trusted online casino malaysia
Hallgrímur Helgason 31/03/2014

Englar alheimsins: Afmeyjun leikhússins

AR-702209937

137 þúsund landsmenn sáu beina útsendingu Sjónvarpsins úr Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi, segja fréttir dagsins. Englar alheimsins flugu inn í allar stofur landsins. Fyrir helberan klaufaskap hafði ég ekki séð þessa sýningu og var því einn af helmingi þjóðarinnar sem sat límdur við skjáinn, tölvuskjáinn í mínu tilfelli. Því kemur hér undarleg umfjöllun alltof sein og kveikt af sjónvarpsútsendingu fremur en leikhússetu. (Áður en lengra er haldið: Hrós á Egil Eðvarðs og fólkið hans á RÚV fyrir frábæra hanteringu á frekar snúinni sýningu.)

Þessi uppsetning er merkileg að mörgu leyti og markar ef til vill tímamót, því hér finnst manni sleginn nýr tónn. Yfirleitt eru leikgerðir íslenskra skáldsagna sæmilega hlýðnar orginalnum, penar og varkárar, en hér var eins og bókin væri opnuð og úr henni sprytti ómstríður andi sem jafnvel hinn ungi leikstjóri ætti erfitt með að hemja. Leiksýningin Englar alheimsins er kraftmikil, keyrsluglöð, orðahröð og óvenjuleg í nálgun sinni, sannarlega ný fyrir Ísland, og gefur í raun öllu langt nef, bæði bók, kvikmynd og leikhúsinu sjálfu.

Atli Rafn sveiflar persónu Páls upp í rjáfur í sigurvímu sinni sem og niður í dýpsta kjallara í örvætningu sinni og leikur bókstaflega á allt húsið, ekki síst í sjónvarpsútsendingunni sem hófst útá stétt og fór með okkur fram í áhorfendasal, baksviðs inn á klósett, út um allt svið og endaði uppi á leikmyndinni. Sjaldan hefur leikari fyllt eitt leikhús jafn kyrfilega vel. Kannski var hér um sjónvarpsáhrif að ræða en manni fannst hreinlega að andlit hans kæmist varla lengur fyrir á stóra sviðinu.

Sjálfur óttast ég fátt meir en þátttöku áhorfenda í leikverki og mér hefur alltaf fundist það heyra til mannréttinda að þeir sem kaupa miða í leikhús eigi rétt á því að vera látnir í friði, en hér fékk enginn að vera í friði, jafnvel varla við sem heima sátum, og samt er ekki hægt að kvarta, því áhorfendapotið var mikilvægur þáttur í sýningunni. Á sama hátt hefur manni þótt orðið þreytt og hvimleitt þetta meta-konsept um listaverk sem er meðvitað um að það sé listaverk, en einhvernveginn gengur það nú upp hér og engin þreytumerki greinanleg. Hámarki náði sjálfsvitund verksins í senunni frægu á Grillinu sem aðalpersónan “eyðilagði” og leikarinn hreytti út úr sér: “Er þetta ekki senan sem þið voruð að bíða eftir?”

Það þarf götts í svona.

Þetta var sýning sem tók sjálft leikhúsið í nefið og snýtti því út aftur. Sjaldan hefur maður séð slíka sigurvissu á íslensku sviði, sýningin beinlínis leiftraði af sjálfsöryggi. Maður getur næstum því sagt að Englar alheimsins hafi afmeyjað íslenskt leikhús, sem ekki verður samt eftir. Börnin sem það mun fæða verða þó örugglega engin englabörn.

Virðingarleysið var svo hressandi, krafturinn svo langþráður, pönkið svo kærkomið. Við, þessi stífa og stirrða þjóð, erum ekki vön slíkum þungavigtarléttleika á sviði. Ég er ekki frá því að þessi sýning gæti næstum því endurnýjað leikhúsið okkar sem var þó ágætt fyrir. (En ég tek það reyndar fram að ég veit ekki mikið um leikhús, og alls ekki neitt um þýskt leikhús. Því fylgir hér varúðartilkynning fyrir næstu setningu:) Leikstjórinn, Þorleifur Örn Arnarson, hefur komið sér vel fyrir í Þýskalandi þar sem þýska leikstjóraleikhúsið ríkir, en gefur sér jafnframt leyfi til að sleppa þeim leiðindum sem vilja gjarnan fylgja því eðla fyrirbæri. Eða hver hefur ekki séð Hamlet leikinn í líkkistu eða Beckett ofan í klósetti frammi í anddyrinu á Stadttheater Bonn?

Revíuleikþátturinn eftir hlé, þar sem forseti Íslands var færður úr sæti á fremsta bekk og upp á svið, sýndi vel að unga kynslóðin þorir það sem áður þótti tabú, að sveifla sér niður úr hámenningarturninum og dýfa nefinu niður í lágmenningarforina í listrænu teygjuhoppi. Þorir jafnvel að láta sig gossa ofan úr þýskum hámenningarturni, eigandi það á hættu að hálsbrotna. Extra bónus fyrir okkur sem heima sátum var svo að fá að sjá hinn raunverulega forseta fylgjast með gríninu um sjálfan sig. Ég hjó eftir því að ÓRG klappaði aldrei fyrir tilsvörum sínum á sviðinu nema einu sinni, þegar leikni forsetinn sagðist aldrei ALDREI ætla að hætta að vera forseti og það væri sko alls enginn brandari.

Það var sannkallað MVPM: Most Valuable Putin Moment.

Eitt það magnaðasta við þessa sjónvörpuðu sýningu var að henni tókst að skapa svo sterkt andrúmsloft á sviðinu — með sviðsmynd, búningum og tónlist, stemmningu sem var í senn spennuþrungin og afslöppuð — að þarna komu inn á milli, oft þegar minnst var um að vera í verkinu, augnablik þegar manni, já, jafnvel þeim sem heima í sófa lá, fannst hann “eiga heima” á sviðinu. Þetta gerist ekki oft í leikhúsi og kannski oftar í öðrum listgreinum, þegar listaverkinu tekst að “stöðva tímann” og opna lesanda, áhorfanda, áheyrenda, leið inn í sig, hugurinn hverfur inn á milli orða, lita, lína, nótna, og tekur sér þar bólfestu, heimilisfang sem síðan getur staðið óbreytt árum saman (eins og það þegar þú eygir laust sæti í brúðkaupi Bjarts og Rósu og laumast í það í miðri frásögn; þú situr þar allt þitt líf). Það eru þessi litlu augnablik sem gera bók, sýningu, tónverk ógleymanleg.

En þótt leiksýningin sýndi bókinni jákvæða vanvirðingu, sem náði hámarki þegar aðalpersónan lemur höfundinn í hausinn með ritverkinu, afbrýðissöm yfir verðlaunum sem hann fékk en ekki hún, náði textinn þó að skína vel í gegn og naut sín sem aldrei fyrr. Unun var að sjá leikarann kunna texta skáldsins svo vel að hann hann gat bæði farið með hann eldhratt og látið hann hljóma eins og beina útsendingu úr sál aðalpersónunnar Páls, líkt og hann hefði aldrei verið skrifaður. Umfjöllun í leikhléi, viðtal við Einar Má, frásagnir af bróður hans, Pálma Erni, og ekki síst gamall viðtalsbútur við móður þeirra bræðra urðu svo til að magna áhrifin enn. Englar alheimsins er nútíma klassík, textinn hefur nær ekkert látið á sjá, og bókin á skilyrðislaust heima í kanónunni sem Egill er að búa til í Kiljunni.

Það er eins og þau bókmenntaverk sem eiga sér raunverulegar þjáningar að baki endist oft betur en önnur.

PS. En mikið ansi var hann Balti góður sem Óli bítill í kvikmyndabútunum sem birtust þarna.

Flokkun : Pistlar
1,288