Heimsóknir fortíðarinnar
Stundum koma draugarnir
á glugga minn
þeir fletja út nefið
á rúðunni
og vilja komast inn.
Ég passa mig
að opna ekki gluggann
því draugarnir
hreyfa sig hratt
og smjúga í gegnum
minnstu rifu.
Stundum rífst ég
við draugana
í gegnum glerið
þá hlæja óþokkarnir
því þeim hefur tekist
að ná til mín
og sama hvað
ég reyni ákaft
að koma í veg fyrir
þessar heimsóknir fortíðarinnar
þá tekst mér ekki
að halda draugunum
frá heimili mínu.
En góðu heilli
þá eru draugar
lífs míns
ástæðan fyrir því
að ég forðast
að bæta við
syndir mínar
og stundum þegar
ég iðrast
gufar draugur
upp í nóttinni
af þeirri einföldu ástæðu
að ég fyrirgaf
sjálfum mér
tilvist hans.
Sveinn Snorri Sveinsson, Götusláttur regndropanna (2016)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021