trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 03/08/2018

Faglega fólkið í hreppsnefndinni

Karl Th. Birgisson skrifar

Umræðan um heimilislaust fólk á höfuðborgarsvæðinu fer eftir mjög fyrirsjáanlegum nótum. Og er engum til sóma.

Stefin eru nokkur.

Þegar minni hlutinn leggur til að lækkuð verði gjöld á húsbíla eða tjaldhýsi í Laugardal hoppar alls konar fólk til í hneykslun.

Í alvörunni? spyrja þau. Hverju á það að bjarga? Og viljum við húsbíla- og tjaldhýsakúltúr í Reykjavík í öllu okkar ríkidæmi?

Svarið er líklega nei, en staðan er samt þannig að fráleitt er að loka augunum fyrir henni.

Það hefur ríkt neyðarástand á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár, og við erum sum að vakna loksins núna. Vinnandi fólk hefur þurft að búa í saggafullu iðnaðarhúsnæði og þaðanafverra, og gerir enn.

Húsbíll eða tjaldhýsi í Laugardal getur verið miklu betri kostur. Þar er þó hlýja og stundum jafnvel einhvers konar heimili. Sumir eiga heldur ekki annarra kosta völ.

En skyldu borgarfulltrúar hafa kynnt sér gjaldskrána þar?

Hún er svona.

Bara tjaldstæðið kostar 72 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling.

Rafmagn, aðgangur að þvottavél og þurrkara (sem gæti þó kallazt lúxus nema í vætutíð) er 75 þúsund.

Samtals eru þetta hátt í 150 þúsund krónur á mánuði, sem Reykjavíkurborg rukkar fyrir pláss og þjónustu á tjaldsvæði.

Hundraðogfimmtíuþúsundkall á mánuði? Í alvörunni?

Þeir, sem finnst lækkun á þessum gjöldum vera hjóm eða utan sanngjarnrar umræðu, mættu hafa í huga að margir öryrkjar hafa um 200 þúsund krónur í laun.

Og að fjölmargt fullfrískt fólk hefur rétt um 300 þúsund krónur til ráðstöfunar í hverjum mánuði.

Hinir sömu mættu setja þessar tölur í slíkt samhengi. Og jafnvel skoða verðlag á leigumarkaðnum til frekari viðmiðunar.

Annað stef er hlægilegt, Eyþór Arnalds og Sjálfstæðisflokkurinn. Hann sagðist fyrir kosningar vera á móti auknu félagslegu húsmæði á vegum borgarinnar, en kallar nú eftir slíkum lausnum og er því sakaður um hræsni.

Það er auðvitað alveg rétt, en er bæði algert aukaatriði og á ekki að koma á óvart. Eyþór hefur eflaust lært sitthvað af Davíð Oddssyni, sem tók í borgarstjórn afstöðu til mála alveg óháð því hvort þau voru góð eða slæm. Hann var bara alltaf á móti tillögum hinna, sama hvað honum fannst sjálfum rétt eða satt. Hann var eingöngu á vinsældaveiðum og hefur viðurkennt það sjálfur.

Viðfangsefnið í húsnæðismálum er hins vegar ekki Eyþór Arnalds, sem á hugsanlega fleiri fasteignir en hann kann að telja sjálfur, heldur fólkið sem á hvergi heima og getur hvergi átt heima að óbreyttu.

Viðfangsefnið er fólk í neyð. Og líka hinir, sem eru ekki beinlínis eða ennþá á götunni, en þarf líka að aðstoða. Þau eru svo miklu mikilvægari einstaklingar en Eyþór Arnalds.

Þriðja stefið spilar sig sjálft. Það er að Reykjavíkurborg fær í fangið vanda sem sveitarfélögin í grenndinni hafa ekki tekizt á við. Þar virðist nefnilega ekki vera neitt heimilislaust fólk. Það er allt í Reykjavík.

Hér er ekkert einfalt, og kannske er rétt að rifja upp mjög stytta sögu.

Kópavogur hefur líklega staðið sig bezt í félagslegri uppbyggingu allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar á eftir koma Hafnarfjörður og Reykjavík.

Kópavogur hefur hér sérstöðu, af því að hann byggðist að talsverðum hluta upp af fólki sem var beinlínis gert torvelt að flytja til Reykjavíkur, af því að það var fátækt. Af því er mörg saga.

Hafnarfjörður varð stór á sínum eigin og öðrum forsendum. Þar tókst jafnaðarmönnum mjög sæmilega til um uppbyggingu samfélags.

Í Reykjavík varð líka til velferðarkerfi og svokölluð félagsleg hugsun á áratugalöngum valdatíma Sjálfstæðisflokksins, en hún byggðist þó hryggilega of mikið á því hver kaus flokkinn og fékk því notið náðar borgaryfirvalda. Af því er líka skráð saga.

Hér er einfaldað og hraðskautað yfir miklu stærri mál, en líklega er gagnlegt að hugleiða hvers vegna engir heimilislausir eða yfirleitt fátt félagslegt húsnæði finnst á Seltjarnarnesi eða í Mosfellsbæ.

Ég fæ ekki af mér að nefna sjálfan Garðabæ.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna, og af hvaða hvötum.

Fjórða þemað sem ég sjálfur. Það er um borgarfulltrúa sem koma í viðtöl og segja „engin ný gögn benda til þess“ að neyð hinna húsnæðislausu sé verri núna en áður.

Hjálpi okkur.

Þetta eru verstu borgarfulltrúarnir.

Sem eru svo faglegir að þeir þurfa að horfa á gögn á pappír til að geta hugsað, en sjá ekki framan í fólk í neyð, sem er þó frammi á gangi hjá þeim.

Vandi hinna húsnæðislausu verður hvorki betri né verri af því að þeim fjölgar eða fækkar, eða hvað sem gögnin segja nú.

Neyð er neyð er neyð, og mjög raunveruleg. Og við henni þarf að bregðast. Gögnin og nefndirnar eru harla lítil fró þeim sem er svangur eða hefur ekki þak yfir höfuðið.

Sveitarstjórnarfólki okkar til skammar er vont að minna á, að forverar þeirra í hreppunum hér áður vissu þó hver vandinn var og fundu lausn fyrir hvern og einn einstakling, sem þeir þekktu alla með nafni. Þeir þurftu ekki önnur gögn eða marga nefndarfundi.

Þar var hreint ekki allt til fyrirmyndar, alls ekki, en meiraðsegja niðursetningar fengu húsaskjól og mat.

Hinir faglegu hreppsnefndarmenn nútímans bíða hins vegar eftir frekari gögnum og vísa málum til nefndar, eins og viðfangsefnið eða fjöldi þeirra sem í hlut eiga krefjist niðurstöðu doktorsritgerðar í félagsfræði.

Það eru mjög fyrirsjáanleg viðbrögð hinna faglegu. Og engum til sóma.

1,303