Hamskiptin
Karl Th. Birgisson skrifar
Fýlukast Steingríms Joð á alþingi í morgun ætti ekki að koma neinum á óvart. Ekki heldur viðbrögð annarra þingmanna við því.
Þingmannsstarfið hefur nefnilega skringileg áhrif á ágætasta fólk. Ekki allt, en óþægilega margt.
Ég nenni nú varla að rekja efnisatriðin, en Steingrímur setti umdeilt mál á dagskrá, sem varð trúlega til þess að of margir þingmenn voru skyndilega komnir í þingsalinn.
Hvers vegna gerði þingforsetinn þetta? Ég veit það ekki, en mjög ósennilega til að geta slitið þingfundi strax og losað ráðherra þannig undan „óþægilegum spurningum,“ eins og einhverjir þingmenn hafa ýjað að. Það er bara aðeins of fráleit skýring.
Við þessar aðstæður á öðrum vinnustöðum – mannfjöldi orðinn meiri en æskilegt er – hefðu starfsmenn líklega hnippt í verkstjórann, bent á þessa staðreynd og lagt til að kippt yrði í liðinn.
En ekki á alþingi. Þar kom Jón Þór Ólafsson í pontu og hóf að telja hausa, sem hann hefði vel getað gert úr sæti sínu, og nánast gargaði á Steingrím: Hvern andskotann á þetta að þýða?
Restin var fyrirsjáanleg eftir efninu. Fréttatímar og facebook fylltust af útskýringum, gagnkvæmum ásökunum og „ólíkum upplifunum“ af frekar einfaldri atburðarás, og alþingi varð óstarfhæft. Vel gert.
–– –– –– ––
Nú hef ég unnið anzi víða, bæði á fjölmiðlum og í frystihúsum, og leyfi mér að fullyrða viðlíka vinnustaðakúltúr finnst hvergi. Ekki einu sinni í leikhúsum, þar sem viðkvæmar prímadonnur eru hlutfallslega fleiri en allajafna.
Kannske gerist þetta vegna þess að þingmenn eru „í kastljósinu“ í hvert sinn sem þeir tjá sig. Kannske af því að þeir eru ósammála og þeim þykir nauðsynlegt að sýna fram á það. Kannske af einhverjum ómerkilegri hvötum.
En búhú, veslings fólkið. Það ræður því þrátt fyrir allt sjálft hvenær það tjáir sig, um hvað og hvernig. Uppákoman í morgun var nefnilega hvorki slys né undantekning.
Eitthvað af ofangreindu veldur því að ólíklegasta fólk umbreytist þegar það tekur sæti á þingi. Það horfir á heiminn af allt öðrum sjónarhóli en áður – eða einmitt úr allt öðru sæti en áður. Og sjálfhverfan verður satt að segja átakanleg.
Við þekkjum þetta úr reglubundnum fréttum af samningum um þinglok fyrir jól og að vori, stundum oftar. Þá þurfum við að hlusta á alþingismenn lýsa því hver sagði hvað á hvaða fundi, og hvernig það hafi verið allt öðruvísi en einhver annar sagði á fundi vikuna áður.
Það gangi náttúrlega ekki og sé eiginlega alveg ótækt.
Þau geta rifizt um þetta dag eftir dag í ræðustól alþingis, alveg blá í framan af bræði stundum.
Eflaust þykir þeim þessi innanhússpissukeppni ákaflega mikilvæg, en mjög sennilega er langflestum öðrum í samfélaginu talsvert slétt sama. Jafnvel andskotans sama.
Þarna eru alþingismenn að moka upp úr prívatpokum innan eigin veggja, sem koma lífinu í landinu samt nákvæmlega ekkert við. Af mikilli innlifun og upphafinni réttlætiskennd, að eigin mati. En yfirleitt algerlega merkingarsnauðri.
Og við sem héldum í einfeldni okkar að þau ættu einmitt að vera að fást við það sem snertir lífið í landinu.
En auðvitað vel gert samt. Enn og aftur.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021