Engin helvítis skemmtisigling
Enn og aftur spáir sérfræðingateymi Herðubreiðar fyrir um úrslit landsleiks af íhygli og djúpstæðri þekkingu.
Svanhildur Hólm Valsdóttir: „Mig langar eiginlega ekki til að spá einhverjum úrslitum í þessum leik. Mig langar bara að strákarnir vinni og geri það þannig að við komumst örugglega áfram. Samt, ef ég hugsa út í það tek ég reyndar alveg dílnum að komast óvænt áfram, eða eftir talningu á gulum spjöldum eða bara á lækum Rúriks. Ef ég á að halda áfram með óskalistann vona ég að Jóhann Berg mæti hress, minn maður Emil verði í byrjunarliðinu, Albert Guðmunds fái að koma inn á í nokkrar æsispennandi lokamínútur og allir liðþófar, hásinar og höfuð verði í góðu lagi. Þessi leikur verður nefnilega að miklu leyti spilaður með hausnum. Verð ég að koma með úrslit? Hættu þessu! Niðurstaða þjóðhollustunefndar er 2-0. Held að ég fari varlegar í sakirnar og segi 2-1. Það eru alveg ónotuð úrslit þótt ég hafi spáð þeim síðast.“
Guðmundur Steingrímsson: „Nú treystir maður á að drengirnir ákveði einfaldlega að hafa bara nógu fjandi gaman af þessu og að einhvern veginn nái gleðin að skila þremur mörkum í netið, því hvernig ættu menn annars að segja takk fyrir sig? Löngunin til að segja almennilega bless getur þannig skilað okkur óvæntum sigri. Ísland þrjú, Króatía eitt.“
Svanborg Sigmarsdóttir: „Dubrovnic er ekki lengur saga bardaga og umsáturs heldur orðinn að áfangastað túrista sem láta fagurbláan sjóinn seiða sig. En heiðblár sjór er dýpri en fólk heldur og þetta verður erfiður leikur. 2-1 fyrir Króatíu. (Ég hef spáð öllum leikjum rangt hingað til og ætla ekki núna að byrja á því að fara að spá rétt).“
Logi Már Einarsson: „Við erum vissulega að fara að leika gegn einni mögnuðustu íþróttaþjóð veraldar; liði sem hefur heillað marga og sumir spá jafnvel verðlaunasæti. En fótbolti er ekki, frekar en lífið sjálft, nein helvítis skemmtisigling. Það verður örugglega bræla, henni fylgja uppköst, líklega einhver leki en þessu lýkur öllu með fallegri landsýn og stími inn lygnan fjörð: 1 -0.“
Steinunn Jenný Karlsdóttir: „2-1 fyrir Ísland af því að við ætlum að læra af síðasta leik.“
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021