trusted online casino malaysia
Bragi Kristjónsson 23/08/2014

Ekkja Steins Steinarrs segir frá (I)

Eftir Braga KristjónssonBragi Kristjónsson

Góðu vinir.

Eg veit, að eg er klikk. Það verður að hafaða. En datt í hug að birta hér eitt snilldarbezta viðtal, sem eg hef lesið.

Það er við Ásthildi Björnsdóttur, sem var eiginkona Steins Steinarrs skálds.

Eg veit vel, að enginn mun lesa þetta. En eg ætla samt að pikka það allt hér inn í nokkrum skömmtum.

 

Mitt hjarta er fullt af mjúku, svörtu myrkri.

sem mannlegt auga fær ei gegnum séð.

Í dimmri ró það dylur vitund þinni

á djúpsins botni alls, sem hefur skeð.

 

Lát storminn æða blint um höll og hreysi

og hrinda opnum dyrum ríks og snauðs.

Lát heimsins unað hyljast mold og sandi,

mitt hjarta er ríkt og gætir vel síns auðs.

 

Mitt hjarta er fullt af heitu, svörtu myrki,

sem hrynji miðrar nætur rökkursjár.

Og djúpt í þessu myrkri er mynd þín falin,

með munn sem granatepli og sólgyllt hár.

 

Steinn Steinarr orkti til Ásthildar Björnsdóttur.

———-

Skyldi þessi stúlka með granateplamunn og sólgyllt hár nokkurn tíma hafa verið til í raun og veru? Ætli hún hafi verið gerð úr þéttara efni en draumórum skáldsins?

Jú, það var sannarlega ekki einungis stúlka bak við þetta yndislega ljóð, heldur varð sú stúlka konan bak við skáldið. Hún heitir Ásthildur Björnsdóttir og hefur nú verið ekkja skáldsins í nærri 8 ár. Eg hringdi í hana og bað hana að segja mér ævisögu sína. Hún færðist undan, en bauð mér eins mikið og eg gæti drukkið af kaffi. Eg fór til hennar um kvöld og við skröfuðum allt mögulegt, um veðrið og roknastóra, svarta tík með hrokkinn feld – hana hefur Ásthildur sér til félagsskapar. Við töluðum okkur til skemmtunar um fólk, sem við þekkjum, ennfremur um kökur, gömul hús og nýjar bækur.

Það leið á kvöldið. Tíkin hrifsaði frá mér blöð, blýant og annan skóinn, og eg var farinn að óttast erindisleysu. En eg þrjóskaðist við og sat fram yfir miðnætti.

Því einmitt þá, þegar alger kyrrð ríkir, bílarnir híma hreyfingarlausir við sofandi húsin og heiðarlegt fólk er gengið til hvíldar, er rétta stundin til að veiða leyndarmál. Þeir fáu, sem enn eru á stjái, þrýstast nær hver öðrum undan ásókn niðdimmrar næturinnar allt um kring. Stingandi dagsbirtan fellur í þægilega gleymsku. Tíminn stendur kyrr „eins og kringlótt smámynt, sem er reist upp á rönd.“

Og sefjun miðnæturkyrrðarinnar brást ekki heldur í þetta sinn.

———-

Eg fæddist á Bergsstöðum í Svartárdal árið 1917, hóf Ásthildur máls. Faðir minn var séra Björn Stefánsson, en móðir mín Guðrún Ólafsdóttir. Var eg yngst fjögurra systkina. En ekki var eg nema ársgömul, þegar móðir okkar dó. Fór eg þá í fóstur til afa míns, séra Ólafs í Hjarðarholti í Laxárdal, og Ingibjargar ömmu minnar. En áður en ár væri liðið, hætti afi prestsskap og við fluttumst öll til Reykjavíkur.

Afi var sérstæður persónuleiki, og amma var merkileg kona, stíflynd, en kunni að fyrirgefa. Sorgin knúði oftar en einu sinni á dyr hennar, en hún æðraðist ekki og lét aðeins þessi orð falla, gömul kona. „Það er hægt að fyrirgefa það, sem Guð leggur á mann, en það er erfiðara að sætta sig við það, sem mennirnir gera manni á móti.“

Það ber afa gott vitni, að hann rak skóla á eigin kostnað í Hjarðarholti.

Bæði voru fjarska góð við mig. Á morgnana, um leið og eg vaknaði, skreið eg uppí rúm til afa og þegar aðrir krakkar töluðu um pabba og mömmu, skildi eg ekki, hvað þau áttu við. Reyndar hitti eg fjölskyldu mína sjaldan, því afi og amma vildu helzt ekki hleypa mér út. Auk móður minnar höfðu þau misst efnilegan son, og nú var ég það dýrmætasta, sem þau áttu.

Eg sat því tímum saman við gluggann og horfði með öfund og aðdáun á krakkana, sem gösluðust í forarpollunum fyrir utan, hrufluð og rifin.

Þegar eg var átta ára, voru afi og amma orðin svo gömul og slitin, að þau gátu ekki haft mig lengur. Eg fór þá aftur til föður míns, sem var nú kominn að Auðkúlu í Svínavatnshreppi. Fimm árum síðar kvæntist hann aftur.

Það voru mikil viðbrigði fyrir mig að koma aftur norður úr kyrrðinni hjá afa og ömmu, því að systkini mín voru ógnarlegir ærslabelgir, nema Ólafur nú prófessor (og síðar alþm. Sjálfstæðisfl.), sem var langelztur og þegar orðinn alvarlega þenkjandi. Höfðu þau mikla skemmtun af að troða mér upp í bás til kúnna, sem eg var lafhrædd við. En óttinn stóð ekki lengi, og brátt var eg orðin sami villingurinn og þau.

Þegar eg hafði aldur til, fór eg í menntaskólann á Akureyri. Við vorum þrjár stúlkur og þrjátíu piltar í mínum bekk. Í því plássi leiddist mér flest nema afasystir mín. Hún var fjarska listræn í sér, málaði og saumaði út og bjó til góðan mat, svo að það var veizla hjá henni á hverjum degi. Eftir stúdentspróf fór eg suður.

– Þú hefur auðvitað fengið þér einhverja vinnu?

– Vinnu!! Nei, þetta var árið 1937 og ekkert hægt að fá að gera. Systir mín, Þorbjörg, bjó í Ingólfsstræti 6 og hafði fasta atvinnu í banka, hundrað krónur í kaup á mánuði. Til hennar fluttist eg og lifði nú eins og blóm í eggi, því það var svo undarlegt, hvað maður þurfti lítið til lífsins. Eg átti eina peysu og eitt pils og fann mig ekkert skorta. Það litu margir inn til okkar á kvöldin, og við drukkum kaffi, löbbuðum út í Hljómskálagarð, en eg hef aldrei komið þangað síðan, og biðum eftir byltingunni, sem allir trúðu að væri á næsta leiti.

Eitt kvöld kom vinur og starfsbróðir systur minnar, Guðmundur Sigurðsson (rithöfundur og faðir Óttars geðlæknis) með skáldið Stein Steinarr til okkar. Steinn hafði þá gefið út tvær ljóðabækur. Sú fyrri hét í anda samtíðarinnar: Rauður loginn brann, hin síðari aðeins Ljóð.

Steinn SteinarrÝmsir urðu fjarska hneykslaðir á ljóðum Steins, en eg hef aldrei skilið almennilega hvers vegna. Í flestum kvæðum hans er stuðlasetning og rím. Þetta var nokkuð gott hjá þér, sagði Stefán frá Hvítadal, þegar nokkur kvæði Steins höfðu birzt í Lögréttu, en þú hefðir ekki átt að hafa þau svona mörg.

Hann tók gagnrýnina sjálfsagt nærri sér, þótt hann léti helzt aldrei á því bera. Og jafnframt andstæðingunum átti hann margt góðra vina, sem stöppuðu í hann stálinu.

Eg varð strax veik fyrir Steini. Eg get ekki sagt, hvað það var sérstaklega, sem laðaði mig að honum, nema það hafi verið, hvernig hann talaði, bæði röddin og hvernig hann komst að orði. Hugsunarháttur hans var gerólíkur því, sem aðrir tömdu sér. Að kynnast Steini er eini viðburðurinn, sem nokkurntíma hefur komið fyrir mig í þessu lífi. Og síðan er eg gerbreytt. Það, sem gerðist áður, er fyrir mér eins og draumur.

Nei, við giftumst ekki nærri strax, en Steinn kom á kvöldin og las fyrir okkur með sinni þýðu rödd, bækur Kiljans, jafnóðum og þær komu út. Við urðum persónunum nákunnug, eins og lifandi fólki.

Vilmundur landlæknir, sem kvæntur er frænku minni, kallaði okkur Stein aldrei annað en ofvitann og englapíkuna, samanber Höll sumarlandsins.

Reyndar var fjölskylda mín ekki sérlega hrifin af samdrætti okkar, kannski hefur fólkinu mínu ekki þótt Steinn nógu fínn. En síðan eg kynntist honum hefur mér aldrei fundizt til um menn fyrir það eitt, að þeir sitji í háum stöðum. Það er margt fólk, sem ber ógurlega virðingu fyrir langskólagengnum mönnum og margt fólk, sem verður fjarskalega upp með sér, ef því hlotnast sú náð að lenda í boði með ráðherra. Mér finnst svo undarlegt að láta sér detta þetta í hug. Er óheiðarlegur ráðherra til dæmis meiri virðingar verður en róninn í rennusteininum? Eg met fólk algerlega eftir því, hvernig mér líkar við það sem manneskjur. Það særir mig, þegar fólk seilist eftir vegtyllum.

Eftir stríðslok fór Þorbjörg systir til útlanda. Við vorum þá komnar niður í Lækjargötu og Steinn flutti inn í staðinn. En það var jafngestkvæmt og áður. Við geymdum lykilinn undir mottunni, svo að kunningjar okkar gætu komizt inn, þó að við værum ekki heima, ef þeir þurftu á að halda.

Magnús Ásgeirsson var einn af vinum okkar. Hann bjó í Hafnarfirði og oft þegar við komum heim, sat hann í stól í stofunni og beið eftir strætó. Það var ekki sjaldan, að hann hafði portvínsflösku fyrir framan sig, og sagði þá við okkur eins og afsakandi: „Eg er nú bara að drekka með kettinum.“

Atvinnuleysið var þá úr sögunni fyrir löngu, og eg var farin að vinna á hagstofunni. Og þarna hafði eg loks eignazt heimili, fastan punkt í tilverunni. Þetta var mér dýrmætt, meðfram vegna þess að eg hafði alizt upp á hálfgerðum flækingi. Eiginlega var eg engum eða engu tengd nema Steini, og oft var eg að hugsa um, hvað eg væri fegin að hafa ekki gifzt neinum öðrum.

Jú, sérstaklega vorum við á hrakhólum með húsnæði. Úr Lækjargötunni urðum við að fara eftir fáein ár. Fengum þá ekkert nema herskálaíbúð í Kamp Knox. Það var rúmgott og ekki óvistlegt, en ógurlegur kuldi, eins og í tjaldi væri. Steinn fékk þá asthma, sem hann losnaði ekki við fyrr en við fórum þaðan. En við áttum ágæta nágranna í skálunum í kring, þar á meðal Þorvald Skúlason, sem bjó þarna í nokkur ár og m.a. málaði mynd af Steini. Hann kom einusinni til okkar með útlending, sem hann kvað vera að leita að menningunni. „Og heldur hann, að hún sé hérna í Kamp Knox?“ spurði eg.

(Fyrri hluti – seinni hluti er hér)

Flokkun : Pistlar
1,415