trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 15/10/2018

Frelsið, maður!

Það er erfitt að fást við frelsið. Það leitar um allt. Því það eru margir sem flíka því. Búa til slagorð um það og bjóða sig fram til þess að berjast fyrir því. Tala um frelsishugsjón, hafa hátt og fara mikinn.

Og stundum fæst fram brot af því, frelsinu. Næstum því. Það má segja nást hvað sem er um hvað og hvern sem er. Frjáls orð og frjálsar gerðir geta glatt, móðgað, sært og valdið tjóni. Sá sem framkvæmir og talar þarf að taka því, að þeir sem fyrir orðum og gjörðum hans verða, hafa frelsi til þess að sækja hann til saka fyrir það sem sagt var eða gert.

Um frelsið eru því eilíf átök. Og oft kyndug málaferli.

Fyrir fáum dögum settu nokkrir menn (og konur?) á flot netmiðil, tekjur.is. Þar er hægt að sjá tekjur og skatta okkar allra, Íslendinga, 18 ára og eldri. Þeir líta svo á að þeir hafi frelsi til þessa. Mörgum finnst þetta prýðilegt framtak. Í nafni frelsisins.

En ekki öllum.

Ekki þeim baráttumönnum sem bjóða sig fram til trúnaðarstafa í nafni frelsisins og eru í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS). Þeim finnst að það eigi að pukrast með hvað menn borga í skatta. Þess vegna eigi tekjur.is ekki að hafa frelsi til þess að birta upplýsingar um það. Og enginn reyndar. Þeim finnst að þeir sjálfir, SUS, hafi frelsi til þess að hefta frelsi annarra, og hafa lagt fram kröfu um lögbann á vefinn tekjur.is. Í nafni frelsisins.

Og nú situr sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu með frelsið í lúkunum. Hann er vanur maður. Hefur áður fjallað um frelsið. Og afnumið það. En það kom aftur, því það kemur alltaf aftur fram, frelsið. Það er engin friður fyrir því.

 

P.s.

Nú, síðdegis þann 17.10.´18, hefur sýslumaður fellt dóm yfir frelsinu vegna lögbannskröfunnar. Vísir.is segir svo frá:

„Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði í dag kröfu Ingvars Smára Birgissonar um lögbann á vefinn Tekjur.is. Þetta staðfestir Ingvar Smári í samtali við Vísi. Hann segir að í úrskurði sýslumanns komi fram að talið sé verið sé að brjóta á rétti allra Íslendinga en að tjónið sé ekki nægjanlega mikið til að réttlæta lögbann.“

Skáletrið er gert af pistlahöfundi.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,327