trusted online casino malaysia
Gestastofa 14/12/2014

Ég myndi ekki treysta honum

Jón Steinar GunnlaugssonEftir Jón Steinar Gunnlaugsson

Nú fékk ég aftur (í gær 13. des.) orðsendingu frá Jóni Ólafssyni heimspekingi hér á síðu Herðubreiðar í framhaldi af orðaskiptum okkar fyrir viku um efnisþætti í bók minni „Í krafti sannfæringar“.

Þessi seinni grein Jóns er mun skárri en sú fyrri. Sá er samt ljóður á ráði hans að hann talar ennþá til mín af yfirlæti og jafnvel hroka. Meðal annars segir hann kenningar mínar vanhugsaðar; í besta falli séu þær villandi, í versta falli fáránlegar. Ég sé grunnhygginn. Fleiri rjómabollur réttir hann að mér.

Það ber venjulega vott um veikleika í efninu og minnimáttarkennd að setja sjálfan sig á háan hest í samtölum við aðra eins og Jón gerir. Hann ætti að reyna að venja sig af því, þó ekki væri til annars en að reyna að auka trúverðugleika í ræðu sína. Þar sem ég þykist sjá í gegnum þetta fyrirgef ég honum.

Nokkur orð um þessa síðari grein Jóns.

Ég hafði nefnt að Jón virtist hafa á mér andúð. Það gerði ég af þeirri ástæðu að mér fannst tilgátan til þess fallin að varpa ljósi á hugarfar á bak við skrif hans sem virtust á köflum alls ekki vera um bók mína og viðhorfin sem þar birtast. Gott er að lesa að þetta hafi verið misskilningur, þó að mér sé svo sem alveg sama hvaða hug hann ber til mín.

Það er ánægjulegt ef augu Jóns hafa opnast fyrir því að niðurstaða réttarágreiningsmáls eigi að verða sú sama hvort sem dómarinn heitir Pétur eða Páll. Í þessu felst viss kjarni ræðu minnar. Þegar hann hins vegar tekur að fjalla um að kenning mín, sem hann nefnir svo, sé þekkingarfræðileg frekar en siðfræðileg verður hann frekar óskýr í tjáningu sinni. Kannski er hann að reyna að segja að ég telji niðurstöðu ágreiningsmálsins alltaf leiða af fyrirliggjandi (ágreiningslausum?) staðreyndum fremur en afstöðu dómarans til mikilvægis þeirra fyrir verkefnið sem verið er að vinna við. Ekki veit ég þá hvernig hann dregur þessa ályktun um skoðanir mínar. Ég hef margoft lýst því að frambærilegur ágreiningur geti verið um val á þeirri réttarheimild sem beita eigi. Þar komi persónuleg sjónarmið dómara stundum við sögu, þó að keppikeflið hljóti að vera að útrýma þeim til þess að rétturinn sé einn en ráðist ekki af einstaklingsbundnum takmörkunum eða jafnvel geðþótta dómarans.

Mér sýnist Jón fyrst og fremst beita hugtökum sínum á umræðuefni okkar til þess að geta haldið uppi orðagjálfri um frekar einfalda hluti. Meðal þess sem hann segir er að grundvallarmunur sé á því annars vegar að í hverju álitamáli skuli beita tilteknum aðferðum en ekki öðrum (á þetta virðist hann fallast) og hins vegar að í hverju máli sé til ein og aðeins ein rétt niðurstaða og dómara beri að leita hennar (þetta virðist hann telja rangt). Í mínum huga fellur þetta tvennt saman. Ef dómarinn beitir hinum réttu aðferðum hlýtur það að leiða til ákveðinnar niðurstöðu, það er hinnar einu réttu. Heimspekingurinn myndi skýra mál sitt betur ef hann einfaldlega nefndi dæmi um ágreiningsmál þar sem dómarinn beitir hinum einu réttu aðferðum en tvær jafnréttar niðurstöður verði samt til.

Í lögfræðinni er okkur kennt að niðurstaða um réttarágreining eigi að ráðast af beitingu svonefndra réttarheimilda. Þá er verið að kenna okkur hvaða aðferðum sé heimilt að beita til að leysa úr ágreiningsmálum. Okkur verður líka ljóst að sumar heimildir ganga framar öðrum. Svo vitum við öll vel að ekki eru allir sammála um úrlausn þeirra álitaefna sem á vegi okkar verða. Það getur verið fullkomlega eðlilegt eins og ég reyni að lýsa í bók minni. Sá sem fer með valdið til að leysa úr ræður. Hann velur sína lausn í málinu vegna þess að hann telur hana þá einu réttu. Kannski erum við Jón heimspekingur sammála um þetta? Ef þetta er rétt hjá mér er björninn eiginlega unninn, hvað sem heimspekilegu orðagjálfri líður. Dómarinn hafði ekki val heldur bar honum að finna þá niðurstöðu sem hann taldi rétta eftir að hafa skoðað allt sem máli skipti og aðilar málsins höfðu lagt fyrir hann. Hann beitti sinni bestu þekkingu og dæmdi eftir því siðfræðilega viðhorfi að ein niðurstaða á álitaefninu væri rétt. Niðurstaða hans var þekkingarfræðilega fullnægjandi og uppfyllti siðfræðilegar kröfur dómarans svo notað sé tungutak Jóns.

Reglan um sakleysi þar til sekt sannast er ekki bara lagaregla. Hún er líka ólögfest siðaregla sem á að gilda um samskipti okkar í daglegu lífi. Gegn henni braut lýðurinn eftir dóminn í máli prófessorsins sem hafði verið sýknaður í Hæstarétti. Þar naut múgurinn raunar stuðnings heimspekingsins sem Jón Ólafsson nefnir til sögunnar í greinum sínum og finnst „prýðilegur“. Kannski þeir félagar séu staðfastir í því að verið hafi siðferðilega rétt af múgnum að hrekja þennan mann úr atvinnu sinni, leggja fjölskyldu hans í rúst og hrekja hann úr landi eftir að hann hafði verið sýknaður fyrir dómi. Þetta eru miklir siðameistarar. Svo er að þeirra dómi sýnilega nægilegt til að koma mönnum úr háum embættum eins og biskupsins að bera þá sökum um fyrri tíma afbrot sem aldrei er hægt að sannreyna hvort framin hafi verið. Og þessir menn eiga að vera sérfróðir um siðfræðileg efni, eða hvað?

Við erum öll frekar ófullkomin og látum alls kyns geðþótta ráða afstöðu okkar í daglegu lífi til manna og málefna. Ég sá til dæmis konu í sjónvarpsþætti um daginn sem mér fannst ógeðfelld, þó að ég gæti vel trúað að Jóni hefði fallið vel við hana. Ekkert er athugavert við þetta. Niðurstöður okkar eru báðar jafn réttar. Af þessu verður hreint ekki dregin sú ályktun að okkur sé heimilt að telja mann sekan um að hafa brotið af sér, án þess að sökin hafi sannast.

Þrátt fyrir sáttatóninn í þessum tveimur síðari greinum okkar Jóns er ég afar feginn því að hann skuli ekki fara með dómsvald. Ég myndi ekki treysta honum.

Jón Steinar Gunnlaugsson

Flokkun : Pistlar
1,258