Gróa á Leiti ber hönd fyrir höfuð sér: Þagað get eg yfir því, sem mér er trúað fyrir, þó eg sé kjöftug
Hvar kemur maður á annað eins sæmdarheimili og að Hrafnabjörgum?
Svo er spurt í bréfi sem Herðubreið barst í morgun. Bréfritari kveðst heita Gróa og vera húsfreyja í kotinu Leiti. Hún virðist vilja bera hönd fyrir höfuð sér eftir að eiginkona forsætisráðherra bað hana hvergi þrífast í nýlegri yfirlýsingu.
Gróa virðist þó hvorki sár né reið:
„Hún má reiða sig upp á mig, frúin góða, því þó aldrei hafi hún hlynnt neinu góðu að mér, þá á hann, sem nú er bóndi að Skrúðási, það að mér, að eg reyndist henni ekki verr en aðrir í því litla, sem eg megna.“
Með bóndanum að Skrúðási mun vera átt við forsætisráðherra. Bóndi Gróu heitir hins vegar Hallur og er að sögn ekki metinn til margra fiska.
Herðubreið hvetur lesendur þó til þess að taka bréfi Gróu með fyrirvara enda virðist það vera nánast orðrétt upp úr skáldsögunni Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen. Óvarlegt er því að fullyrða um hver höfundurinn er.