trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 24/03/2014

Jafnaðarmenn og ójafnaðarmenn

Því heyrist stundum slegið fram að hugtökin vinstri og hægri séu hálfpartinn úrelt í stjórnmálum. Sumir vilja fremur draga línu í sandinn milli forsjárhyggju og frjálslyndis. Aðrir nefna einhvers konar náttúruverndarás. Það má vera nokkuð til í þessu, en grundvallaratriðin breytast ekki.

Stærsta og mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna er tekjuskiptingin í samfélaginu, spurningin um það hvernig við skiptum kökunni, hvort örfáir útvaldir eigi fyrst að fá helminginn og aðrir svo síminnkandi sneiðar, eða hvort samfélagið eigi að hafa einhver afskipti af stærð sneiðanna.

Það er hér sem skilur á milli vinstri og hægri manna. Jafnaðarmenn og  aðrir þeir sem telja sig til vinstri vilja skipta tekjunum jafnar en nú er gert. Hægri menn eru nánast sjálfkrafa á móti jöfnuði. Hörðustu fylgismenn frjálshyggjunnar og „brauðmolakenningarinnar“ mætti sem best kalla ójafnaðarmenn, jafnvel í hefðbundinni merkingu þess orðs.

Auðvitað finnst manni að grunngildi á borð við jöfnun tekjuskiptingar ættu að vera meðal helstu kosningamála fyrir hverjar kosningar. En af einhverjum ástæðum eru þau sárasjaldan nefnd. Hægri menn hafa eðli málsins samkvæmt ekki sérstakan áhuga á að tala mikið um misskiptingu tekna og fyrir hverjar kosningarnar á fætur öðrum virðist þeim takast að gera að kosningamálum einhver málefni sem koma þessum grunngildum lítið við.

Það er engu líkara en að vinstrisinnarnir missi sjónar á grundvallaratriðunum og láti teyma sig út í karp um aukaatriði í kosningabaráttu.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru „regluleg laun“ á Íslandi 402 þúsund krónur á mánuði að meðaltali á árinu 2102. Miðgildi reglulegra launa var hins vegar 353 þúsund á mánuði. „Miðgildi“ merkir að helmingur vinnandi Íslendinga hafði lægri laun en þetta, en hinn helmingurinn hærri. Fjórðungur landsmanna varð að láta sér nægja 281 þúsund á mánuði eða minna og tíundi hver fékk innan við 235 þúsund.

Sá fjórðungur landsmanna sem hafði hæstu tekjur fékk 450 þúsund á mánuði eða meira. Þessar tölur ná bara til reglulegra, umsaminna mánaðarlauna. Þær ná t.d. ekki yfir arðgreiðslur. Hins vegar höfðu 60% launamanna 380 þúsund eða minna í regluleg mánaðarlaun. Það eru sem sagt nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum á vinnumarkaði, sem ekki ná meðaltalslaunum (402 þúsund). Við þetta bætast svo stórir hópar örorku- og ellilífeyrisþega.

Jafnaðarmenn ættu að eiga brýnt erindi við þennan stóra meirihluta landsmanna. Mér þætti engin goðgá þótt jafnaðarmenn færu að tala um að lækka skatta – hjá þeim meirihluta landsmanna sem hefur minna en meðallaun.

Það mætti jafnvel hugsa sér afnema alveg tekjuskatt til ríkisins af öllum tekjum undir miðgildislaunum. Við þær aðstæður myndi nákvæmlega helmingur launþega aðeins greiða útsvar. Skattprósentan á launaseðlinum færi úr kringum 40 niður í 15. Kostnaður ríkissjóðs yrði  talsvert minni en margur hyggur. Jafnvel hátt hlutfall af lágum tekjum eru nefnilega ekki mjög margar krónur.

Er ekki kominn tími til að hætta að skattpína lágtekjuhópana? Og skyldu ekki valdahlutföllin á Alþingi riðlast dálítið ef meirihluti landsmanna sæi sér skyndilega beina hagsmuni í því að kjósa í samræmi við þau grunngildi sem mestu skipta í stjórnmálum.

Flokkun : Pistlar
1,592