Góðu gæjarnir
Lexía: Jes 5.1-7
Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið, gróðursetti gæðavínvið. Hann reisti turn í honum miðjum og hjó þar þró til víngerðar. Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga. Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns. Hvað varð meira að gert við víngarð minn en ég hafði gert við hann? Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber? En nú vil ég kunngjöra yður hvað ég ætla að gera við víngarð minn: Ég ríf niður limgerðið svo að hann verði nagaður í rót, brýt niður múrvegginn svo að hann verði troðinn niður. Ég vil gera hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þistlar og þyrnar og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni. Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.
Guðspjall: Matt 11.16-24
Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“ Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Einn skemmtilegasti gamanleikþáttur sem ég hef séð er með bresku grínistunum David Mitchell og Robert Webb. Þar leika þeir tvo þýska hermenn á austurvígstöðvunum undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Nánar tiltekið þá eru þeir SS-menn, svartklæddir og með einkennismerki SS-sveitanna, hauskúpu, á kaskeitunum sínum og í boðungunum á frökkunum.
Annar þeirra spyr hinn: „Heyrðu, Hans? Heldurðu að það gæti verið að við séum vondu gæjarnir?“
Hans tekur dræmt í það. „Hvernig dettur þér svoleiðis vitleysa í hug?“ spyr hann. „Hefurðu verið að hlusta á áróður bandamanna? Auðvitað segja þeir að við séum vondu gæjarnir.“
Hinn svarar: „Bandamenn hönnuðu ekki búningana okkar. Hauskúpur? Af hverju erum við með hauskúpur sem merkið okkar? Hvað tengir maður við hauskúpur? Hvenær hafa góðu gæjarnir skreytt sig með hauskúpum?“
Þetta ræða þeir fram og til baka uns hinn hræðilegi sannleikur rennur upp fyrir þeim: Þeir eru ekki góðu gæjarnir, þeir eru vondu karlarnir.
Fyrir utan hvað þetta er langsótt og absúrd – að þessir menn eigi þetta samtal undir þessum kringumstæðum – þá er þetta fyndið vegna þess að það er satt. Allir halda að þeir séu góðu gæjarnir.
Æðri tilgangur illskunnar
Mjög fáir fylkja liði á bak við málstað sem þeir eru sannfærðir um að sé rangur og vondur. Öll mestu illmenni sögunnar hafa verið sannfærð um að þau væru að gera rétt, að vinna landi sínu og þjóð gagn. Að þjóðernishreinsanirnar, fjöldamorðin, aftökurnar og ofsóknirnar væru ill nauðsyn til að hin stórkostlega draumsýn þeirra gæti orðið raunveruleg. Að þegar upp væri staðið yrði það sem ynnist meira virði en það sem fórnað var til að öðlast það. Að þeirra yrði minnst fyrir hinn stórkostlega árangur, ekki viðbjóðinn sem þurfti að framkvæma til að ná honum.
Hitler, Stalín, Maó, Pol Pot – listinn er langt í frá tæmandi, þetta voru bara fyrstu nöfnin sem komu upp í hugann … enginn þessara manna tók þá ákvörðun að koma þjóð sinni á vonarvöl en allir fóru þeir þó langt með það, sumir lengra en aðrir. Það ætlar enginn að vera vondur.
Einu sinni var ég í útvarpsviðtali þar sem ég kallaði núverandi forseta Bandaríkjanna fasista. Ég var spurður hvernig ég gæti kallað hann fasista, hvort hann vildi ekki bara þjóð sinni vel … eins og það sé eitthvað einkenni á fastistum að vilja þjóð sinni illt eitt. Það sem gerir einhvern að fasista er ekki hvort hann skilgreini sig sjálfur sem góðan gæja eða vondan heldur aðferðirnar sem hann vill beita til að reynast þjóð sinni vel samkvæmt sinni eigin skilgreiningu á því hvað í því felst. Málið er að það hefur aldrei tekist. Allar tilraunir til að koma á fót dýrðarríki fasisma hafa aðeins skapað helvíti á jörð. Tilgangurinn helgar nefnilega aldrei meðalið. Niðurstaðan er alltaf skilgetið afkvæmi aðferðanna sem beitt var til að fá hana.
Það er kannski þess vegna sem Láki jarðálfur er að mínu mati eitt svakalegasta illmenni bókmenntasögunnar. Einmitt vegna þess að fyrir honum vakir ekkert æðra markmið, illska hans hefur engan tilgang annan en að skemmta honum sjálfum. „Það er gaman að vera vondur!“ er slagorð hans. Jafnvel Hitler og Stalín frömdu ekki voðaverk sín af því að þeim fannst gaman að vera vondir.
Þeir héldu að þeir væru góðu gæjarnir.
En þeir höfðu rangt fyrir sér.
Sannfæring um eigið réttlæti
Ritningartextar dagsins eru ekki fallegir. Þeir eru fordæming á þeim héldu að þeir væru góðu gæjarnir en höfðu rangt fyrir sér. Jesaja mælir fyrir munn Guðs sem ætlar að rífa niður víngarðinn sem hann ann, sem er lýðurinn sem í orði kveðnu segist trúa á hann og er eflaust sjálfur sannfærður um að hann fylgi vilja Guðs í einu og öllu. En Guð ætlar að gera þennan víngarð að auðn vegna þess að „hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.“
Og Jesús boðar borgarbúum í Kapernaúm að þeim verði beinlínis steypt til heljar, að bærilegra hafi verið í Sódómu á dómsdegi en verði í Kapernaúm. Þetta eru ekki notaleg skilaboð.
Jesús hafði starfað í Kapernaúm, haft þar bækistöð og læknað sjúka. (Matt 4.12; Mark 2.1; Lúk 4.23; 4.31-44; 7.1-10) Formælingin er yfirleitt ekki rakin til þess að borgarbúar hafi verið tregir til að taka trú, heldur til hroka borgarbúa. Ástæða þess að Jesús tekur fram að borgin verði ekki hafin til himins er talin hafa verið sú að borgarbúar hafi gert sér það í hugarlund. Ástæðulaust væri að hafa orð á því nema einhver hefði haldið því fram. Jesús sér enga ástæðu til að minnast sérstaklega á það að aðrar borgir verði ekki heldur hafnar til himins. Sennilega var enginn misskilningur í þá átt á ferðinni sem þurfti að leiðrétta.
Myndmálið hér byggir á Spádómsbók Jesaja (14.13-15). Örlögin, sem bíða Kapernaúm, verða þau sömu og Babýlóníukeisara. En í fjórtánda kafla Spádómsbókar Jesaja segir keisarinn við sjálfan sig: „Ég skal stíga upp til himins.“ (14.13) En hvað gerist? Tveimur versum seinna er honum varpað niður til heljar. (14.15) Texti guðspjallsins er mjög dæmigerð formæling í spámannlegum gamlatestamentisanda. Boðskapurinn er að hroki sé falli næst.
Þess má í framhjáhlaupi geta að Kapernaúm var hafnarborg við norðurbakka Genesaretvatns sem fór í eyði á 11. öld. Ef skilja á formælingu Jesú sem spádóm var því þúsund ára bið á að hann rættist.
Aðvörunarmerkin
En nú er úr vöndu að ráða. Við sem viljum vera góðu gæjarnir, hvernig getum við verið viss um að við séum það í raun og veru, fyrst við myndum halda það jafnvel þótt við værum í raun vondu kallarnir? Eru ekki einhver aðvörunarljós sem við getum haft augun opin fyrir, einhverjar viðvörunarbjöllur sem hringja?
Jú, auðvitað. Og það er mjög mikilvægt að hafa augun og eyrun opin fyrir þeim. Hér er til dæmis eitt aðvörunarljós sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir:
Ef þú ert staddur einhvers staðar meðal skoðanasystkina þinna og þau byrja að veifa fánum sem aðeins tengjast fjöldamorðum, þjóðernishreinsunum, misþyrmingum og afmennskun heilu kynþáttanna í hagnaðarskyni fyrir ríka, hvíta karla – hakakross- og suðurríkjafánum – og hrópa slagorð um yfirburði hvíta kynstofnsins og gegn gyðingum og múslimum … og þú yfirgefur ekki samkvæmið heldur finnst þú enn vera í hópi skoðanasystkina þinna og tekur þátt í þessu með þeim … þá ertu ekki góði gæinn – sama hve sannfærður þú ert um að svo sé.
Þetta er náttúrulega svo augljóst að þetta vefst ekki fyrir neinum nema forseta Bandaríkjanna. En einmitt vegna þess að valdamesti maður heims virðist vera skyni skroppnari en grínfígúrur í súrrealískum gamanleikþætti um nasista, er svo mikilvægt að við hin séum það ekki. Að við séum með hausinn í lagi. Að við viðurkennum staðreyndir og búum ekki til þær sem henta okkur.
Einfaldur sannleikur
Bólusetningar bjarga mannslífum. Tungllendingin var ekki lygi. Helförin átti sér stað. Jörðin er ekki flöt. Nasistar eru ekki góðu gæjarnir.
Í sjálfu sér er hryllilegt að árið 2017 skuli vera ástæða til að hamra á augljósum sannindum eins og þessum. En einmitt vegna þess að ástæða er til þess er nauðsynlegt að það sé gert.
Enn í dag spyr Guð okkur nefnilega sömu spurninga og Júdamenn á dögum Jesaja spámanns: „Sé ég réttlæti eða sé ég blóði úthellt? Heyri ég réttvísi eða heyri ég neyðaróp?“ Svarið við þessum spurningum ræður úrslitum um það hvort við verðum í himnaríki eða helvíti.
Eða öllu heldur: Svarið við þeirri spurningu skilgreinir það hvort við erum í himnaríki eða helvíti.
Það er nefnilega á okkar valdi hvort við lifum í himnaríki á jörð eða hvort við gerum jörðina að helvíti.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. ágúst 2017
- Jesús kallar konu tík - 09/03/2020
- Lögfest orðagjálfur - 28/02/2020
- Sannleikurinn er sæskjaldbaka - 26/02/2020