Gríðarleg sparnaðarfæri í ræstingum
Nú hefur 17 ræstingakonum verið sagt upp í stjórnarráðinu. Þar af eru aðeins 4 innan við fimmtugt, 7 á aldrinum 50-60 ára og 6 komnar yfir sextugt. Ræstingarnar verða boðnar út og þannig á að spara ríkinu peninga. Einkafyrirtækin geta jú gert allt bæði ódýrar og betur, eða hvað?
Kannski við lítum aðeins nánar á þennan sparnað. Fyrst ber að nefna að tölurnar byggjast á frétt RÚV og launatöxtum Eflingar.
Nálægt 53 milljónum á ári
Þessar konur eru flestar í 60-70% starfi og laun þeirra eru um 260 þúsund á mánuði. Við lauslega skoðun á launatöxtum virðist þetta þýða, að konurnar hafi flestar starfað hjá ríkinu í 7 ár eða meira og grunnlaunin séu þess vegna um 222 þúsund miðað við fullt starf.
Í 70% starfi eru grunnlaunin þá 155.600,-, vaktaálag alls 58.700,-, Álag vegna ákvæðisvinnu 31.100, og loks orlof 15.800,-. Samtals rúmlega 261.000,- krónur á mánuði og heildarkostnaður ríkisins vegna þessara 17 kvenna 53 milljónir á ári. Við lítum fram hjá launatengdum gjöldum o.fl. til að flækja málið ekki að óþörfu.
Nú kemur sem sagt útboð, einkafyrirtæki fer að selja ríkinu þessa þjónustu og einkafyrirtæki getur vissulega sparað talsvert.
Hvernig sparar einkafyrirtækið?
Hér skiptir miklu máli að einkafyrirtækið á að fá að láta starfsfólk sitt ræsta á daginn, en ekki á kvöldin eins og verið hefur. Þetta er langstærsti einstaki sparnaðarliðurinn. Vaktaálagið fellur niður og launin fara þar með niður í 202.500,-. Þessum sparnaði gæti ríkið auðvitað náð sjálft án einkavæðingar, en látum það liggja milli hluta.
Einkafyrirtækið, sem ræður sömu konurnar upp á nýtt, þarf ekki að greiða álag vegna starfsaldurs. Þar sparast 5.600,- og launin komin niður í 196.900,-.
Mögulega getur einkafyrirtækið líka sparað ákvæðisvinnuálagið. Þar með er reyndar stigið út fyrir lagarammann, eða allavega komið út á mjög dökkgrátt svæði. En við skulum samt gera ráð fyrir því, enda erum við að reikna út allra mesta mögulega sparnað. Þannig myndu sparast 30.000,- og launin nú komin alla leið niður 167.000,- krónur á mánuði. Sparnaðurinn 94.000,- á mánuði og það er auðvitað mikið.
Einkafyrirtæki gerir tilboð
Launakostnaður einkafyrirtækisins yrði 34 milljónir á ári, eða 19 milljónum minna en ríkið borgar nú. En það er reyndar aðeins fleira sem þarf að reikna.
Einkafyrirtækið getur auðvitað ekki gert svona lágt tilboð. Launatengdu gjöldin eru flest þau sömu í báðum tilvikum og við skulum sleppa þeim. En tryggingagjaldinu getum við ekki sleppt. Það er 7,59% eða 2,6 milljónir. Til að gæta fyllstu sanngirni, skulum við hér líka taka tillits til þess að mótframlag ríkisins í lífeyrissjóð er 3,5% hærra en einkafyrirtækis. Þetta munar 1,2 milljónum og við hækkum því aðeins um 1,4 milljónir.
Launakostnaðurinn verður sem sagt 35,1 milljón og það er sú tala myndar grundvöll tilboðs.
Það kostar dálítið að reka fyrirtæki og svo tíðkast líka að greiða arð. Eigum við að gera ráð fyrir eigendur einkafyrirtækisins geri ráð fyrir tæplega 10% umsýslukostnaði, 3,5 milljónum á ári eða innan við 300 þúsundum á mánuði. Það er ekkert óraunhæft. Dugar kannski fyrir hálfum starfsmanni á skrifstofu auk lítils háttar húsnæðiskostnaðar. Hér erum við komin í 38,6 milljónir.
Og svo viljum við geta greitt okkur svo sem 10% árlegan arð, sem sagt tæpar 4 milljónir. Ef við þrengjum örlítið að okkur getum við skilað inn tilboði upp á 43 milljónir. Það er heilum 10 milljónum lægra en ríkið greiðir nú og sem sagt talsverður sparnaður fyrir ríkið.
Dæmið er ekki fullreiknað hér
Mikið væri nú gaman að geta látið hér staðar numið. En við eigum því miður eftir einn mikilvægan lið. Það er tekjuskatturinn sem ríkið innheimtir af launum ræstingakvennanna.
Við erum búin að lækka laun þeirra um 94.000 á mánuði eða samtals 19,2 milljónir á ári, en launin eru þó enn yfir skattleysismörkum. Tapaðir staðgreiðsluskattar af þessari upphæð eru 37,3% eða því sem næst 7,2 milljónir.
Þar með hrekkur sparnaður hins opinbera úr 10 milljónum niður í 2,8.
Hér hefur það reyndar gerst að sveitarfélögin hafa orðið fyrir tekjutapi. Af þessum tapaða tekjuskatti er tapað útsvar nefnilega tæplega 2,8 milljónir, en ríkið sleppur með tæpar 4,4, milljónir. Það breytir þó ekki því, að sparnaður hins opinbera er kominn niður í 2,8 millur eða þar um bil.
Samt er útreikningunum ekki alveg lokið. Við eigum enn eftir að slá nokkra varnagla.
Atvinnuleysið kostar
Af þessum 17 konum eru 6 komnar yfir sextugt. Eigum við að gera ráð fyrir að þrjár þeirra sjái fram á að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þangað til þær verða 67 ára og komast á ellilífeyri. Það er ekki sjálfgefið að fólk sætti sig við 94.000 króna launalækkun á mánuði.
Af tölum á heimasíðu Vinnumálastofnunar er að skilja að þessar konur eigi rétt á kringum 180.000,- krónum á mánuði og fengju þá rúmar 163.000,- krónur útborgaðar eftir skatt. Bara þessar 3 atvinnulausu ræstingakonur myndu þannig kosta ríkissjóð 5,9 milljónir á ári gegnum atvinnuleysistryggingasjóð.
Neikvæður sparnaður
Þar með er sparnaður hins opinbera orðinn neikvæður um 3,1 milljón króna. Og það er örlitlu meira en tókst að velta yfir á sveitarfélögin.
Og þá höfum við vel að merkja aðeins gert ráð fyrir að 3 af þessum 17 konum neiti að sætta sig við launalækkunina. Þær gætu orðið mun fleiri. Ofan á allt annað höfum við meira að segja gert ráð fyrir að einkafyrirtækið nái að spara rúmar 6 milljónir með því að sniðganga lög. Bara sú tala er hærri en arðsemin, sem við reiknuðum með.
Satt að segja má allt eins búast við að flestar eða allar ræstingakonurnar afþakki gott boð og þá kosta þessar „sparnaðaraðgerðir“ ríkið yfir 30 milljónir á ári til að byrja með. Miðað við uppgefinn aldur má telja ólíklegt að konurnar komist allar aftur í vinnu. Sumar kynnu á endanum að lenda á örörkubótum eða framfæri sveitarfélaga – með tilheyrandi kostnaði, sem enn er unnt að komast hjá með því að hætta við allt saman.
Ég sé satt að ekki nein gríðarleg sparnaðarfæri felast í því að reka ræstingakonur.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019