trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 28/06/2019

Hin eilífa þrenning

Sem kornungum manni fannst mér óþarfi að nota fleiri reikningsaðferðir en þrjár. Mér fannst auðvelt að leggja saman og draga frá. Að margfalda var örlítið erfiðara en þó ekki óyfirstíganlegt. En deiling fannst mér algerlega út í hött. Mig minnir að ég hafi verið átta ára.

Jú, mikil ósköp. Það var svo sem ekkert einfaldara en að skera epli í tvennt, fjóra parta eða mögulega í þrjá. En að skipta epli í 5, 7, 9 eða 11 parta leist mér ekkert á.

Þótt ég hafi síðan öðlast örlítið meiri skilning á stærðfræði, sýnist mér að ég sé hreint ekki einn um þetta hámark. Talan 3 er iðulega heilög. Og reyndar í mörgum tilvikum ennþá ofvaxin mínum skilningi. Sérstaklega þegar henni er ruglað saman við aðrar tölur. Svo sem þegar búið er að aðskilja Guð föður og son hans og soga Heilagan anda úr báðum og setja svo saman aftur. Þá verður til merkilegur Guð sem mér er sagt að teljist „þríeinn“.

Í daglegu tali skilja stjórnmálamenn milli þriggja samfélagshópa – hvorki tveggja né fjögurra – hátekjufólks, milltekjufólks og lágtekjufólks. Og samkvæmt nýlegri grein í Kjarnanum spannar millitekjuhópurinn ótrúlega breitt bil, frá 400 þúsunda króna mánaðarlaunum upp í 1,2 milljónir. Þarna munar 800.000 krónum (sem mér þættu afar rausnarleg mánaðarlaun).

Í stjórnmálum er þessi þrískipting nú orðin um 230 ára gömul. Hún á rætur að rekja til stéttaþingsins sem franski kóngurinn kallaði saman árið 1789, trúlega vegna útbreiddrar óánægju fransks almennings með óhóflega stórt eldgos á Íslandi 1783-4. Til þingsins boðaði kóngurinn fulltrúa þriggja stétta: aðalsmanna, biskupa og annarra háttsettra kirkjunnar og svo fulltrúa þriðju stéttar, sem var ekki beinlínis skilgreind. Til þessarar þriðju stéttar töldust á þeim tíma einkum kaupsýslumenn og iðnaðarmenn sem höfðu komið sæmilega vel undir sig fótunum. Bændur og þjónustufólk taldist ekki með, né heldur verkamenn, sem reyndar voru ekki orðnir fjölmennir á þessum tíma.

Sagan segir að aðalsmönnum og klerkum hafi komið ágætlega saman enda sóttu þeir vald sitt ýmist beint eða óbeint til Guðs almáttugs. Klerkarnir í gegnum páfann en aðalsmennirnir í gegnum kónginn, sem á þessum tíma taldist einmitt stjórna ríkinu í umboði Guðs. Klerkar og aðalsmenn sátu því hægra megin í salnum – segir sagan.

Vinstra megin sátu fulltrúar þriðju stéttar, sem sagt kaupmenn, iðnmeistarar og fleiri sem áttu það aðallega sameiginlegt að gremjast réttindaleysið sem auðvitað stafaði af sambandsleysi við Guð almáttugan. Sambandsleysið við Guð átti svo aftur á móti rætur að rekja til þess að Guð var þá þegar orðinn nokkuð gamall og hafði aldrei unnist tími til að blessa kaupskap og iðnað jafn lofsamlega og kónga og kirkju.

Svo gerðist náttúrlega það sem allir vita. Þriðja stéttin fékk almúgann í lið með sér og gerði frönsku byltinguna. Fallöxin var fundin upp (reyndar ásamt metrakerfinu) og hausarnir fuku. Kóngi, drottningu og aðalsmönnum var þannig deilt í tvo parta – en að vísu misstóra. Út af fyrir sig mikil sorgarsaga. Við tók svo 19. öldin með sívaxandi völdum þriðju stéttar, sem sagt kaupmanna og iðnmeistara, sem smám saman áunnu sér nýja titla á borð við viðskiptajöfra, athafnamenn, kaupsýslumenn og á 20. öld jafnvel athafnaskáld. Í upphafi 21. aldar kom svo séríslenska nýyrðið útrásarvíkingar.

En stjórnmálaflokkar bera enn nöfn frá tímum frönsku byltingarinnar. Fjölmargir evrópskir stjórmálaflokkar kalla sig enn frjálslynda – í þeirri merkingu sem orðið hafði þegar kaupsýslumenn og iðnmeistarar heimtuðu frelsi til að nota peningana sína. Íhaldsflokkunum, sem upphaflega voru stofnaðir um óbreytt ástand, sem sé guðleg réttindi, hefur hins vegar farið mjög fækkandi. Nú eru flestir slíkir flokkar í Evrópu orðnir „frjálslyndir“.

En í lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar reis fjórða stéttin upp – sá fjórðungur eplisins sem franski kóngurinn gleymdi alveg þegar hann boðaði til stéttaþingsins – almúginn. Og almúginn gerði aðallega tvenns konar tilraunir til að endurskipuleggja samfélagið. Tilraunin sem gerð var í Rússlandi fór dálítið út um þúfur – held ég að óhætt sé að fullyrða. En sú tilraun sem gerð var í Svíþjóð, Danmörku og Noregi heppnaðist furðu vel og smitaði út frá sér um alla Vestur-Evrópu.

En á þessum 230 árum sem liðin eru frá frönsku byltingunni er þó einn hópur fólks sem ekkert hefur lært. Þriðja stéttin, sem 1789 gat kallað sig almenna „borgara“ og gat líka með fullum rétti kallað sig frjálslynda – og sat víst vinstra megin í salnum – kallar sig enn frjálslynda þótt það sem hún barðist fyrir sé fyrir löngu orðið gamalgróið og gamla frjálslyndið þar með orðið íhaldssamt. Og afkomendur og arftakar þessara frelsisbaráttuhetja kenna sig enn við vinstri vegginn í franska þingsalnum.

Upprisa fjórðu stéttarinnar framlengdi hægri-vinstri-ásinn í pólitík svo mikið að frjálslyndir (líberal) flokkar teljast nú hægra megin við miðju. Til dæmis heitir stærsti hægriflokkurinn í Danmörku því merkilega nafni „Venstre“.

Sem er nokkurn veginn það sem ég vildi sagt hafa.

Flokkun : Efst á baugi
1,442