tungumál hinna háu herra. Talar svokallaða gamalíslensku, sem fáir skilja.
Í þessari sögu var ekkert til sem hét þjóðerniskennd Íslendinga. Þjóðin var klofin. Þingvellir mannlausir 17. júní 1944 en talsverður hópur ungra manna að austan og norðan barðist með bandamönnum í stríðinu. 1949 var Suðurland endanlega tekið af Þjóðverjum og gert að alþjóðlegu verndarsvæði NATÓ með samningi um herstöðvar til 99 ára. En ungu hermennirnir sem höfðu barist í Evrópu snéru tilbaka með hugmyndir um sjálfstjórnarrétt. Kringum 1950 fengu landshlutarnir sjálfstæði og ólíka fána. Hinar þrotlausu deilur frönskumælandi Borgfirðinga og útsendara Portúgals í Reykjavík urðu harmrænar þegar fylkingum laust saman á endurnýjaðri Sturlungaöld. Forréttindahóparnir og höfðingjaelítan sem þjónaði nýlendunum tók völdin, hélt áfram arðráni og gerði samning við þriðju og fjórðu kynslóðir aðkomumanna frá Evrópu sem tekið höfðu lönd, fisk og orku um að halda því áfram. Sjálfstæðismenn voru miskunnarlaust teknir af lífi eða látnir rotna í fangelsum. Helsta frelsishetjan var myrt og brennd í tunnu.
Svona var einmitt umhorfs þegar Afríkuríkin risu upp til sjálfstæðis 15-20 árum eftir að Ísland varð lýðveldi. Fimmtíu ára ferðalag frá nýlendum til fullvalda og sjálfstæðra ríkja eins og við þekkjum í dag er engin skemmtiferð þegar veganestið er svona smurt. Síðasta nýlendan fékk sjálfstæði 1990.
Ég hitti mann í Malaví sem var kallaður heim úr háskólanámi erlendis þegar landið fékk sjálfstæði rétt eftir 1960. Hann var einn af átta háskólamenntuðum Malövum í öllum heiminum á þeirri sögulegu stund. Forsetinn hringdi í þá alla og sagði þeim að koma heim og hjálpa. Ég hitti Íslending í Malaví. Hann spurði mig hvort Afríkumenn ætluðu aldrei að komast yfir nýlendutímann? Vegna þess að við stóðum báðir í fæturna sunnan við miðbaug benti ég norður og spurði hvort hann hefði skoðað jörðina úr suðri?
Á þeim árum sem Afríka var í heljargreipum nýlenduríkjanna var Evrópa kjarni siðmenningar í heiminum – á hinni svonefndu Öld öfganna: Tvær heimsstyrjaldir voru háðar, blóðugar byltingar gerðar, þjóðarmorð framin, útrýmingarbúðir reknar, herforingjastjórnir við völd í löndum eins og Portúgal og Grikklandi, fasistastjórnir í Þýskalandi, Ítalíu og Spáni, kynþáttahreinsanir á Balkanskaga og víða um austur Evrópu, fólk múrað inni undir vernd harðstjóra og heiminum haldið í gjöreyðingarhættu með kjarnorkuvopnum sem nægðu til að útrýma lífi á jörð mörgum sinnum.
Úr suðri séð er þessi tegund siðmenningar ekki góð fyrirmynd. Afríka hefur aldrei steypt mannkyni í tortímingarhættu eða ógnað heimsfriði. Aldei sett drjúgan hluta íbúa jarðar á hausinn í efnahagskollsteypu. Ekki umturnað vistkerfi jarðar, enda mun álfan heita fyrst finna fyrir illkynja áhrifum loftslagsbreytinga án þess að eiga á þeim nokkra sök. Framið þjóðarmorð? Jú vissulega, hræðileg og óafsakanlegt morðæði hefur runnið á Afríkumenn. Þrælasala? Jújú. Spilling? Má ekki milli sjá hverjir eru verri, einræðisherrar Afríku í tragikómískum hlébarðaskinnum eða auðræðisherrar Vesturlanda. En þeir eiga sameiginleg skattaskjólin sem friðhelgir bankarnir græða á.
Enn er Afríka álfan myrka í mörgum skilningi.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021