Hvers vegna er mótmælt í besta landi í heimi?
Það var óvenjulegt að horfa á ræðu forsætisráðherra á þjóðhátíðardaginn 17. júní, enda heyrðist varla í honum vegna háværra mótmæla. Fjöldi góðborgara hefur í kjölfarið hneykslast á því framferði. Þeir eru ekki endilega á móti mótmælum, enda frelsiselskandi fólk, en segja stað og stund fyrir slík. Þetta hafi ekki verið sá staður né sú stund.
Það er margt í lagi á Íslandi. Og betra en í flestum öðrum löndum. Hér hefur til að mynda verið góður hagvöxtur undanfarin ár og allar spár gera ráð fyrir að hann muni halda áfram að aukast. Aukinn þorskvóti, væntanlegar stóriðjuframkvæmdir, vöxtur í ferðaþjónustu og aukin erlend fjárfesting í kjölfar afnáms hafta mun allt hjálpa til að auka hagvöxtinn enn meira.
Kaupmáttur launa hefur líka vaxið hratt undanfarin misseri. Ástæðan er fyrst og fremst lág verðbólga. Þetta þýðir að virði peninganna sem við eyðum er meira en það var áður. Atvinnuleysi var 5,5 prósent í apríl síðastliðnum. Til samanburðar var það 9,7 prósent innan Evrópusambandsins.
Lífskjararannsókn Hagstofunnar sýnir auk þess að dreifing tekna á Íslandi er með því minnsta í Evrópu og að lægra hlutfall landsmanna er undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en í nokkru öðru Evrópulandi.
Í ofanálag erum við nýbúin að stíga risastór skref í átt að eðlilegheitum með því að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um leið sem gerir þeim kleift að gera upp slitabú sín. Þessi leið mun skila ríkissjóði miklum tekjum sem hann getur notað til að greiða niður skuldir sínar og minnka árlegan fjármagnskostnað um allt að þriðjung.
Við erum meira að segja orðin ógeðslega góð í fótbolta.
Af hverju er fólk samt svona reitt?
Það er erfitt að ná endum saman
Í fyrsta lagi þá er mjög erfitt fyrir marga landsmenn að ná endum saman.
Samkvæmt dæmigerðu neysluviðmiði velferðarráðuneytisins eru heildarútgjöld fjögurra manna fjölskyldu án húsnæðiskostnaðar 554.190 krónur á mánuði. Ef foreldrarnir eru báðir með meðalheildarlaun (555 þúsund krónur) fá þeir saman útborgað um 700 þúsund krónur. Þeir eiga því um 146 þúsund krónur eftir til að koma þaki yfir höfuðið á mánuði. Ef litla fjölskyldan leigir þriggja herbergja 70 fermetra íbúð í Breiðholti kostar hún 140 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt tölum úr leigugagnagrunni Þjóðskrár. Við bætist væntanlega hiti, rafmagn og hússjóður og þá er minna en ekkert eftir.
Ef fjölskyldan á góða að, sem eru tilbúnir að lána eða gefa þeim þær sex milljónir króna sem hún þarf í útborgun til að geta keypt sér 70 fermetra þriggja herbergja íbúð í Reykjavík, þá getur fjölskyldan minnkað húsnæðiskostnaðinn sinn um 35 þúsund krónur á mánuði. Þ.e. ef hún tekur verðtryggt 40 ára lán, sem sitjandi ríkisstjórn vill reyndar banna.
Í dæminu hér að ofan er miðað við meðalheildarlaun, um 555 þúsund krónur á mánuði, og að tvær jafn launaháar fyrirvinnur væru fyrir heimilinu. Rúmlega helmingur launamanna á Íslandi var með heildarlaun undir 500 þúsund krónum í fyrra. Og hluti þeirra eru einstæðingar. Þá verður baráttan enn flóknari.
Lækkandi þjónustustig
Í öðru lagi er fólk ekki ánægt með þjónustustig velferðarkerfisins.
Íslendingar borga háa skatta. Skattþrepin þrjú eru á bilinu 37,3 prósent til 46,24 prósent eftir því hversu háar tekjur viðkomandi eru. Á móti fáum við persónuafslátt.
Þrátt fyrir þetta ríkir ekki mikil ánægja meðal fólks um það sem fæst í staðinn fyrir þessa skatta. Forstjóri Landsspítalans sagði nýverið að heilbrigðisþjónustan á Íslandi hafi fallið niður um flokk vegna verkfalla sem gengið hafa yfir innan hennar undanfarið ár og líkur eru á að fjöldi hjúkrunarfræðinga snúi ekki aftur til starfa. Skrifstofur lækna eru í skúrum, tækin á spítalanum eru úr sér gengin og sumir sjúklingar fá ekki bestu fáanlegu lyf við sjúkdómum sínum. Kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur sömuleiðis aukist undanfarin misseri án þess að þjónustan hafi batnað.
Háskóli Íslands er fjársveltur, stytting menntaskólanáms hefur vakið miklar deilur og afnám samræmdra prófa virðist ekki hafa skilað neinu nema verðbólgnum einkunnum sem gera skólum erfiðara fyrir að meta raunverulega námsgetu nemenda.
Fæðingarorlof er styttra hér en á hinum Norðurlöndunum og lágt greiðsluþak gerir það að verkum að karlar eru nánast hættir að taka slíkt orlof. Þess utan eru dagvistunarmál í ólestri vegna þess að börn komast í fyrsta lagi inn á leikskóla um tveggja ára aldur, löngu eftir að foreldrar þeirra þurfa að byrja að vinna til að eiga fyrir þaki yfir höfuðið. Í millitíðinni þurfa þeir að setja pinkulitlu börnin í dagmömmulottóið, þar sem enginn veit hvað hann fær.
Svo fátt eitt sé nefnt.
Misskipting auðs
Í þriðja lagi finnst fólki eins og kökunni sé verulega misskipt milli þess fólks sem auðgast gríðarlega á íslenskri framleiðslu, t.d sjávarútvegi, og þeirra sem þiggja laun fyrir að skapa hana. Mjög reglulega eru sagðar fréttir af milljarðahagnaði fyrirtækja sem borga síðan milljarða í arð til eigenda sinna.
Þótt launatekjujöfnuður sé fínn í landinu í alþjóðlegu samhengi sé bilið á milli þeirra sem eiga og þeirra sem vinna alltaf að aukast. Þessi tilfinning fær stoð í opinberum tölum. Ríkasta eitt prósentið á Íslandi átti 40 prósent meira árið 2012 en tíu árum áður. Samtals óx auður þessa hóps, sem telur um 1.900 manns, um meira en 100 milljarða króna á föstu verðlagi á áratugnum. Hópurinn átti 244 milljarða króna í hreinni eign í lok árs 2012, eða um fjórðung allra eigna á Íslandi.
Um helmingur fólks á Íslandi á hins vegar 750 þúsund krónur eða minna. Þar af á 30 prósent þjóðarinnar minna en ekkert.
Pólitískar aðgerðir fyrir hina ríku
Í fjórða lagi upplifir fólk að pólitískar ákvarðanir séu ekki teknar með hagsmuni þeirra að leiðarljósi, heldur sérhagsmuni lítilla hópa sem hafa mikil völd í krafti eignarhalds síns á atvinnutækjum þjóðarinnar.
Afnám auðlegðarskatts (sem lagðist á eignir hjóna yfir 100 milljónum króna og skilaði yfir tíu milljörðum króna í árlegar tekjur), kvótasetning makríls (sem tryggir eignarrétt útgerða á auðlindinni), breytingar á veiðigjöldum (sem lækkuðu greiðslur útgerðarfyrirtækja í ríkissjóð um marga milljarða króna árlega), skattalækkanir/breytingar á virðisaukaskatti/afnám tolla og gjalda (sem verkalýðsforystan segir að skili hátekjuhópum meiru en lágtekjuhópum), skuldaniðurfelling ríkisstjórnarinnar (stærri hluti þeirrar aðgerðar rennur til lækkunar á skuldum tekjuhærri heimila en hjá tekjulágum) og breytingar á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga (sem skiluðu engu til ellilífeyrisþega með undir 200 þúsund krónur á mánuði) eru allt dæmi um pólitískar ákvarðanir sem hafa styrkt þessa tilfinningu í sessi.
Ferðalög menntamálaráðherra um Kína með orkufyrirtæki undir stjórn manns sem ráðherrann er fjárhagslega háður, sala Landsbankans á Borgun og styrkjasúpan og ívilnanir hins opinbera tilfiskeldisfyrirtækisins Matorku, svo nefnd séu þrjú mál sem komið hafa upp á rúmu hálfu ári, hafa ekki hjálpað til við að þrífa frændhyglisfnykinn af verkum stjórnvalda.
Fólk vill ráða
Í fimmta lagi upplifir fólk mikinn lýðræðishalla. Það telur að fulltrúalýðræðið eins og það er stundað á Íslandi í dag sé úr sér gengið fyrirkomulag, sérstaklega í ljósi þeirrar upplýsingabyltingar sem orðið hefur með tilkomu internetsins og tækniframförum á borð við snjallsímana. Í dag þarf fólk ekki að treysta á framsetningu fárra en valdamikilla fjölmiðla til að fá upplýsingar um hluti sem skipta þá máli. Það er með gátt að ótæmandi upplýsingaveitu í vasanum alla daga. Auk þess hafa samfélagsmiðlar gjörbylt umræðu um samfélagsmál. Nú geta allir tekið þátt í þeim á opnum vettvangi, ekki bara valdir aðilar sem voru valdhöfum þóknanlegir.
Þess vegna fer málflutningur á borð við þann að sitjandi ríkisstjórn hafi fengið umboð til að ráða öllu í síðustu kosningum, og frábiðji sér því mótbárur þegar hún sé að innleiða stefnu sína á kjörtímabilinu, ákaflega illa í sífellt stækkandi hóp. Sá hópur telur að hlutir eins og ójafnt vægi atkvæða eftir því hvar fólk býr og að ekki sé hægt að kjósa einstaklinga til að sitja á þingi séu tímaskekkjur sem fyrir löngu ætti að vera búið að leiðrétta. Þessum hópi finnst líka að þjóðin sé fullfær um að kjósa um grundvallarmál samfélagsins í þjóðaratkvæðagreiðslum og telur að stjórnmálamönnum beri síðan að vinna eftir þeirri niðurstöðu. Hvort sem um sé að ræða aðild að Evrópusambandinu, kvótakerfið eða hvort þjóðin eigi að fá nýja stjórnarskrá eða ekki.
Fólk er þreytt á freka kallinum sem vill taka ákvarðanirnar fyrir það. Það vill beint lýðræði og taka ákvarðanir sem snerta það sjálft.
Það á sér stað rof
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í frægu viðtali í síðasta mánuði að á Íslandi væri allt frábært, en Íslendingar sjái það bara ekki. Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi. Að svo sé ekki kunni að „skýrast að einhverju leyti á rofi milli raunveruleika og skynjunar“. Þess vegna sé ekkert fylgi við ríkisstjórnina þrátt fyrir veisluna sem hún sé að bera á borð fyrir þjóðina.
Þótt þjóðarbúskapurinn sé að braggast, og margt sé hér auðvitað miklu mun betra en annarsstaðar, þá sér stór hluti þjóðarinnar ekki hlutina á sama hátt og forsætisráðherra. Sá hluti lifir ekki í sama raunveruleika og hann heldur upplifir sig sem þiggjendur brauðmola af alsnægtarborði yfirstéttar sem situr í skjóli stjórnmálamanna.
Þess vegna treystir einungis fimmtungur þjóðarinnar Alþingi. Þess vegna styðja undir 30 prósent hennar ríkisstjórnina. Þess vegna mælast Píratar með 37,5 prósent fylgi og þess vegna eru allir hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir í frjálsu falli í öllum könnunum sem gerðar eru.
Það er rof til staðar, en það er ekki hjá almenningi. Rofið er hjá stjórnmálamönnum sem skynja ekki raunveruleika skjólstæðinga sinna, almennings í landinu.
Þess vegna mótmælir hann.
Þórður Snær Júlíusson, Kjarninn, 22. júní 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021