trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 07/07/2016

Gengið í þjóðkirkjuna

Fyrir langalöngu sagði ég mig úr þjóðkirkjunni. Ástæðan var afstaða hennar og helstu talsmanna hennar til hjónabanda samkynhneigðra. Einn söfnuður tók vel á móti öllum og gaf saman ástfangið fólk, óháð kyni. Það fannst mér frábært og því ákvað ég, þrátt fyrir trúleysið, að sóknargjöldunum væri best varið þar. Síðustu ár hef ég því verið í Fríkirkjunni í Reykjavík og verið afar sátt við það starf sem þar fer fram (en þó að mestu framhjá mér).

Ég yfirgaf sem sagt þjóðkirkjuna til að mótmæla þeirri stefnu sem hún framfylgdi og því sem mér finnast vera brot kirkjunnar á mannréttindum. Þótt ég trúi ekki á æðri máttarvöld þá veit ég að ýmislegt gott er í flestum trúarbrögðum en þegar trúfélög mismuna fólki er rétt að skella á eftir sér, sérstaklega þegar maður trúir ekki einu sinni á neitt nema hugsanlega jökulinn sem ávalt stendur opinn.

13582095_10153924903982762_1274407041881277455_o

Árin á eftir gekk ýmislegt á hjá kirkjunni sem gekk svo fram af mér að ég óskaði þess helst að ég gæti gengið úr henni aftur en það er önnur saga.

Síðustu daga hefur þjóðkirkjan hins vegar tekið virka afstöðu sem skiptir máli og í leiðinni sýnt að hún getur sannarlega verið afl til góðs og skipt sköpum í baráttu fyrir mannréttindum þeirra sem minnst mega sín. Þegar prestar Laugarneskirkju ákváðu að láta reyna á kirkjugrið fannst mér það bæði ákaflega sterk og falleg aðgerð og ja … einmitt það sem kirkja ætti að gera. Standa með fólki, óháð stöðu og uppruna. Standa með mennskunni, ekki síst á erfiðustu stundum fólks. Standa með mannkyninu og gegn stofnunum valdsins. Ég veit líka að fyrst þjóðkirkjan, sem meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 vildi að nyti sérstakrar stöðu í stjórnarskrá, tekur afstöðu í þessu stóra og vandasama máli, afstöðu með flóttamönnum en ekki útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu (sem hún þó heyrir undir) eða lögreglunni, þá styttist mjög í mannúðina.

Í kjölfarið hafa nokkrir fúlir karlar ýmist sagt sig úr þjóðkirkjunni eða hótað að gera það. Til mótvægis ákvað ég því að ganga í þjóðkirkjuna og það gerði ég nú í kvöld.

Þegar okkur mislíkar eitthvað eða ofbýður eigum við að sjálfsögðu að sýna það í verki. Það er ansi mikil meðvirkni að láta allt yfir sig ganga. En við ættum auðvitað líka að þakka fyrir það sem vel er gert.

Það verður svo bara að koma í ljós hve lengi ég verð í þjóðkirkjunni. Ef mér mislíkar aftur get ég alltaf skellt á eftir mér.

 

kirkjugrid

 

Myndir birtar með leyfi Hugleiks Dagssonar og Baldvins Björgvinssonar. 

 

Flokkun : Efst á baugi
1,455