Höfundur Hrunsins er sjötugur í dag. Honum skal óskað til hamingju
Góður siður að samfagna fólki á stórafmælum og því er full ástæða til að senda Davíð Oddssyni (sem hefur sjálfsagt sína tíðindamenn hér eins og annars staðar) hamingjuóskir á sjötugsafmælinu.
Ég hef bara einu sinni hitt hann og það var á borgarstjóraárum hans, í einhverju Thorsaragilli á Fríkirkjuvegi 11. Þar lék hann á als oddi og mér fannst hann sjarmerandi og skemmtilegur. Annars hef ég bara fylgst með honum álengdar, en alltaf metið við hann vináttu við föður minn, sem talaði hlýlega um Davíð en glýjulaust.
Ég veit ekki hvort hann hefur haft skýra stefnu, skýra sýn á æskilega þróun samfélagsins, hef á tilfinningunni að hann hafi nálgast þetta eins og briddsspilari þar sem leikurinn er aðalatriðið og keppikeflið að standast sagnir með glæsibrag, fá rúbertur, ná alslemmu. Leikurinn.
Ég verð allavega að játa að ég átta mig ekki fyllilega á honum sem stjórnmálamanni; hann hóf ferilinn á því að gera ógurlegt veður út af meintu sprungusvæði við Rauðavatn, þar sem hann situr einmitt nú og unir sér við að skrifa ævisögu sína í þriðju persónu í Reykjavíkurbréfum svo að þetta gamla og góða blað verður æ meira eins og viðsjárvert sprungusvæði.
Hann gerði okkur kleift að ganga í EES út af því Alþýðubandalagið var fast í kaldastríðs-afstöðu til evrópskra vinaþjóða – lét kratana ráða för svona einu sinni – en hann gerði okkur ókleift að ganga í ESB svo að við erum föst í skrýtnu tilskipanalimbói og ekki alveg fullvalda.
Hann lýsti yfir stríði á hendur Írak til að herinn yrði hér áfram – en svo bara fór hann og við sátum uppi með allt draslið og geislavirku kakkalakkana og sökina á Íraksstríðinu.
Hann er stjórnlyndur reiðarekssinni í efnahagsmálum, trúir á brauðmolakenninguna. Hann er ekki frjálslyndur heldur meira fjárlyndur: aðhylltist frelsi peningamannanna en vildi um leið hafa sjálfur hönd í bagga með því hverjum væri boðið í fjármálapartíið og hverjum ekki. En það tókst auðvitað ekki.
Þegar evrópskt viðskiptaumhverfi komst á hér hafði hann forgöngu um um meiri afreglun en víðast í ESB og veikara eftirlit á öllum sviðum fjármálalífsins, að enskri fyrirmynd. Hann bjó til óðakapítalisma en varð svo furðulostinn þegar við fengum yfir okkur óða kapítalista. Bauð í veislu en gætti ekki að því að allt getur gerst þegar allir eru orðnir fullir og engar reglur gilda, enginn að líta eftir neinu. Hann áttaði sig ekki á því hvaða öfl hann hafði leyst úr læðingi þegar hann stóð fyrir auðvæðingu samfélagsins.
Loks þegar hér komst á einhvers konar markaðskerfi eftir áralanga einokun fyrirtækja Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, voru hann og aðrir stjórnmálaforingjar eins og maður sem sest upp í tryllitæki sem hann kann kann ekkert á, en veður af stað á fullri ferð og endar úti í skurði. Eða Hruni.
Hann er öðrum fremur höfundur Hrunsins.
Hann var stjórnmálamaður sem virkaði vel í hamförum og ósköpum en var alveg ómögulegur í góðæri. Valdið lék hann grátt og hann var alltof ráðríkur, þó að sjálfum hafi honum ekki fundist hann ráða neinu. Hann er mjög árásargjarn en það er eins og honum finnist árásirnar bara partur af leiknum, ekki alveg alvöru.
Hann vildi líkjast Ólafi Thors á góðum degi en varð meira eins og Jónas frá Hriflu á vondum degi, magnaði sig upp með óvinum sem hann samdi nánast upp úr sér. Endaði samt á því að afhenda þessum óvinum gjaldeyrisforða þjóðarinnar eiginlega upp á grín.
En óskum Davíð nú til hamingju með afmælið. Hann er sjálfsagt löngu hættur að hlusta á annað fólk en viðhlæjendur en samt er full ástæða til að hvetja hann til að hætta nú þessum skringilegu skrifum í Moggann þar sem hann þarf að hafa sífellt hærra til að láta heyrast í sér, en snúa sér að því að skrifa alvöru minningar með alvöru mannlýsingum og sögum.
Guðmundur Andri Thorsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021