trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/12/2017

Jólabréf af Sóló: Smyglarinn frá Dresden og MA-kvartettinn á fóninum fyrir norðan

Annað árið í röð birtir Herðubreið jólabréf fjölskyldunnar á Sólvallagötu 39 í Reykjavík.

———-

Eftir Eyþór Árnason

Læðast til manns lekker jól
laus frá öllu þrefi.
Heimur syngur heims um ból
hátt með sínu nefi.

Það er margt skrítið í veröldinni. Og þó að Grasa-Gudda hafi sagt: „Já, ég þekki hana verslu og má muna tvenna tímana“ er hún versla stöðugt að koma fólki í opna skjöldu. Og árið 2017 stóð fyrir sínu. Costco-skrímslið var opnað og allt varð vitlaust. HM-æði með húi fram undan og Katrín sólaði alla og tók völdin. Já, það er ýmislegt á sveimi í henni verslu og það dúkka upp undarlegir hlutir þegar enginn á von á neinu!

Fyrir stuttu var húsbóndinn á efstu hæð á Sóló 39 að bardúsa með nágranna sínum niðri í gangi við bakdyrnar; tveir stútungskallar að reyna að ná hita í ofn með litlum árangri. Sem þeir eru að brasa við ofnfjandann, berja í hann og banka, hrynur eitthvað niður bak við hann með skellandi glamri. Og hvað kom í ljós undan ísköldum ofninum? Jú, þýskar bílnúmeraplötur. Þetta voru greinilega þýskar plötur því þarna mátti lesa Dresden með lúsaletri. Ja hver fjandinn. Hvað eru þessar plötur að vilja hér? Kannski Rammstein-eldvörpuflokkurinn hafi týnt þeim? Nei, það stenst varla og Ásgeir „Sigi“ Sigurvins kemur ekki til greina og Guðjón Valur og Alfreð Finnboga eru uppteknir við að skora mörk. Og það vekur undrun að Evrópuhringurinn blái með gulu stjörnunum er ekki á plötunum.

Hvernig á að greiða úr þessu? Útlendu bílnúmeri stungið bak við bilaðan miðstöðvarofn í bakdyragangi í húsi í Vesturbænum í Reykjavík? Það er eitthvað bogið við þetta. Mjög dularfullt, svo ekki sé meira sagt. Þetta hlýtur að tengjast smygli á bílum eða einhverjum fjandanum en ekki þorir húsbóndinn að banka upp á og spyrja nágrannana hvort þeir séu glæpamenn og hafi komið plötunum fyrir þarna. Sá sem fann plöturnar með húsbóndanum var jafnhissa svo sú fjölskylda er sennilega saklaus. Svo eru það börn bónda og húsfreyju. Þau hafa jú öll lykla að húsinu og yngri dóttirin að læra í Þýskalandi. Þau eru grunsamleg. Sérstaklega þessi í Þýskalandi. Og nú var mikið hux og lagst undir Lagerfeld og gluggað í Árna í Hraunkoti, Tinna og Martin Beck.

Já og niðurstaðan er eftirfarandi: Þetta eru þrautþjálfaðir glæponar sem við er að eiga. Plöturnar eru örugglega af stolnum bíl í Þýskalandi. Sá sem stal honum hefur haft hraðar hendur og fengið nytsaman sakleysingja til að renna upp í Norrænu, sennilega pikkað upp einhvern skítblankan (helst karlkyns) íslenskan háskólanema með bílpróf. Það er auðvitað skilyrði að hafa bílpróf. Og landinn er alltaf brattur og til í svartan aur, hefur fengið umslag fullt af evrum, skipun um að berast ekki of mikið á, fara samt í HM og dressa sig upp, fá sér ray-ban-gleraugu og Tommy Hilfiger-skó, frelsiskort og einnota síma. Síðan voru líka tilmæli um að grípa einhvern innfæddan (helst stúlku) með og tala þýsku alla leiðina upp til Seyðisfjarðar, senda þá þýsku síðan með Air Iceland connect frá Egilsstöðum (fyrir glæpsamlegt verð) í bæinn, rúlla henni í rútu gullna hringinn í sumarsúldinni, stinga svo upp í hana dúsu með uppstoppuðum lunda og the midnight sun úti við Gróttu. Hún hágrenjar þar yfir fegurðinni og síðan út með Wow. Far vel Frans eða þannig, gott að vera laus við hana. Sú þýska búin að sverja við Lúter og páfann að kjafta ekki, enda vissi hún í raun aldrei hvert hennar hlutverk var. Sem villti auðvitað fyrir og ruglaði alla í ríminu. Já einmitt.

En stúdentinn sem keyrði var góður með sig, brunaði í einum rykk yfir Möðrudalsöræfin, stoppaði aðeins í Vaglaskógi og fór úr HM-fötunum og í gömlu JMJ-fötin, grýtti símadruslunni með nókíahringingunni í Eyjafjarðarána, renndi inn á Akureyri og skildi bílinn eftir í gangi á bílastæðinu við Hof, gekk upp í bæ á Tommy Hilfiger og leit aldrei um öxl. Henti HM-fötunum í ruslatunnu á leiðinni heim til pabba og mömmu á Brekkunni. Honum var tekið sem alhvítum hesti og plata með MA-kvartettinum sett á fóninn. Fljótlega fór hann að vinna við gróðursetningu á blómum í Lystigarðinum og selja miða í hvalaskoðun á kvöldin og er hann úr sögunni. Aðalglæponinn, sá sem sá um plottið, hafði sent ungan traustan mann norður með seinni strætó kvöldið áður en Norræna kæmi. Hann fékk pening fyrir kjötsúpu í Staðarskála og soðnu ferðakaffi í Varmahlíð.

Sá sem kom norður var ekki mjög ratviss á Akureyri, hafði aldrei heyrt um Ingimar Eydal, Sjallann eða Kristján Jóhannsson (það getur að vísu ekki verið), nú eða Nonna, hvað þá Davíð. En hann þekkti Hvanndalsbræður. Hann fékk gistingu hjá stúlku sem hann hafði verið að flangsa utan í fyrir sunnan, en nú var stúlkan komin norður og orðin afundin en leyfði honum samt að lúra á mjóum dívangarmi undir súð. Var þetta ekki sérlega ákjósanlegt en sunnanmaður lét sig hafa það. Um hádegi var hann svo mættur niður að Hofi og beið. Og beið. Snuddaði um, drakk kaffi, reykti fullt af sígarettum og sleikti sólina, því auðvitað var sól á Akureyri. Og dagurinn leið. Ferjumaður gjörðist sólbrenndur og órólegur, en viti menn; nú renndi gljáandi Benz inn á stæðið og út stigu ray-ban-gleraugu og hurfu í mannfjöldann. Sunnanmaður dokaði aðeins við, marði rettuna undir trosnuðu Ecco-skónum og lét til skarar skríða.

Gekk öruggum skrefum að útlendu drossíunni og settist inn, lokaði dyrunum pent og strauk yfir leðrið og saup hveljur. Nú skulum við reikna með að það sé leður í þessum bíl og þetta hlýtur að vera Benz eða þá BMW, varla Ópel, Wartburg eða Trabant.

En núnú, suður hélt ferjumaðurinn, villtist aldrei á leiðinni, fór dagfari og náttfari á 98 km hraða svo löggan tæki hann ekki í Blönduhlíðinni eða á Línakradalnum. Hann passaði sig á lúmsku hraðamyndavélinni við Fiskilæk og renndi fyrir Hvalfjörðinn því ekki máttu myndavélarnar í göngunum pikka hann upp. Þá væri allt unnið fyrir gýg. Það var því þreyttur dúddi sem renndi upp á bílaplanið við Esjurætur og hljóp inn í skóginn og kastaði af sér vatni með látum. Þegar hann kom aftur á planið var bíllinn horfinn. Þetta var allt með ráðum gert því hann átti ekki að sjá þann sem tók bílinn. Ferjumaðurinn hringdi síðan í mömmu sína og bað hana að sækja sig, sem hún og gerði. Hún var ekki óvön að skjótast upp að Esju og sækja soninn því hann var gaurinn sem skrapp upp í Esju og festi jeppann í sumar. Sem sagt maður með reynslu og gott að nota í sendiferðir á malbiki.

Auðvitað eru þetta allt getgátur því bíllinn hefur aldrei fundist. Hann er samt hér á sveimi. Menn hafa auðvitað smyglað plötum með nýjum númerum út af Hrauninu, kannski er einkanúmer á honum, t.d. Bella eða bara Dúddi nú eða K-3363 sem var einu sinni á Toyotu Tercel. K-3363 vekur enga athygli því allir segja: „Þetta er einhver greifi úr Skagafirði sem hefur plumað sig vel á mölinni, sennilega nátengdur Kaupfélaginu.“

En síðan er eitt sem verður að taka með í reikninginn:

Hvað merkir númerið sem var á bak við ofninn:
DD 03721 24/12/16

DD er kannski tenging við Davíð Oddsson og kannski kemur helblár uppruni húsbóndans þarna fram. Já, kannski er þetta allt táknrænt, húsfreyja og Davíð eru eitt. Hér erum við að hitna. Síðan eru margir möguleikar uppi á borðinu þegar tölurnar eru skoðaðar.

Fyrst kemur fyrir eitthvað sem gæti verið 0 eða einhver þýskur stafur, tákn sem hulið er þoku og við hlaupum yfir það. Og nú kemur í ljós að gott hefði verið að hafa lært eitthvað af Hermundi talnaspekingi forðum. 3 í þessu tilfelli er auðvitað vitringarnir þrír með gull, reykelsi og myrru enda stutt í jesúbarnið. Númer 7 er bara happatala og sennilega til skrauts. Minnir þó á Jón í Möðrudal með andarteppuþuluna „Sjö sinnum það sagt er mér“ í mörgum tóntegundum. Síðan kemur 2, það er erfitt að ráða í það, kannski verið að telja niður í jólin því svo bætist 1 við. En sennilega er þetta ávísun á peninga, maður eigi að skella sér í 21 og stórgræða um jólin, sjö tunnur rauðagulls af bitcoini. Það eru alla vega miklir peningar þarna á bak við. Eða er þetta vísun í að húsbóndinn eigi að hlaupa hálfmaraþon í sumar?

Síðan er auðvitað þessi stórkostlega dagsetning í lokin:
24/12/16

Það er semsagt ár síðan síðustu jól voru og þá er best að skjóta því að (þetta er jú jólabréf!) að af okkur hér á Sólvallagötunni er allt gott að frétta enda frekar rólegt í heimili; karl og kerling ein í kotinu, vinna, syngja, ferðast, hitta vini sína og borða sinn gamla mat í friði. Börn og bura (þau sem eru á landinu) reyna samt að koma einu sinni í viku í mat (ekki alltaf í gamla matinn). Sem sagt: Allt gott. Við segjum gleðileg jól, farsælt komandi ár og takk fyrir gömlu!

Sólófjölskyldan.

P.s.
Í Leipzig

Það er sólarlag við Tómasarkirkjuna.
Síðustu orgelhljómarnir berast mér um loftið,

tokkata og fúga.

Í þögninni sem fylgir
heyrast óþreyjufull högg.
Ég renn á hljóðið.

Í bakgarði eru glóandi skeifur lagðar á steðja
og gneistarnir hrökkva af eins og nótur.
Með suð í eyrum rangla ég áfram,
dasaður eftir langa göngu, stend svo grafkyrr
og kasta mæðinni,
gestur í kyrrlátri götu, þei þei og ró,

saknaðarskjöldur á húsi.

Dimman sækir á og það fer um mig
þar sem ég horfi upp í risið, heyri steinana tala.

Ég geng niður götuna, tvíundarsöngur fylgir mér,
sest inn á Café Grundmann
og himnarnir opnast.
Strýk panelinn, en man ekki ljóðið, man bara slitur.
Æ, hvar hef ég týnt því, hvar missti ég þráðinn,
eða var hann aldrei í hendi?

Hrekk við þegar hausthljóðið í vindinum kallar
og setur mér stól fyrir dyrnar.
En hestarnir bíða, bundnir við stallinn.
Þeir verða járnaðir í nótt

því ég ætla heim.


Jólabréf Sólófjölskyldunnar 2016 má lesa hér.

 

 

1,408