Hver lak núna?
Bjarni Benediktsson er kominn í stríð við samráðherra sinn, Eygló Harðardóttur, og svífst einskis til að koma á hana höggi. Fréttastofa RÚV „hefur undir höndum“ einhvers konar „umsögn“ fjármálaráðuneytisins um frumvarp Eyglóar um húsnæðisbætur, nýtt kerfi sem á að leysa húsaleigubætur og vaxtabætur af hólmi.
Auðvitað er ekkert eðlilegra en að fréttastofan birti meginatriði þessarar umsagnar. Fréttastofur eiga að segja fréttir. Gallinn er bara sá að þetta plagg er vægast sagt nokkuð furðulegt. Áhersluatriðin benda einna helst til, að hér sé á ferðinni pólitískt minnisblað, samsett í þeim tilgangi að koma höggi á pólitískan andstæðing.
Og tilgangurinn með að „leka“ þessu plaggi verður þar með auðvitað alveg augljós.
Höfundur umsagnarinnar virðist t.d. alveg gáttaður á að frumvarpið skuli kosta ríkissjóð dálitla peninga og áréttar stranglega að …
… ekki hafi verð gert sérstaklega ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum eða ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2016-2019.
Síðan kemur lítt dulbúin hótun um niðurskurð og skattahækkanir.
Frumvarpinu er líka fundið það til foráttu að auka styrki til „barnlausra leigjenda“ og svo er í besta frjálshyggjustíl klykkt út með því, að aukinn ríkisstyrkur til leigjenda leiði bara til þess að leiguverð hækki.
Hlutverk fjármálaráðuneytisins er að meta kostnað af lagabreytingum, en ekki að níða niður væntanleg stjórnarfrumvörp á flokkspólitískum forsendum. Þarna er á einum stað minnst á rúma tvo milljarða og svo reynt að gera sem minnst úr því, að sveitarfélögunum sparast ríflega þriðjungur á móti. Að öðru leyti sýnast mér áhersluatriðin öllu kostnaðarmati óviðkomandi og mestanpart órökstutt bull.
Þetta plagg verður sennilega hvorki sent yfir í Velferðarráðuneytið né lagt fram á þingi. Kæmi mér ekki á óvart að það verði kallað „drög“ eða „uppkast“ strax á morgun.
Meginspurningin er kannski hver hafi stofnað sér nýtt gmail-netfang að þessu sinni.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019