trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 25/12/2016

Hinir valdlausu

Guðspjall: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. (Lúk 2.1-14)

baby-jesus-in-mangerNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við þekkjum öll jólaguðspjallið. Fáar sögur hafa verið sagðar jafn oft og sagan af fæðingu Jesú. Í raun er hægt að skilja foreldrana sem spyrja reglulega í sambandi við kirkjuheimsóknir skólabarna: „Þarf virkilega að segja börnunum þessa sögu á hverju ári?“

Þetta er réttmæt spurning. Maður hefði haldið að eftir alla þessa kynningu, alla þessa klifun á atburðum fyrstu jólanna, að þetta væri farið að síast inn.

En ég held að það sé ástæða til að segja þessa sögu á hverju ári.

Hvers vegna?

Ég tel okkur þurfa á kjarna hennar að halda. Þessi frásögn er nefnilega á vissan hátt löngu farin út úr sjálfri sér og horfin inn í einhvers konar menningarlegt samhengi sitt. Við heyrum upphafsorðin: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.“ Og hugurinn dregur ekki upp mynd af því sem textinn segir, heldur mynd af jólum; helgileik, jólagjöfum, jólamat, jólasnjó og jólatrjám. Það er sú tenging sem skilyrðing áranna hefur búið til í huga okkar.

En jólaguðspjallið er alls ekki um það.

Jólaguðspjallið er saga um mann sem neyðist til að ferðast landshluta á milli með barnshafandi unnustu sína þegar verst stendur á af því að keisarinn ákvað að akkúrat á þessum tíma ætti að gera manntal til að hann gæti betur skipulagt skattheimtu – alveg án tillits til þess hvort það hentaði þessu fólki eða ekki.

Þetta er saga um fullkomlega valdlaust fólk sem neyðist til að standa og sitja eins og yfirvöldum hentar. Hún er um fólk sem ekki er pláss fyrir meðal manna. Um konu sem neyðist til að fæða barn sitt í gripahúsi. Sagan er um fólk sem er sett á stall með dýrum, sem komið er fram við eins og búfé. Jesús fær ekki að fæðast eins og manneskja, meðal manna, hann fæðist í gripahúsi eins og lamb eða kálfur. Afmennskunin er alger.

Við sjáum sambærilegar myndir af aðbúnaði fólks enn þann dag í dag og það er ekkert rómantískt við þær. Þær fylla okkur sorg og hryllingi yfir því að svona skuli búið að lifandi manneskjum í samtíma okkar.

Tölur á blaði

Jósef fékk enga undanþágu. Hann gat ekki sótt um leyfi til að koma síðar að skrásetja sig – einhvern tímann þegar hann hefði ekki verið að stefna lífi og heilsu heitkou sinnar og frumburðarins í hættu með háskalegu ferðalagi undir lok meðgöngunnar. Jósef var ekki manneskja fyrir valdinu, hann var bara tala á blaði. Skattgreiðandi sem þurfti að telja.

Ef þetta væri ekki Biblían heldur Ástríksbók hefði Jósef þurft að finna eyðublað átta-þrjátíuogátta á staðnum þar sem menn missa vitið – svo vitnað sé í eina slíka. Ef þetta væri ekki í Biblílunni heldur á Íslandi í dag hefði Jósef fengið svarið: „Tölvan segir nei.“

Valdið er nefnilega enn samt við sig. Það hefur tilhneigingu til að afmennska fólk í tölur á blaði.

Ef þú hefur ekki fyllt út eyðublað átta-þrjátíu og átta eftir landvistarleyfi á staðnum þar sem menn missa vitið skaltu sendur út landi, hvað sem líður andlegri heilsu þinni eða velferð barna þinna. Ef tölfræðin sýnir að fólk hafi það gott þá lýgur tölfræðin ekki, hvað sem líður biðröðum eftir matarúthlutun og þúsundum beiðna um fjárhagsaðstoð fyrir hátíðirnar. Ef Ágústus keisari vill gera manntal verður gert manntal, alveg óháð aðstæðum einhvers smiðsræfils í Nasaret eða lífsvon barna hans.

Þar sem Guð birtist

Og það er þarna, hjá hinum vanmáttugu leiksoppum valdsins … meðal hinna kúguðu og útskúfuðu, hinna lægst settu og varla mennsku í augum yfirvaldsins … meðal fólks sem fæðir börn sín í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur … sem Guð birtist, sem Guð gerist maður. Guð er vafinn reifum og ekki lagður í vöggu heldur í jötu sem ætluð er undir skepnufóður.

Það er þannig sem Guð kýs að birtast í mannlegu samfélagi. Það er þarna sem hann kemur til okkar, í líki allslauss, umkomulauss barns sem er öðrum háð með alla sína lífsbjörg og samfélagið kemur fram við eins og skepnu.

Og fæðingin er ekki tilkynnt Ágústusi keisara eða Kýreníusi landstjóra. Hún er tilkynnt fjárhirðum sem gættu hjarða sinna.

Við höfum stundum þá mynd í huganum af fjárhirðum að þeir hafi verið einhverjir sællegir og rjóðir smaladrengir en ekkert er fjær sanni. Fjárhirðar voru lægsta stétt samfélagsins. Víða var þeim meinað að koma inn í borgir og vitnisburður þeirra var ekki tekinn gildur fyrir dómstólum.

Og fæðingin er tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir!“

Þeir sem Guð birtist

Annar hópur fólks bjó við svipaða kúgun og undirokun og fjárhirðar. Vitnisburður hans var ekki heldur tekinn gildur fyrir dómstólum. Það voru konur.

Það voru konur, sem komu til að smyrja lík Jesú eftir að hann hafði veirð krossfestur, sem fengu tilkynningu frá engli um að hann væri upp risinn. Og sú tilkynning hefst á orðunum: „Þið skuluð eigi óttast.“ (Matt 28.5)

Það er inn í þessi skilaboð frá Guði til hinna lægst settu og valdlausu sem jarðnest líf Jesú Krists er rammað: „Verið óhræddir, fjárhirðar. Ykkur er frelsari fæddur.“ / „Þið skuluð eigi óttast, konur. Hann er upp risinn.“

Hvílíkt fagnaðarerindi: Óttist eigi. Guð er með ykkur.

En ekki bara fagnaðarerindi til hinna þjáðu og kúguðu heldur líka blaut tuska í andlit valdsins sem smættar manneskjur niður í tölur á blaði og kemur fram við fólk eins og skepnur: „Guð er kominn og ykkur er ekki boðið.“

Keisarinn og landstjórinn, kóngurinn og æðstuprestarnir voru ekki kallaðir að vöggu konungs lífsins og ljóssins heldur hinir sem þeir fyrirlitu og tröðkuðu á.

Og það voru ekki keisarinn og kóngurinn og landstjórinn og æðstuprestarnir sem fengu tilkynningu um upprisu Krists. Þá tilkynningu fengu valdlausar konur sem komu til að veita honum síðustu þjónustu jarðvistar sinnar, ekki morðingjar hans.

Þess vegna

Jólin eru ánægjulegur tími. Við gleðjumst yfir fæðingu frelsara okkar og leitumst við að gleðja hvert annað. Og við gleðjum okkur sjálf með því að gera vel við við okkur í mat og drykk, með því að skreyta híbýli okkar og tendra litfögur ljós í svartasta skammdeginu. Og við umkringjum okkur þeim sem okkur standa næst og umvefjum þau kærleika og gefum þeim gjafir. Jólin eru tími gleði og fögnuðar. Og það er gott og yndislegt.

En við verðum samt að gæta þess að hinn nístandi alvarleiki þeirra skilaboða sem jólin færa okkur drukkni ekki í jólaprjáli og glysi.

Og þess vegna þurfum við að heyra jólaguðspjallið á hverju ári.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Amen.

Prédikun flutt við aftansöng á aðfangadagskvöld 2016 í Laugarneskirkju.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
1,368