trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/09/2016

Ekki höfum vér kvennaskap

Tíðindi helgarinnar í prófkjörsmálum voru ótíðindi í flestum skilningi. Í fyrsta lagi er tilfinningin sú að ekkert hafi í rauninni gerst – engin tíðindi hafi orðið – ríkjandi ástand haldi bara áfram út í hið óendanlega.Guðmundur Andri

Í öðru lagi komust í örugg sæti menn sem manni finnst ekki eiga erindi á þing; enn séu kjósendur að senda okkur fulltrúa sem ekki séu líklegir til að auka virðingu fyrir þessari mikilvægustu stofnun landsins.

Og í þriðja lagi: fimm alþingiskonur detta út af þingi. Í furðu mörgum prófkjörum helgarinnar taka kjósendur undir með Skarphéðni í Njálu þegar hann svarar frýjunarorðum móður sinnar Bergþóru (sem var drengur góður) með þessum orðum: „Ekki höfum vér kvennaskap.“

Helmingur mannkyns
Móðir mín sagði einhvern tímann aðspurð um jafnréttismál að hún skildi ekki hvernig karlar gætu haft fordóma gagnvart konum – konur væru helmingur mannkyns. Og bætti við: „Ekki hef ég neina fordóma gagnvart körlum.“

Fjórir karlar í efstu sætum Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Þrír karlar í efstu sætum í Suðurkjördæmi. Tilviljun segja sumir; bara stjórnmálamenn sem dæmdir eru af verkum sínum. Ég veit það ekki. Þegar horft er á karlana sem völdust og konurnar sem sagt var að vera úti þá blasir aðeins eitt við. Ekki höfum vér kvennaskap.

Því fer auðvitað fjarri að konur séu alltaf betri stjórnmálamenn en karlar. Margrét Thatcher stóð fyrir breytingum á bresku samfélagi sem voru til óþurftar fyrir flest fólk – niðurrifi á samfélagslegri þjónustu, græðgisvæðingu og auðvaldseflingu sem við erum enn að súpa seyðið af. Og valdníðslu og vitleysisgang vondra kvenstjórnmálamanna á Íslandi þarf ekki að hafa mörg orð um.

Skárra væri það nú. Konur eru alls konar. Þær eru með öðrum orðum helmingur mannkynsins, og verður að teljast með nokkrum ólíkindum hversu illa kjósendum Sjálfstæðisflokksins gengur að finna konu að sínu skapi.

Þó að konur geti verið skelfilegir stjórnmálamenn – eins og dæmin sanna – þá höfum við óþægilega mörg dæmi um farsælar, vinnusamar og réttsýnar konur sem nú hverfa af þingi af margvíslegum ástæðum: Brynhildur Pétursdóttir úr BF, Katrín Júlíusdóttir úr SF og Ragnheiður Ríkharðsdóttir úr Sjálfstæðisflokki eru allar að hætta þingmennsku of snemma. Margrét Tryggvadóttir hefði svo sannarlega átt erindi aftur á þing. Og eru þá ótaldar þær þingkonur sem kjósendur höfnuðu í prófkjörum helgarinnar, en völdu í staðinn karla sem virðast margir síðri kostur. Samfylkingin sér af Ísafjarðarskörungnum Ólínu Þorvarðardóttur, sem er rökföst og hefur ríka réttlætiskennd – og Valgerði Bjarnadóttur sem hefur verið með ágætustu og hugsjónaríkustu þingmönnum Samfylkingar og sú sem bar hitann og þungann inni á þingi af því að reyna að koma hér á nýrri stjórnarskrá.

Kynleiðrétting
Sjálfstæðismenn höfnuðu Elínu Hirst úr Kraganum og varaþingmanninum Bryndísi Loftsdóttur, sem báðar eru mjög frambærilegir þingmenn. Þeir höfnuðu líka Unni Brá Konráðsdóttur sem vakið hefur virðingu langt út fyrir flokksraðir fyrir góð störf og Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem er umdeildust þessara kvenna, enda hafa henni verið mislagðar hendur í störfum sínum.

Hver þessara kvenna hefur verið með sínu móti í störfum sínum og þær ættu að höfða til ólíkra hópa. En nei, kjósendur flokksins völdu heldur kall sem hefur haldið þruglræður í Trump-stíl um innflytjendamál og notað orðið „múslimistar“ um útlent fólk sem ekki hefur annað til saka unnið en að vilja búa hér; og kall sem gat sér orð þegar hann var valinn til að stýra fátækri menningarstofnun og lét það þá verða sitt fyrsta verk að láta stofnunina kaupa handa sér rándýran montjeppa – fór svo að reka fólk til að afla fjár. Og kall sem lítur á hvalveiðar og stóriðju sem helstu hugsjónamál Íslands. Og kall sem er að finna í Panamaskjölum. Og kall og kall og kall.

Skiptir það máli hvort karlar eða konur veljast? Nei. Og þess vegna skiptir það einmitt máli þegar aðeins karlar veljast. Því karlar eru alls konar og konur eru alls konar – og konur eru sem sé helmingur mannkyns. Og þess vegna tekur maður eftir því þegar annað kynið nánast hverfur af vettvangi hjá svo stórum og öflugum flokki. Nema Sjálfstæðisflokkurinn telji að nú sé kominn tími fyrir kynleiðréttingu hjá sér – eftir þær umbætur að losa sig við frjálslynda fólkið í Viðreisn.

Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðið, 12. september 2016

1,375