trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/03/2014

Efni: Öppdeit á ástandi

Eftir Sigtrygg Magnason

Reykjavík í byrjun nóvember 2008:

Efni: Öppdeit á ástandi

Kæri Steinn,

mér hefur verið falið að tilkynna yður að enn höfum við ekki náð að koma ballet yðar um Tímann og Vatnið á svið. Dansarinn sem fara átti með hlutverk Tímans lést þegar hann varð fyrir bíl á Hringbrautinni, nánar tiltekið við styttuna af Héðni Valdimarssyni. Við höfðum einnig hugsað okkur að hlutverk Vatnsins yrði ekki danshlutverk heldur færi ung leikkona með hlutverkið í beinni útsendingu frá Sundhöllinni. Tæknilega var þetta ekki óyfirstíganlegt vandamál. Framkvæmdin var hins vegar dýr og ofan á tæknikostnað bættist kostnaður við leigu og lokun á Sundhöllinni.

Mér þykir leiðinlegt að ekki er séð fram á að verk yðar verði sviðsett á næstu misserum vegna mikillar kreppu sem skall á fyrir skemmstu og er fyrirsjáanlegt að ríki næstu mánuði og ár.

Af því þér eruð áhugamaður um samfélagsmál þá kemst ég líklega ekki hjá því að gefa yður smá öppdeit á ástandinu.

Við, íslenska þjóðin, héldum nefnilega að við værum orðin rosalega rík, við héldum það af því við höfum alltaf ruglað saman eignum og skuldum.

Við, íslenska þjóðin, höfum nefnilega látið peningamönnunum eftir lýðræðið síðustu árin.

Það var orðin óafsakanleg misskipting á auði og völdum.

Það var ekki allt í lagi.

Það var nefnilega vitlaust gefið.

Með kveðju,

Sigtryggur Magnason.

 

Júníhefti 2012, skrifað haustið 2008 í tilefni af aldarafmæli Steins Steinarrs

Flokkun : Menning
1,264