Forsetaframbjóðandi kemur til leiks: Að hleypa af öllum byssunum í einu
Málflutningur Davíðs Oddssonar í forsetakjöri núna minnir óneitanlega á framgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjörinu 2012.
Þá hóf Ólafur kosningabaráttu sína með hörðum og linnulausum árásum á Þóru Arnórsdóttur, sem gerbreyttu stöðunni í kosningunum upp frá því.
Þessu og ótalmörgu fleiru er lýst í væntanlegri bók Karls Th. Birgissonar, sem gefin er út í samvinnu við Karolina Fund.
Herðubreið birtir hér stutt kaflabrot úr bókinni með leyfi útgefanda:
——-
Ólafur Ragnar hafði lýst því yfir, að hann hygðist ekki blanda sér í kosningabaráttuna fyrr en framboðsfrestur væri liðinn þann 25. maí. Þetta breyttist fyrirvaralaust og hann kom inn í kosningabaráttuna með meiri látum og stóryrtari yfirlýsingum en nokkur hafði átt von á.
Síðar var tímasetningin gagnrýnd í því ljósi, að Þóra Arnórsdóttir hafði þá dregið sig í hlé frá kosningabaráttunni enda var fæðingar von innan skamms. Af þessu vissi forsetinn vitaskuld, en vandasamt er að meta hvort það hafði áhrif á ákvörðun hans um útrás á þessum tímapunkti. Sjálfur neitar hann því harðlega.
Hvað um það – þegar forseti Íslands hafði setið part úr morgunstund með Sigurjóni Magnúsi Egilssyni í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 13. maí, varð einum fyrrverandi samþingmanna Ólafs Ragnars að orði við bókarhöfund:
„Jæja. Þá vitum við það. Hann er kominn aftur.“
Það var ekki ofmælt. Í þessu viðtali runnu upp úr forsetanum slíkar yfirlýsingar að fordæmalausar eru og nauðsynlegt er að fara nokkuð yfir þær.
Framganga forsetans í þessum útvarpsþætti markaði enda kosningabaráttuna alla það sem eftir lifði, umræðuefnin, sókn og vörn. Í þessu viðtali haslaði Ólafur Ragnar völlinn og enginn frambjóðandi komst út fyrir þau landamæri, hversu hraustlega sem reynt var.
Fyrst þó þetta á persónulegum nótum:
Ýmsir tónar sem Ólafur Ragnar sló í upphafi viðtalsins hljómuðu bæði kunnuglega og óvænt í eyrum þeirra sem hafa fylgzt með honum áður í forsetakosningum. Hann sagði til dæmis: „Já, ég er að byrja kosningabaráttuna.“
Árið 1996 var orðið kosningabarátta aldrei notað í ræðu eða riti í herbúðum Ólafs Ragnars. Þar var alltaf talað um „aðdraganda forsetakjörs“ eða „aðdraganda þessara kosninga“ og alltaf um „meðframbjóðendur.“
Orð eins og kosningabarátta og mótframbjóðendur – hvað þá heldur „andstæðingar“ – fólu í sér of mikil átök. Nú voru greinilega breyttir tímar.
Hitt var ekki óvænt. Forsetinn tilkynnti að síðar þennan dag færi í loftið vefsíða framboðsins. Hvert skyldi lénið nú vera? olafurragnar.is? olafurragnargrimsson.is?
Nei – olafurogdorrit.is.
Atarna voru kunnuglegir taktar þeim sem vissu hversu afgerandi þátt þáverandi eiginkona Ólafs Ragnars, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, átti í því að hann náði kjöri árið 1996, sá umdeildi stjórnmálamaður sem hann var. Hann fékk rúmlega 40% atkvæða í þeim kosningum.
Nú skyldi Dorrit gegna sama hlutverki: „Og svo verður Dorrit með sína eigin fésbók.“ „Við Dorrit erum að fara hér um landið undir heitinu „Samræða um allt land“.“
Vel gert. Gott start hjá þér, hugsaði gamall samstarfsmaður.
Og ekki versnaði það, því að forsetinn tilkynnti að þau hjónin ætluðu að byrja ferð sína um landið í Grindavík, því að það vildi svo skemmtilega til að það var einmitt fyrsta plássið sem Dorrit heimsótti þegar hún kom til Íslands. „Þá þekkti hana enginn og vissi enginn hver hún var.“
„Og það fyndna var, að ljósmyndari Víkurfrétta, sem var við opnun Bláa lónsins, hann klippti alltaf út úr myndunum þessa ókunnu konu, sem var alltaf að sniglast þarna í kringum forsetann [hlátur] og misstu þess vegna af því að vera fyrsta blaðið á Íslandi – héldu að þetta væri einhver vinkona Tinnu [meiri hlátur] og svo framvegis.“
Jamm. Þetta slapp kannske, en hér kom svo alvörufeik:
„Þegar þeir fréttu af því og áttuðu sig á því, að á morgun er afmælisdagur minn og brúðkaupsdagur okkar Dorritar, þá ákváðu stuðningsfólk okkar [svo] í Grindavík að bjóða í afmæliskaffi og brúðkaupskaffi í Grindavík, svona upp úr fimm á morgun í Saltfisksetrinu.“
Nei – það var ekkert þannig, að „þau fréttu af því“ eða „áttuðu sig á því“ að forsetinn átti afmæli eða brúðkaupsdag og þess vegna byrjaði kosningabaráttan bara fyrir tilviljun þarna.
Þetta var þaulskipulagt, en svoddan ónávæmni var svosem saklaus í samanburði við það sem á eftir fylgdi.
Að slepptum þessum inngangi hóf forsetinn svo mál sitt fyrir alvöru. Kjarni þess var þríþættur: Að forsetinn hefði gríðarlega mikil völd, eins og sýndi sig til dæmis í Icesave-málinu. Að Þóra væri skrautfígúra og yrði auðsveipur þjónn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Að fjölmiðlarnir væru ómögulegir, einkum Ríkisútvarpið.
Innan um voru svo krúsidúllur sem sýndu að Ólafur Ragnar ætlaði sannarlega að hleypa af öllum byssunum í einu.
——-
(Úr 15. kafla, Stóra bomban)
Fjármögnun bókarinnar á Karolina Fund lýkur innan fárra daga. Hægt er skoða hana betur og tryggja sér jafnvel eintak á forsöluverði með því að smella hér.